Leit
Loka

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er stefna Landspítala að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi við ákvörðunartöku og í daglegu starfi.

  • Umhverfisstefna Landspítala  er leiðarvísir að þessari framtíðarsýn. Ýmis skref hafa verið stigin í átt að umhverfisvænni Landspítala síðan stefnan var sett 2012 og fjölgar þeim jafnt og þétt.
  • Loftslagsmarkmið og áætlun Landspítala í umhverfismálum 2023-2025. sýna áframhaldandi metnaðarfull markmið um samdrátt í losun kolefnisspors spítalans komandi ár. Áherslur eru þríþættar; kolefnishlutlaus heilbrigðisþjónusta, enginn úrgangur og heilbrigt umhverfi og telja eru aðgerðir áætlunarinnar um 60.  
  • Kolefnisjöfnun. Landspítali hefur lagt áherslu á að koma í veg fyrir losun koltvísýringsígilda í stað þess að leggja fé í að kolefnisjafna. Á spítalanum eru fjölmörg tækifæri til að draga úr losun og hefur náðst viðurkenndur árangur í að koma í veg fyrir losun til frambúðar t.d. með því að setja upp glaðloftseyðingabúnað, hætta að nota svæfingagös með háan hlýnunarmátt, hætta að nota olíuketil til orkuframleiðslu, orkuskipti bifreiða, efla vistvænar samgöngur og auka flokkun úrgangs. Þessar aðgerðir hafa dregið úr losun um 40% síðustu ár. Fleiri tækifæri eru til að draga úr losun með beinum aðgerðum og verður áfram áhersla á það í stað kolefnisjöfnunar.

 

    

  

Árangur Landspítala

Sýna allt

Landspítali er einn stærsti vinnustaður landsins með rúmlega 5 þúsund starfsmenn.

Starfsemin er fjölbreytt og umfangsmikil, allt frá innkaupum og byggingarframkvæmdum til ýmiss konar rannsókna og meðferða í heilbrigðisvísindum.

Spítalinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir heilsu fólksins í landinu en starfsemi hans hefur líka í för með sér heilmikil áhrif á umhverfið. Sem dæmi má nefna að daglegt starf á spítalanum krefst mikilla flutninga og ferða, töluvert fellur til af úrgangi, notuð eru lyf og varasöm efni, mikið er keypt af vörum og þjónustu, tækjabúnaður krefst mikils rafmagns og notuð eru kynstrin öll af einnota vörum og umbúðum.

Allt hefur þetta áhrif á umhverfi og heilsu með einum eða öðrum hætti.

Undanfarin ár hefur verið unnið ötullega að verkefnum sem draga úr umhverfisáhrifum.

Áhersla hefur verið á að vinna með starfsmönnum, hagsmunaaðilum og að deila reynslu spítalans.

Starfsmenn hafa verið ötulir liðsmenn, tekið breytingum fagnandi og átt margar góðar hugmyndir.

Reynt er að gera hlutina sem einfaldasta og skýra sé þess kostur, þannig að auðvelt sé að vera umhverfisvænn.

Glaðloft við fæðinguEinn stærsti hluti kolefnisspors Landspítala er glaðloft og önnur svæfingagös. Glaðloft veitir góða verkjastillingu en er 300 sinnum öflugari gróðurhúsalofttegund en CO2. Við því hefur Landspítali brugðist og komið upp eyðingabúnaði fyrir glaðloft á kvennadeild þar sem notkunin er mest.

Gefinn hefur verið út bæklingur fyrir verðandi foreldra um glaðloft og hvernig það nýtist best sem verkjastilling en með lágmarks umhverfisáhrifum.

Breytingar á aðferðum við svæfingar hafa dregið mjög úr kolefnisspori; notaðar hafa verið lágflæðissvæfingar sem nýta mun betur svæfingagösin og notkun svæfingagasa sem hafa lítil gróðurhúsaáhrif á kostnað t.d. desfluran sem er 2540 sinnum öflugari gróðurhúsalofttegund. Að hætta með desflurane dró saman losun um 200 tonn CO2-íg sem jafngildir hátt í ársakstri 100 fólksbíla.
Tímalína í umhverfismálum á Landspítala 2021

Umhverfisstefnunni er markvisst fylgt eftir. 

Í grænu bókhaldi er haldið utan um tölur sem tengjast umhverfisþáttum, meðal annars unnið að því að auka flokkun úrgangs, draga úr notkun á einnota vörum, minnka matarsóun, auka vistvæn innkaup og hvetja starfsmenn til að nota vist- og heilsuvæna ferðamáta til og frá vinnu.

Spítalinn hefur lagt áherslu á mælanlegan árangur og hefur haft ISO 14001 staðalinn til viðmiðunar. Fylgt er lagakröfum, unnið er eftir stefnu og starfsáætlun með stuðningi framkvæmdastjórnar og umhverfisnefndar spítalans.

Grænt bókhald   

  • Endurvinnslutunnur á LandspítalaÁrið 2021 féllu daglega til um 5 tonn af úrgangi frá starfsemi Landspítala. Daglega voru það 3,8 4 tonn frá almennum rekstri en 1,2 tonn vegna framkvæmda. Úrgangur frá framkvæmdum sveiflast mikið milli ára.
  • Árið 2021 náðist markmið um 40% endurvinnslu en hlutfallið er nú 43% með tilheyrandi áhrifum á kolefnisspor spítalans. Nú fer loks allur lífrænn úrgangur frá eldhúsi í gasgerð og aukin endurvinnsla er á byggingarúrgangi.
  • Vorið 2017 bættist glerflokkurinn við frá deildum, árið 2021 var safnað 850 kg mánaðarlega.
  • Á öllum deildum eru skýrar upplýsingar og aðstaða fyrir plast, pappír, pappa og aðra algenga flokka.
  • Flokkað er í 26 flokka á spítalanum samkvæmt flokkunartöflu.
  • Pappírsendurvinnsla hefur margfaldast frá því að umhverfisstefnan var sett og farið úr 11 tonnum 2012 í 124 árið 2020.
  • Plastendurvinnsla hefur sexfaldast, farið úr 8 tonnum 2012 í 55 tonn 2021.
  • Endurnýting hefur verið aukin, m.a. er nú safnað notuðum fötum í þvottahúsi Landspítala sem Rauði krossinn tekur, árlega gera það 4-6 tonn.
  • Lífræn flokkun er í eldhúsi og matsölum og sent til gasgerðar sem nemur um 4,9 tonn/viku.
  • Afgangsmatarolíu er komið til orkuendurvinnslu.
  • Verklag um bætta meðhöndlun hættulegra efna hefur verið innleitt.

  • Mikill áhugi starfsmanna á vistvænum samgöngum ýtti á uppbyggingu aðstöðu og samgöngusamninga frá 2014. Átak 2014 jók fjölda starfsmanna sem ferðast vistvænt farið úr 21% í 28%. Af þeim töldu 82% samgöngusamninginn hafa góð áhrif á heilsu sína og líðan.
  • Reglulega eru gerðar ferðavenjukannanir sem sýna jákvæða þróun, yfir sumartímann ferðast allt að 40% starfsmanna oftast með vistvænum hætti.Samkvæmt ferðavenjukönnun vildu fleiri ferðast með Strætó. Árið 2019 hófst verkefni með niðurgreidd árskort í Strætó, starfsfólk greiðir 32.500kr í stað 90.000kr. Verkefnið hefur gengið mjög vel; Fjöldi starfsmanna með virk árskort margfaldaðist, mælingar Strætó sýna aukna notkun og samkvæmt könnun notuðu 81% korthafa strætó daglega, fjölgun var á samgöngusamningi og 12% aukning yfir vetrarmánuðina.
  • Hjólaaðstaða hefur batnað með öruggum hjólabogum og víða eru aðgangsstýrð hjólaskýli. Við uppbyggingu er unnið eftir markmiðum um að hjólastæði rúmi fjölda hjóla 40% starfsfólks og nemenda á hverri starfstöð.
  • Á nokkrum starfsstöðvum notar starfsfólk rafskútur eða rafhjól fyrir vinnuferðir.
  • Á fjórum starfsstöðvum spítalans geta gestir og starfsmenn hlaðið rafbíla á ON 12 hleðslupóstum.


  • Landspítali er stórkaupandi og getur þannig haft mikil áhrif á markað með því að setja kröfur.
  • Ýmis dæmi er um að umhverfiskröfur við innkaup á Landspítala hafi skilað bæði sparnaði og betra umhverfi. Útboð á prentþjónustu leiddi til ýmis konar hagræðingar, 50 milljón króna sparnaði árlega, stórminnkaðrar pappírsnotkunar og fækkun prentara úr 1200 í 300.
  • Orkuskipti standa yfir á bílaflota spítalans sem mun minnka mengun, kolefnisspor og rekstrarkostnað um rúmar 20 milljónir á ári.Vistvæn innkaup Landspítala

Vistvæn innkaup

Landspítali vill vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og fylgir stefnu ríkisins um sjálfbær innkaup þar sem segir að vistvæn innkaup ríkisaðila séu almenn regla

Áherslur Landspítala eru að:

  • Keyptar vörur og þjónusta hafa sem minnst umhverfisáhrif og lægstan líftímakostnað.
  • Minnka sóun á magnvörum, m.a. einnota vörum.
  • Umhverfisáhrifum sé haldið í lágmarki vegna notkunar á varasömum efnum, lyfjum og lyfjagösum.
  • Draga úr myndun úrgangs og endurvinnsla og endurnýting aukin. 

Sértækari innkaupakröfur 
Landspítali setur umhverfiskröfur í öllum innkaupum þar sem hægt er. Áhersla er á að kaupa vörur sem:

  1. Eru umhverfismerktar (tegund 1) ef í boði á markaði. Innihalda ekki hættuleg efni fyrir heilsu og umhverfi samkvæmt evrópskum lista yfir efni sem skal fasa út í heilbrigðisþjónustu
  2. Efni (yfir 0,1% af þyngd) á kandidatslista ESB (efni sem eru sterklega grunuð um að hafa alvarleg áhrif á heilsu og umhverfi). Efni á listanum ættu ekki að vera í vörum Landspítala nema að annað sé ekki í boði.
  3. Efni sem valda krabbameini, stökkbreytingum eða hafa æxlunarhemjandi áhrif (CMR fl 1A eða 1B
             1. Polyvinylklóríð (PVC)
             2. Þalöt
             3. Bísfenól A (BPA)
             4. Eldhemjandi efni
             5. Sýkingahemjandi efni (antimicrobial agents)
             6. Per- og polyflúoralkyl efni (PFAS)
  4. Uppfylla Norrænar kröfur um vistvænni umbúðir (https://www.regioner.dk/media/21262/nordic-criteria-for-more-sustainable-packaging-march-2022.pdf):
    •     Minni úrgangur vegna umbúða
    •     Umbúðir séu hannaðar fyrir endurvinnslu
    •     Umbúðir séu úr endurunnu efni eða frá sjálfbærum uppsprettum

Meta þarf hverju sinni hversu langt er hægt að ganga, aðlaga þarf umbúðakröfur að vörunum.

 

umhverfisvænar pakkningar

Landspítali vinnur skipulega að því að minnka notkun einnota vara og fyrirbyggja sóun. Á spítalanum er töluvert um einnota vörur m.a. við hjúkrun, lækningar, rannsóknir og ýmsan rekstur. Einnota vörur geta verið nauðsynlegar, til dæmis í sóttvörnum. Stundum er þó hægt að skipta þeim út fyrir margnota vörur.

  • Vagnayfirbreiðslur sem voru teknar í notkun 2012 eru til dæmis hagkvæmar og umhverfisvænar. Þær spara árlega ríflega 6 milljónir króna og 10 tonnum minna er notað af plasti.
  • Landspítali notaði um 6 tonn af bekkjapappír árið 2013 eða 370 km og það kostaði 2,6 milljónir. Á barnadeild er ekki notaður bekkjapappír með góðum árangri og sparnaði. Fleiri deildir fylgja nú í kjölfarið. Eftir átak sem er í gangi þá sýnir samanburður á milli 2016 og 2017 samdrátt upp á 11% eða 700 kg minna af bekkjarpappír verður notaður á Landspítala eftir 2017.
  • Pappírsnotkun minnkaði um 45% frá 2009 og 2013 vegna ýmissa aðgerða m.a. innleiðingar á prentþjónustu. Prenturum fækkaði á sama tíma úr 1.290 í 291.
  • Frauðplastboxum hefur fækkað um 123.000. Tekin voru í notkun margnota matarbox í matsölum án PA sem spara fé, umhverfi og úrgang. Frá árinu 2017 bættust margnota súpubox við.
  • Áætlað er að minnka enn frekar notkun á einnota vörum, til dæmis skóhlífum. Fjölmargar hugmyndir frá starfsmönnum liggja fyrir um þetta og ýmsum þeirra hefur þegar verið hrint í framkvæmd á deildum spítalans.
  • Landspítali hætti að kaupa frauðglös 1. janúar 2017.

  • Hættulegur úrgangur, m.a. efnaúrgangur, sóttmengaður úrgangur og rafeindabúnaður, fellur til víða á Landspítala. Unnið hefur verið að því að bæta verklag við meðhöndlun hættulegs úrgangs, að það sé skýrt, í samræmi við löggjöf og innleitt á öllum deildum spítalans.
  • Verið er að innleiða Eco-online, kerfi sem bætir efnastjórnun á spítalanum.
  • Í innkaupum á vegum spítalans eru gerðar kröfur í útboðum og verðfyrirspurnum um að vörur innihaldi ekki ákveðnar vörur.
  • Aðkeypt ræstiþjónusta er 100% umhverfisvottuð sem felur m.a. í sér að notuð eru umhverfis- og heilsuvæn ræstiefni.
  • Í eldhúsi og matsölum hefur efnum fækkað úr 26 í 16 og hlutfall umhverfisvottaðra ræsti- og hreinsiefna hefur aukist í 99%.
  • Í þvottahúsi spítalans eru gerðar kröfur um umhverfisvæn efni, þar af eru yfir 90% umhverfisvottuð.

Eldhús Landspítalans er eitt stærsta eldhús á Íslandi og útbýr um 5000 máltíðir á dag fyrir starfsmenn, gesti og sjúklinga. Árið 2015 fékk eldhúsið umhverfisvottun Svansins og skiluðu umhverfisaðgerðir eldhússins miklum og jákvæðum ávinningi.

  • Daglega er boðið upp á grænmetisrétt, þeim sem kaupa mat í matsölum fjölgaði um 30% og ánægja gesta jókst um 50%.
  • Vel er fylgst með matarsóun og reynt að draga úr henni eins og kostur er; skammtar hafa verið aðlagaðir, pöntunarkerfi matsala þróað og innkaup vel skipulögð. Frá janúar 2017 hefur óseldum matarskömmtum til starfsmanna verið safnað og komið til Samhjálpar.
  • Aukið framboð er af lífrænt ræktuðum mat, 13 tegundir eru í boði reglulega, 7 af þeim eru í boði daglega.
  • Fleiri umhverfisvottaðar vörur eru notaðar, 99% ræstivara, allur hreinlætispappír, skrifstofupappír og servíettur.
  • Minna plast og einnota ílát: boðið er upp á margnota matar- og súpubox eða einnota pappabox og hnífapör úr plöntumassa fyrir gesti sem vilja taka með sér matinn. Aðrir gestir nota margnota borðbúnað. Plastílát heyra sögunni til.
  • Meira til endurvinnslu: Flokkunarstöðvar fyrir gesti eru í öllum 9 matsölum og í eldhúsinu er flokkað í 7 úrgangsflokka sem fara til endurvinnslu. Allir matarafgangar fara til jarðgerðar og starfsmenn spítalans fá ókeypis motlu úr jarðgerðinni.
  • Starfsemi Landspítala krefst töluverðrar orku- og vatnsnotkunar. Rafmagnsnotkunin jafngildir notkun um 4.470 heimila og heitavatnsnotkunin um 1.760 heimila (tölur 2021).
  • Kostnaður vegna rafmagns og heits vatns er um 360 milljónir á ári.
  • Orkuúttektir í nokkrum byggingum og úrbætur í kjölfarið skiluðu töluverðum orkusparnaði.
  • Árið 2019 var hætt notkun á olíukatli á Hringbraut sem knúði tæki í eldhúsi o.fl. Með þeirri aðgerð dróst saman losun kolefnisspors um 270 tonn CO2-íg.

Fyrirhugað er að nýr Landspítali uppfylli ýmsar umhverfiskröfur, m.a. um umhverfisvottun BREEM.

  • Við hönnun nýs spítala er heilsa og vellíðan notenda í fyrirrúmi og auk þess skapaðar forsendur fyrir því að starfsemin verði sem umhverfisvænust. Þar má nefna áherslu á heilnæmt inniloft, góða hljóðvist, dagsbirtu sem víðast, góðar aðstæður fyrir hjólandi, gangandi og almenningssamgöngur, heilnæm og vistvæn byggingarefni og góða orkunýtingu bygginga.
  • Á framkvæmdatíma verða gerðar kröfur til verktaka um umhverfisstjórnun sem tryggi að umhverfisáhrif verði sem minnst meðan á framkvæmdum stendur.
  • Sjúkrahótelið sem tekið var í notkun 2018 fékk fékk 81% stiga í hönnunarvottun hússins og hlaut því svokallaða „Excellent“ einkunn samkvæmt BREEAM kerfinu. Er þetta hæsta einkunn sem bygging hefur fengið í BREEAM hönnunarvottun á Íslandi. Tengja við þetta hér, sjá vistvæn hönnun sjúkrahótels

  • 2017 - Sustainable healthcare organizer of the year 2017 á vegum Bonnier Business Media og Nordic Center for Sustainable Healthcare.
  • 2016 - Hjólavottun - silfur fyrir Hringbraut og Fossvog, Landakot, Grensás, Ármúla, Vífilsstaði, Tunguháls, BUGL, Klepp og Blóðbankann
  • 2015 - Kuðungur, umhverfisverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 2014 fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum 
  • 2015 - Svansvottun hjá eldhúsi og matsölum Landspítala
  • 2014 - Samgönguverðlaun Reykjavíkurborgar 2014
  • 2014 - Hjólaskálin - viðurkenning vegna hvatningar til hjólreiða starfsfólks m.a. með uppbyggingu á aðstöðu og samgöngustyrkjum

Landspítali er aðili að eftirfarandi samtökum á sviði umhverfismála:

Umhverfismál - myndbönd

Landspítali fær loftlagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar
  • 11. janúar 2021
  • Fréttir

Landspítali fær loftlagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð - og Reykjavíkurborg veittu Landspítala loftslagsviðurkenninguna 2020. Það var borgarstjóri sem afhenti forstjóra Landspítala viðurkenninguna undir lok ársins. Landspítali hefur fastmótaða stefnu í umhverfismálum og hefur unnið árum saman kappsamlega að fjölbreyttum verkefnum þar að lútandi. Hér er rætt við Birnu Helgadóttur forstöðumann hjá rekstrarþjónustu spítalans og Huldu Steingrímsdóttur umhverfisstjóra. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því sem vel er gert í loftslagsmálum og vera hvatning til annarra. Einkum er horft til árangurs í heildarlosun gróðuhúsalofttegunda. Loftslagsviðurkenningin er veitt árlega einu fyrirtæki eða stofnun fyrir eftirtektarverðan árangur í loftslagsmálum. Landspítali setti sér metnaðarfull loftslagsmarkmið 2016 um 40% samdrátt í kolefnisspori fyrir lok 2020 og sem bráðabirgðatölur sýna að muni nást. Frá 2015 hefur verið dregið úr losun um 1.900 tonn CO2-ígilda sem jafngildir ársakstri hátt í 800 bíla. Dæmi um aðgerðir eru: • Glaðloftseyðingarbúnaður dró saman losun 20%. • Hætt notkun á olíukatli sem dró saman losun um 5%. • Átak um bætta aðstöðu fyrir vistvænar samgöngur m.a. hjólreiðar; öruggir hjólabogar, aðgangsstýrð hjólaskýli og búningsaðstaða. • Átaksverkefni með Strætó sem margfaldaði reglulega notendur Strætó um 400%. Fleiri með virk árskort og af þeim notuðu 81% strætó daglega til og frá vinnu, stór hluti einnig utan vinnu. • Frumkvæði og þátttaka í ýmsum deiliverkefnum á sviði samgangna. • Hreinorkubílar bætast í flotann. • Flokkun úrgangs og verkefni til að draga úr sóun. • Áhersla á miðlun árangurs bæði innan spítala og utan í gegnum samfélags- og vefmiðlum og með fréttum í formi myndskeiða sem fjölmörg snúa að loftslagsmálum. Vefsíða umhverfismála á Landspítala: https://www.landspitali.is/um-landspitala/raudur-thradur/umhverfismal/ Rökstuðningur vegna vals viðurkenningarhafa Festu og Reykjavíkurborgar 2020 er hérna: https://www.landspitali.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=13faad2e-30c7-11eb-a2d9-005056865b13
Græn skref í ríkisrekstri
  • 16. nóvember 2020
  • Fréttir

Græn skref í ríkisrekstri

Landspítali lauk nú á haustdögum innleiðingu á skrefum 3 og 4 í verkefninu "Grænum skrefum í ríkisrekstri" á starfsstöð sinni í Skaftahlíð. Á Landspítala hefur verið unnið markvisst að umhverfismálum frá árinu 2012 og hefur innleiðing Grænu skrefanna gengið hratt og örugglega fyrir sig, en spítalinn skráði sig til leiks í verkefnið í byrjun árs 2020. Næsta mál á dagskrá er að útfæra 5. skrefið. Hér er rætt við Huldu Steingrímsdóttur umhverfisstjóra Landspítala og Birgittu Steingrímsdóttur sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, sem heldur utan um Græn skref í ríkisrekstri (graenskref.is). Verkefnið Græn skref í ríkisrekstri er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsfólks. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Verkefnið er fjármagnað af Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og er þátttaka því stofnunum að kostnaðarlausu. Verkefnið er einfalt og aðgengilegt og ættu allar stofnanir að geta tekið þátt, að sögn Umhverfisstofnunar. Stofnanir sem skrá sig til leiks fylgja skýrum gátlistum sem skipt er upp í fimm skref. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur. Aðgerðirnar miða einkum að hefðbundinni skrifstofustarfsemi. Veitt er viðurkenning fyrir hvert skref sem stofnanir ljúka við. Aðgerðum Grænna skrefa er skipt í 6 flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri. Skref 1-4 innihalda aðgerðir í öllum þessum flokkum en fimmta skrefið tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun. Þrátt fyrir að flestar aðgerðir væru nú þegar uppfylltar hjá Landspítala gafst tækifæri til að skerpa á ýmsum hlutum. Til að mynda var komið upp flokkun fyrir lífrænan úrgang á kaffistofum til að hækka endurvinnsluhlutfall vinnustaðarins. Einnig var farið vel yfir ræsti- og hreinsiefni og passað upp á að einungis séu keypt inn umhverfisvottuð efni. Hjá Landspítala í Skaftahlíð er góð aðstaða fyrir gangandi og hjólandi starfsfólk og gesti. Sem dæmi má nefna að hjólabogar eru fyrir framan afgreiðslu og læst yfirbyggð hjólaskýli og hjólageymsla standa starfsfólki til boða þar sem hægt er að hlaða rafhjól og hlaupahjól. Búningsherbergi og sturtuaðstaða eru í takti við þetta til fyrirmyndar. Starfsfólk hefur aðgang að bæði rafhjólum og rafhlaupahjólum, ásamt Zipcar, til að fara á milli starfsstöðva spítalans eða nota í einkaerindum.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?