Leit
Loka

 

 

 

<a href="http://www.freepik.com">Designed by vectorjuice / Freepik</a>

 2024

Nýr leghálssýnaskanni – Betri greiningarmöguleikar 

 Frumumeinafræði hefur gert samning við fyrirtækið Hologic um not á nýjum Genius skanna. Með tækinu er hægt að skanna leghálssýni i hárri upplausn og í mjög góðum gæðum. Gervigreindarforrit í tækinu, forritað til að greina afbrigðilegar frumur í sýnum, bendir á mögulegar forstigsbreytingar sem eru send áfram til frumumeinafræðings til nánari greiningar. Menntaðir lífeindafræðingar með sérstaka þjálfun, svokallaðir „screenerar“, hafa séð um þessa forvinnu en mikið álag hefur verið á þeim starfsmönnum sem sinna þessu. Genius skanninn eykur því stöðugleika ásamt bættu öryggi og gæðum í starfsemi deildarinnar.   

Byltuvarnir inniliggjandi sjúklinga – Ný nálgun 

 Á Hjartadeild er í prófun rafrænt vöktunarkerfi frá QUMEA sem er notað til að fylgjast með og greina hreyfingu sjúklinga í rúmi. Kerfinu er ætlað að auka öryggi sjúklinga, fyrirbyggja byltur og minnka þörf á yfirsetu en byltur eru meðal algengustu óvæntu atvika á Landspítala með alvarlegum afleiðingum og tilheyrandi kostnaði. Radarnemar eru við rúmstæði sem fylgjast með hreyfingu sjúklinga í rauntíma án þess að styðjast við myndavélar eða safna persónugreinanlegum gögnum. Kerfið greinir svo hreyfingar og byltur og sendir boð í  snjallforrit í síma starfsfólks.  Þannig getur starfsfólk brugðist fljótt við og komið í veg fyrir byltur. Einnig verður kerfið notað til að fyrirbyggja þrýstingssár hjá legusjúklingum. Hér er myndband sem Landspítali útbjó um verkefnið.

Sjúkraskrárkerfin – Aukin sjálfvirkni og klínískur stuðningur

 Sjúkraskrárkerfin eru þungamiðja í öllu klínísku starfi.  Mikilvægt er að kerfin styðji sem best við klíníska starfsemi, enda fer ótrúlega mikill tími heilbrigðisstarfsfólks í vinnu við tölvuskjá.  Aukin sjálfvirkni sem léttir á starfsfólki er því  lykilmarkmið við framþróun sjúkraskrár spítalans.  Ákveðin skef hafa verið stigin, t.d. með regluvélum, fyrirmælapökkum og spurningalistum, og margt er í farvatninu.  Framtíðarsýnin rammast í eftirfarandi mynd.  Covid kenndi okkur margt, m.a. varðandi sjálfvirkni í meðferð sjúklinga, en í síðustu Covid bylgjunni var nálægt 70% smitaðra alfarið sinnt sjálfvirkt en kerfið flaggaði þeim sem þurftu sérstaka meðhöndlun. Fleiri sambærileg mál eru í vinnslu, þar má nefna meðferð gáttatilfssjúklinga fyrir og eftir brennsluaðgerð.  Við viljum sjálfvirknivæða sem mest einfaldari tilfelli, þ.a. heilbrigðisstarfsfólk hafi meiri tíma til að sinna þeim flóknari.

 

Ef þið óskið frekari upplýsinga endilega hafið samband við okkur á þróunarsviði.  

  1. Aðkoma gigtarsjúklinga að eigin líftæknilyfja meðferð – „ICEBIO from HOME“

Fjarheilbrigðisþjónusta er ein af áherslum spítalans. Notkunarmöguleikar eru fjölmargir og mögulegur ávinningur mikill fyrir sjúklinga jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk. Í því sambandi hefur ný virkni „ICEBIO from HOME“ fyrir gigtarsjúklinga á meðferð með líftæknilyfjum á Landspítala nú verið innleidd. ICEBIO er hluti af samnorrænu tölvukerfi sem notað er hér á landi til að halda utan um eftirfylgni á lyfjagjöfum og meðferðarárangur sjúklinga. Þegar gigtarsjúklingur er bókaður í eftirlit á LSH fær hann spurningalista sendan sjálfkrafa úr Heilsugátt beint í Landspítala appið. Þar hefur sjúklingur með öruggum hætti aðgang að ICEBIO kerfinu og svarar spurningalista til undirbúnings næsta meðferðarsamtals.  Svörin vistast í gagnagrunni ICEBIO og hjálpa heilbrigðisstarfsfólki að aðlaga meðferðina að þörfum hvers sjúklings.  Í dag sinnir spítalinn yfir 3000 einstaklingum á líftæknimeðferð vegna gigtarsjúkdóms.  Byrjað er með minni hóp meðan verið er að fínstilla lausnina.  Sjá skjámyndir.   

 

  1. Bætt þjónusta húð- og kynsjúkdómadeildar – Landspítala appið

Af svipuðum meiði er ný lausn húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítalans, sem stórlega bætir þjónustu við sjúklinga.   Nú er orðið auðveldara að fá tíma hjá göngudeild húð- og kynsjúkdóma og hægt að fara í gegnum allt ferlið án þess að hitta einn einasta heilbrigðisstarfsmann, praktískt fyrir suma. Með því að óska eftir þjónustu húð og kyn í Landspítala appinu er spurningalisti sendur sjálfkrafa til viðkomandi sem svarar ákveðnum spurningum.  Í framhaldi af því fær viðkomandi strikamerki til að opna snjallbox á deild húð og kyn á spítalanum, þar sem finna má sýnatökuglas og leiðbeiningar.  Að rannsókn lokinni eru niðurstöðurnar aðgengilegar í Landspítala appinu. Lausnin hefur fengið góðar viðtökur og umfjöllun, sjá frétt á vefnum um hvernig ferlið er í appinu hér og umfjöllun um sama efni á RUV.is . Sjá einnig myndband um ferlið sem útskýrir virknina.  Ferlið er gott dæmi um sjálfvirkni og aukna sjálfsþjónustu á Landspítalanum.

 

  1. Starfsmanna app LSH – Stuðningur við starfsfólk spítalans

Starfsmanna appið, Starfsfólk Landspítala er hluti af UT stefnu spítalans.   Þótt meiri áhersla hafi verið á Landspítala appið er virkni starfsmanna appsins stöðugt að aukast. Þar má nefna að  starfsmenn geta tekið ljósmynd í appinu og sent myndina beint í sjúkraskrá. Framkvæmd öryggisinnlits við rúm sjúklings hefur verið til reynslu á nokkrum deildum spítalans og gefist vel.  Ítarleg athugun á notkun appsins sýnir að umtalsverður tímasparnaður hlýst með þessum nýjungum.  Sáramiðstöð nýtir t.d. myndavirknina með góðum árangri.   Ýmsar endurbætur hafa verið gerðar á starfsmanna appinu undanfarið í nánu samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk, þar má nefna varaleið ef tenging rofnar þegar mynd er send í sjúkraskrá, enska til viðbótar við íslensku og yfirlit yfir lokin verk. Margar viðbætur eru á leiðinni, þar má nefna skráningu mælinga (blóðsykur, hæð, þyngd, þvag, hægðir, vökvaskráning), og áhættumöt (byltumat, þrýstingssáramat, mat á vannæringu, verkjamat, mat á óráði). Einnig verða skráningarform Heilsugáttar gerð aðgengileg þannig að hægt verður að fylla þau út í starfsmananna appinu

1. Samtengingar sjúkraskrárkerfa – Tilkynningaskeytin breyta miklu

Aðgengi að gögnum sjúklinga á öllum stigum meðferðar er mikilvægur liður í skilvirku flæði sjúklinga milli eininga í heilbrigðiskerfinu.  Heilsugátt er lykil sjúkraskrárkerfi spítalans, en auk þess hafa yfir 90 heilbrigðisstofnanir aðgang að Heilsugátt og gögnum spítalans.  Jafnframt nýta þessar stofnanir sér Heilsugátt á ýmsa vegu, t.d. tilvísanir á sérgreinar og beiðnir um rannsóknir.  Stofnanir með Sögu sem sjúkraskrárkerfi hafa kvartað yfir að engin fótspor sjáist í Sögu kerfinu þegar t.d. tilvísanir eða rannsóknabeiðnir eru gerðar í Heilsugátt heldur þarf að skoða gögnin þar.  Með svokölluðum tilkynningaskeytum eru Heilsugátt og Sögukerfi stofnanna samtengd þ.a. tilvísanir í Heilsugátt verða aðgengilegar í Sögu á viðkomandi stofnun.  Þetta er þegar komið í notkun á þeim heilbrigðisstofnunum sem nota Sögu.  Í framhaldi verða rannsóknarbeiðnir og niðurstöður á sama hátt gerðar aðgengilegar í Sögu, þannig verður Heilsugátt og Sögu kerfið enn betur samtengd.  Sjá nánar.   

2. Prosang blóðbankakerfið – Stór og mikilvæg uppfærsla

Í mánuðinum lauk umfangsmiklu verkefni þegar Prosang upplýsingakerfi Blóðbankans var uppfært.  Um er að ræða meiri háttar uppfærslu með fjölda nýjunga, en Prosang blóðbankakerfið heldur m.a. utan um alla blóðsöfnun, framleiðslu blóðhluta, blóðflokkanir, undirbúning og afhendingu blóðhluta á deildir spítalans, sem og stofnfrumumeðferðir. Prosang er staðlað blóðbankakerfi og er notað m.a. í öllum blóðbönkum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Með uppfærslunni koma fjölmargar nýjungar sem og aukið upplýsingaöryggi, en jafnframt opnar uppfærslan fyrir fjölmarga nýja möguleika, þar má nefna: bókunarvefur fyrir blóðgjafa, rafræn heilsufarsskýrsla blóðgjafa og rafrænar beiðnir fyrir þjónusturannsóknir Blóðbankans.  Vinna er þegar hafin varðandi þessar mikilvægu viðbætur.  Eðlilega var þessum langþráða áfanga fagnað með köku.

3. Nýtt matarþjónustukerfi – Bætt þjónusta og mikill vinnusparnaður

Ný hugbúnaðarlausn fyrir eldhúsið var tekin í notkun núna í apríl, en kerfið heldur utan um allt sem snýr að matarþjónustu á spítalanum og sinnir bæði sjúklingum og starfsfólki.  Helstu notendur kerfisins er starfsfólk eldhússins og starfsfólk á klínískum deildum sem pantar mat fyrir inniliggjandi sjúklinga.  Kerfið, sem er skýjalausn, heitir Matilda og er í notkun á um 100 spítölum.  Það kemur í stað eldra kerfis, AIVO.   Matilda kerfið er m.a. samþætt við Heilsugátt, Sögu og Orra fjárhagskerfið.  Því þarf ekki lengur að handinnrita alla sjúklinga í kerfið, upplýsingar um ofnæmi eru aðgengilegar og fyrirmæli úr Heilsugátt um fæði sjúklinga skila sér sjálfvirkt í Matilda kerfið.  Metið er að árlegur vinnusparnaður verði a.m.k. 3700 stundir á ári auk minni matarsóunar.  Sjá nánari upplýsingar.

1. Gjörgæslukerfið – Eitt af okkar stóru og flóknu kerfum

Heilsugátt er lykilsjúkraskrárkerfi spítalans, og tengist flestum þeirra yfir 100 sjúkraskrárkerfa sem eru í notkun á spítalanum.  Flest eru þetta stór og flókin kerfi og CIS gjörgæslukerfið er dæmi um slíkt kerfi.  Kerfið er notað á gjörgæslum á Hringbraut og Fossvogi, vökudeild nýbura, öllum skurðstofum sem og svæfingu og vöknun, samtals yfir 120 stæði.  Auk þess að vera skráninga- og upplýsingarkerfi safnar kerfið sjálfkrafa gögnum úr fjölmörgum lækningatækjum sem tengjast sjúklingum á gjörgæslu.  Kerfið var innleitt í áföngum og er nú komið í fullan rekstur.  CIS kerfið er samþætt Heilsugátt og fleiri sjúkraskrárkerfum til að tryggja gagnaflæði m.a. þegar sjúklingar færast á gjörgæslu og frá gjörgæslu yfir á legudeildir.  Hér eru frekari upplýsingar um gjörgæslukerfið

2. Hjúkrunarskráning í Heilsugátt – Mikilvægar viðbætur

Markvisst er unnið að því að klínískt starfsfólk geti sinnt meðferð sjúklinga sem mest í Heilsugátt.  Mikilvægur liður í því er endurbætt hjúkrunarskráning þar sem nú má skrá hjúkrunargreiningar, meðferð og verkþætti á skilvirkan hátt í Heilsugátt.  Í næstu útgáfum Heilsugáttar verður virknin aukin enn frekar og má þar nefna upplýsingaskrá hjúkrunar og útskriftaráætlun sjúklinga.  Þessi virkni er hluti af Tímalínu sjúklings og er skref í þá átt að allt klínískt starfsfólk vinni í sama umhverfi, frekar en að hver starfstétt vinni í sínu sílói eins og það hefur stundum verið nefnt.
Sjá leiðbeiningar varðandi notkun nýrrar hjúkrunarskráningar.

3. Skjáborð óháð staðsetningu – Teymisskjáborð lyflækninga og Skjáborð einangrana

Skjáborðin eru mikilvægur hluti Heilsugáttar.  Til viðbótar við stöðluð legu-, bráða- og göngudeildarborð hafa ýmis sérhæfð skjáborð óháð staðsetningu verið þróuð. Á Teymisskjáborði lyflækningasviðs birtast allir sjúklingar sem eru skráðir í þjónustuflokka lyflækninga og eins allir sjúklingar sem eru skráðir á teymi lyflækninga óháð þjónustuflokki og staðsetningu, bæði á legudeildum og bráðamóttöku.  Nýjasta viðbótin er sjálfvirkni við skráningu innlagðra sjúklinga á teymi út frá þjónustuflokkum ásamt því að taka sjúklinga sjálfvirkt af teymum þegar þeir flytjast af legudeildum sem tilheyra ekki lyflækningum.  Á skjáborðinu hafa einnig verið þróaðir mælar sem sýna dreifingu sjúklinga á teymi í rauntíma ásamt fjölda sjúklinga skráða á dvalar- og endurhæfingastig eftir teymum.  Annað dæmi um skjáborð óháð staðsetningu er Skjáborð - einangrun sem birtir yfirlit yfir inniliggjandi sjúklinga sem eru skráðir í einangrun á spítalanum. Skjáborðið veitir sýkingavarnadeildinni betri yfirsýn yfir sjúklinga í einangrun og gerir ferlið tengt því að aflétta einangrun skilvirkara.  Mikil sóknarfæri eru í áframhaldandi þróun skjáborða óháð staðsetningu og eru ýmsar lausnir í farvatninu.  Sjá skjámyndir.

1. Gjörgæslukerfið – Eitt af okkar stóru og flóknu kerfum

Heilsugátt er lykilsjúkraskrárkerfi spítalans, og tengist flestum þeirra yfir 100 sjúkraskrárkerfa sem eru í notkun á spítalanum.  Flest eru þetta stór og flókin kerfi og CIS gjörgæslukerfið er dæmi um slíkt kerfi.  Kerfið er notað á gjörgæslum á Hringbraut og Fossvogi, vökudeild nýbura, öllum skurðstofum sem og svæfingu og vöknun, samtals yfir 120 stæði.  Auk þess að vera skráninga- og upplýsingarkerfi safnar kerfið sjálfkrafa gögnum úr fjölmörgum lækningatækjum sem tengjast sjúklingum á gjörgæslu.  Kerfið var innleitt í áföngum og er nú komið í fullan rekstur.  CIS kerfið er samþætt Heilsugátt og fleiri sjúkraskrárkerfum til að tryggja gagnaflæði m.a. þegar sjúklingar færast á gjörgæslu og frá gjörgæslu yfir á legudeildir.  Hér eru frekari upplýsingar um gjörgæslukerfið.

2. Hjúkrunarskráning í Heilsugátt – Mikilvægar viðbætur

 Markvisst er unnið að því að klínískt starfsfólk geti sinnt meðferð sjúklinga sem mest í Heilsugátt.  Mikilvægur liður í því er endurbætt hjúkrunarskráning þar sem nú má skrá hjúkrunargreiningar, meðferð og verkþætti á skilvirkan hátt í Heilsugátt.  Í næstu útgáfum Heilsugáttar verður virknin aukin enn frekar og má þar nefna upplýsingaskrá hjúkrunar og útskriftaráætlun sjúklinga.  Þessi virkni er hluti af Tímalínu sjúklings og er skref í þá átt að allt klínískt starfsfólk vinni í sama umhverfi, frekar en að hver starfstétt vinni í sínu sílói eins og það hefur stundum verið nefnt sjá hér leiðbeiningar varðandi notkun nýrrar hjúkrunarskráningar. 

3. Skjáborð óháð staðsetningu – Teymisskjáborð lyflækninga og Skjáborð einangrana

 Skjáborðin eru mikilvægur hluti Heilsugáttar.  Til viðbótar við stöðluð legu-, bráða- og göngudeildarborð hafa ýmis sérhæfð skjáborð óháð staðsetningu verið þróuð. Á Teymisskjáborði lyflækningasviðs birtast allir sjúklingar sem eru skráðir í þjónustuflokka lyflækninga og eins allir sjúklingar sem eru skráðir á teymi lyflækninga óháð þjónustuflokki og staðsetningu, bæði á legudeildum og bráðamóttöku.  Nýjasta viðbótin er sjálfvirkni við skráningu innlagðra sjúklinga á teymi út frá þjónustuflokkum ásamt því að taka sjúklinga sjálfvirkt af teymum þegar þeir flytjast af legudeildum sem tilheyra ekki lyflækningum.  Á skjáborðinu hafa einnig verið þróaðir mælar sem sýna dreifingu sjúklinga á teymi í rauntíma ásamt fjölda sjúklinga skráða á dvalar- og endurhæfingastig eftir teymum.  Annað dæmi um skjáborð óháð staðsetningu er Skjáborð - einangrun sem birtir yfirlit yfir inniliggjandi sjúklinga sem eru skráðir í einangrun á spítalanum. Skjáborðið veitir sýkingavarnadeildinni betri yfirsýn yfir sjúklinga í einangrun og gerir ferlið tengt því að aflétta einangrun skilvirkara.  Mikil sóknarfæri eru í áframhaldandi þróun skjáborða óháð staðsetningu og eru ýmsar lausnir í farvatninu.  Sjá skjámyndir af af skjáborði.

1. Gæðastjórnun, rafræn fræðsla og hæfnisstjórnun – Nýjar framsæknar lausnir

Fjölmennur hópur starfsmanna Landspítala hefur unnið að innleiðingu nýrra hugbúnaðarlausna fyrir gæðastjórnun, rafræna fræðslu og hæfnistjórnun síðustu misseri.

  • Búið er að innleiða Eddu (IMC learning) fyrir rafræna fræðslu og geta nú allir starfsmenn nálgast kennsluefni á edda.landspitali.is. Enn á eftir að framleiða nokkuð af fræðsluefni og munu frekari fréttir berast af uppbyggingu rafrænnar fræðslu innan tíðar.  Menntadeildin leiðir innleiðinguna.
  • Unnið er að innleiðingu CCQ gæðahandbókarinnar, sem tekur nokkra mánuði. Nýja gæðahandbókin tekur við af sex gæðahandbókum Landspítala og mun hýsa yfir 10 þúsund gæðaskjöl, fyrir starfsmenn Landspítala sem og fjölmargar ytri heilbrigðisstofnanir.  Gæðadeildin leiðir innleiðingu CCQ kerfisins.
  • Innleiðing hæfnistjórnunar í Edduna er ekki hafin en nýlega komst þverfaglegur vinnuhópur að þeirri niðurstöðu að Edda verði notuð fyrir hæfnistjórnun. Frekari upplýsingar koma síðar, þegar verkefnið verður komið á rekspöl.

Heilmiklir möguleikar fylgja þessum nýjungum sem munu klárlega styðja málaflokkana enn frekar.

2. Microsoft 365 – Stöðugt aukin notkun

Microsoft 365 lausnapakkinn er lykiltól þegar kemur að samskiptum og vinnslu gagna á spítalanum. Pakkinn inniheldur skrifstofulausnir eins og Word og Excel, Exchange póstkerfið, Teams, Sharepoint, OneDrive, OneNote, PowerBI og fjölmargar aðrar lausnir.  Auk þess inniheldur pakkinn ýmsar öryggislausnir.  Spítalinn er með um 8100 notendaleyfi, 2100 full leyfi (E5) og 6000 minni leyfi (F5), en notendaleyfi þarf fyrir allt starfsfólk spítalans og nema.   Kostnaður vegna pakkans er stjarnfræðilegur en lausnin er mikilvæg í starfsemi spítalans og því er stöðug áhersla á aukna notkun þessara lausna.  Lifandi mælaborð sýnir virkni 64% notenda og að Office, pósturinn, Teams, OneDrive og Sharepoint eru mest notuð.  Öryggishlutinn hefur m.a. það hlutverk að verjast árásum og stöðva ruslpóst, en það er enginn skortur á slíku eins og öryggismælaborðið sýnir. 

3. Stafræn framþróun Landspítalans er upplýsingatæknifyrirtæki ársins

Á UT messunni í byrjun febrúar var Stafræn framþróun Landspítalans, sem margir þekkja kannski betur sem HUT, valið upplýsingatæknifyrirtæki ársins.  Þetta er góð viðurkenning á þeirri vinnu sem átt hefur séð stað innan spítalans síðustu ár á þessu sviði, ekki síst í ljósi takmarkaðra fjármuna. 

Guðni forseti afhenti verðlaunin og sagði meðal annars við það tilefni:  LSH rekur og þjónustar eitt stærsta og flóknasta tækniumhverfi landsins.  Sjúkraskrá spítalans vegur þar þyngst og samanstendur af yfir 100 tölvukerfum.  Auk þess hefur Landspítalinn þróað Heilsugátt sem tengir saman öll undirliggjandi kerfi og hefur rækilega sannað sig sem lykil verkfæri heilbrigðisstarfsfólks spítalans. Flestar heilbrigðisstofnanir landsins nýta Heilsugátt sem og fjölmörg sérhæfð kerfi LSH.  Síðustu ár hefur verið sérstök áhersla á fjarheilbrigðisþjónustu og aðkomu sjúklinga að eigin meðferð.  Sjúklinga app LSH spilar þar veigamikið hlutverk og hefur fengið sérlega góðar viðtökur.  Samhliða hefur verið lögð áhersla á nýsköpun og samstarf við nýsköpunarfyrirtæki.  Fyrir áhugasama er hér innanhússfrétt um málið.

 

Ef þið óskið frekari upplýsinga endilega hafið samband við okkur á þróunarsviði.  

1. Orri fjárhags- og mannauðskerfið – Stærra en marga grunar

Orri (Oracle e Business Suite) er heildstætt kerfi sem sér um allar helstu fjárhags- , mannauðs- og vörustýringarfærslur Landspítala og er jafnframt notað af öllum A-hluta stofnunum ríkisins.  Orri er í raun 110 kerfishlutar eða sérlausnir og því ákaflega umfangsmikið. Öll útgjöld spítalans fara í gegnum Orra (115 milljarðar árið 2023) og í mannauðshluta Orra er launa- og starfsmannaupplýsingum starfsfólks viðhaldið. Vörustýring er stór hluti af Orra og eru allar pantanir til birgja frá vörulagerum gerðar innan kerfisins. Sölulagerar selja svo vörur áfram innan kerfis til deilda spítalans.   Stofnskrár Orra eru grunnur að gögnum í hin fjölmörgu kerfi LSH er varða m.a. kostnaðarstaði, deildir og starfsmannaupplýsingar.  Mikið af gögnum úr Orra er tekið yfir í vöruhús gagna á LSH og þar aðgengilegt stjórnendum í skýrslum í Gagnagátt LSH.  Sjá tölfræði varðandi umfang Orra kerfisins á LSH.  Til næstu ára er unnið í samræmi við stefnu spítalans í fjárhags- og mannauðskerfum

2. Álag á spítalanum, ýmis tól – Dæmi um nýtingu gagna

Álag á spítalanum er venju fremur mikið og var þó ærið fyrir.  Álag á bráðamóttöku er verulegt og rúmanýting á deildum vel yfir 100%.  Þróuð hafa verið ýmis tól í Heilsugátt til að vakta álagið.  Nefna má Laus rúm, sem sýnir rúmanýtingu á deildum og skoða má aftur í tímann hvernig rúmanotkun hefur þróast klukkutíma fyrir klukkutíma.  Annað gagnlegt tól er Skjáborð innlagna sem til viðbótar við rúmanýtingu sýnir í rauntíma sjúklinga í einangrun, hjúkrunarálag, bráðainnlagnir, stigun sjúklinga ofl.  Árangursvísar sem sýna í rauntíma stöðuna á bráðamóttöku hafa lengi verið í gangi þar.   Allt eru þetta dæmi um nýtingu gagna sem gefa rauntíma yfirlit yfir stöðu klínískrar starfsemi og því gagnleg stjórntæki.

3. Sjúkraskráin og tæknilegir innviðir – Staðan og hvert stefnum við

Í góðri samvinnu við NLSH er nýlokið úttekt á stöðu sjúkraskrármála og tæknilegra innviða spítalans.  Það er gert samkvæmt alþjóðlegri aðferðafræði, EMRAM fyrir sjúkraskrána og INFRAM fyrir tæknilega innviði.  Í báðum tilvikum skila úttektirnar gildum á bilinu 0-7, þar sem 7 er best.  Úttektin á sjúkraskrá spítalans samanstendur af yfir 260 spurningum um klínískt verklag og stuðning viðeigandi tölvukerfa.  Niðurstaðan er að Landspítalinn er á stigi 4, sjá nánar.    Niðurstaðan úr INFRAM úttektinni er að spítalinn er á stigi 5, sjá nánar.  Markmið spítalans er að komast a.m.k. á stig 6 á báðum sviðum.  Gagnsemi úttektanna felst þó ekki síst í að benda á þær umbætur sem leggja skal áherslu á næstu ár.   Þetta eru góðar niðurstöður fyrir spítalann og sýna styrka stöðu málaflokksins, ekki síst hafandi í huga að fjármagn til upplýsingatæknimála spítalans hefur verið mun minna en sambærilegir erlendir spítalar hafa til umráða.     

 2023

1. Heilsugátt – Ný útgáfa, stöðugar umbætur
Heilsugáttin er lykil sjúkraskrárkerfi Landspítalans. Heilsugátt, sem er þróuð innan spítalans, er í stöðugri framþróun þar sem ný útgáfa kemur mánaðarlega. Í nýjustu útgáfu eru sem endranær fjölmargar nýjungar og endurbætur. Til marks um öra framþróun eru yfir 130 ný atriði í þeirri útgáfu. Þessi aðferðafræði ásamt náinni samvinnu við klínískt starfsfólk spítalans hefur tryggt að lausnin styður vel við starfsemi spítalans. Auk þess að vera aðal vinnslukerfi spítalans hafa yfir 90 heilbrigðisstofnanir og einkastofur aðgang að Heilsugátt. Heilsugáttin er sterkur grunnur til frekari framþróunar og margt er í farvatninu, til dæmis betri nýting undirliggjandi sjúkraskrárgagna til að bæta meðferð sjúklinga með sjálfvirkni, regluvélum og gervigreind. . Hér eru líka nokkur dæmi um skjámyndir úr Heilsugátt. 

2. HUTgátt – Sjálfsþjónusta við starfsfólk
HUTgátt er vefsvæði sem veitir starfsfólki spítalans upplýsingar um flest sem snýr að heilbrigðis- og upplýsingatækni á spítalanum. Þar má óska eftir þjónustu, panta búnað, fá aðgang að tölvukerfum og svo mætti lengi telji. Dæmi um virkni á HUTgátt er Mín lækningatæki, þar sem deildir hafa yfirsýn yfir eigin lækningatæki. Þar er listi yfir tækjabúnað, opnar þjónustubeiðnir, viðgerðir, reglubundið eftirlit ofl. Til viðbótar er unnið að því að birta endurnýjunarþörf lækningatækjabúnaðar út frá ætluðum lífaldri, sjá skjámyndir.  Tölvurýnir er sambærileg virkni fyrir tölvubúnað á deildum, og sýnir tölvueign á deildum og endurnýjunarþörf. Sjálfvirkni og sjálfsþjónusta eru lykilatriði í HUT tengdum málum spítalans. Fjölbreytileg virkni HUTgáttar er dæmi þar um.

3. Upplýsingaöryggi á LSH – Verðmæt gögn, öruggur rekstur
Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þeirra sjúkraskrárgagna sem geymd eru á spítalanum. Upplýsingaöryggi byggt á virku stjórnkerfi sem er ISO-27001 vottað er lykilþáttur í þeim efnum. Upplýsingaöryggi í sinni einföldustu mynd gengur út á að þeir, og aðeins þeir, sem réttindi hafa til, geti komist í rétt gögn eða kerfi þegar á þarf að halda. Þótt þetta hljómi einfalt er ákaflega margt sem huga þarf að í því sambandi enda stærsta og flóknasta tölvuumhverfi landsins. Starfsemin er reglulega tekin út og vottuð. Næsta slík úttekt verður eftir áramót.
  1. Starfsmanna app LSH – Betri stuðningur við starfsfólk
    Smáforritið Starfsmenn LSH, sem ætlað er starfsfólki LSH, er í stöðugri framþróun. Með nýjustu útgáfu appsins má senda myndir úr snjallsímum með öruggum hætti beint í sjúkraskrá sjúklings. Einnig er hægt að skrá öryggisinnlit við upphaf vaktar ásamt því að skrá reglulegt innlit sem uppfærist samtímis í skjáborði deildarinnar og upplýsingarnar flæða beint í sjúkraskrá sjúklings. Sjúklingur er auðkenndur með því að skanna armband hans með myndavél símans eða með því að starfsmaður slái inn kennitölu. Þessi útgáfa er núna í prófunum á HNE-, lýta- og æðaskurðdeild A4 og dagdeild gigtlækninga og almennra lyflækninga á B7. Fjölmargar aðrar nýjungar eru á leiðinni og verða kynntar síðar. Sjá dæmi um skjámyndir.

  2. Rannsóknargátt – Samræmd meðferð og betri nýting fjármuna
    Rannsóknargátt LSH gefur yfirsýn yfir notkun og kostnað helstu rannsókna sem framkvæmdar eru á spítalanum (blóðmeina- og klínísk lífefnafræði, sýklafræði, veirufræði, ónæmisfræði, myndgreiningar). Með kerfinu má skoða kostnað deilda og einstakra lækna, og bera saman deildir eða lækna. Einstakir læknar hafa aðgang að eigin rannsóknum, yfirlæknar að rannsóknum sinna sérgreina og framkvæmdastórar sjá allt sviðið. Ytri heilbrigðisstofnanir, sem flestar nota rannsóknarkerfi spítalans, hafa einnig aðgang að Rannsóknargáttinni. Rannsóknargáttin, sem þróuð er innan LSH, er öflugt tól til að greina notkun rannsókna við meðferð sjúklinga og ekki síður til að vakta kostnað og er gott dæmi um nýtingu gagna til ákvörðunartöku. Unnið er að frekari viðbótum á kerfinu samtímis sérstöku átaki í notkun Rannsóknagáttar, sem er aðgengileg úr Heilsugátt. Sjá dæmi um skjámyndir úr Rannsóknargátt.

  3. Nýsköpun á LSH – Samstarf með nýsköpunarfyrirtækjum.
    Nýverið var tólf nýsköpunarfyrirtækjum úthlutað styrk úr Fléttunni - styrkir til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Af þessum tólf styrkjum er Landspítali aðili af fimm, sjá nánar frétt á síðu Stjórnarráðsins . Því til viðbótar úthlutaði heilbrigðisráðherra gæða- og nýsköpunarstyrkjum til átján verkefna í september síðastliðnum, þar af fjórum verkefnum í samstarfi við Landspítalann, sjá nánar í yfirliti yfir verkefnin. Samtals er úthlutuð upphæð þessara níu styrkja 76,5 milljónir af 159 milljónum úthlutuðum. Verkefnin sem hljóta styrk eru af ýmsu tagi og styrkirnir misháir eða frá 2-15misk hver um sig. Þetta er til marks um öflugt nýsköpunarstarf í heilbrigðistækni á spítalanum, en hægt er að fræðast nánar um það á heimasíðu Nýsköpunar á Landspítala. Í dag eru yfir 30 verkefni í gangi sem falla undir nýsköpunarferil spítalans.

Ef þið óskið frekari upplýsinga endilega hafið samband við okkur á þróunarsviði.


1. Eftirlitsgátt – Skilvirkt eftirlit með aðgengi að sjúkraskrá sjúklinga
Sjúkraskrá Landspítalans samanstendur af yfir 100 tölvukerfum, þar sem aðgengi heilbrigðisstarfsfólks að sjúkraskrárgögnum byggir á að viðkomandi hafi meðferðartengsl við sjúkling. Eftirlitsnefnd á forræði framkvæmdastjóra lækninga ber ábyrgð á eftirliti með sjúkraskrá spítalans. Uppflettingar í sjúkraskrárkerfin eru skráðar og safnað í gagnagrunn sem unnið er með í Eftirlitsgátt. Þar má sjá hverjir hafa skoðað gögn ákveðins sjúklings, eða hvaða sjúklinga ákveðinn heilbrigðisstarfsmaður hefur skoðað svo dæmi séu nefnd. Eftirlitsgáttin hefur verið í notkun í nokkur ár með góðum árangri. Unnið er að endurbótum á Eftirlitsgáttinni m.a. til að auka sjálfvirkni, eins og skoðun á sjúklingum utan deildar starfsmanns, skoðun sjúklinga yngri en 18 ára, handahófskennd úrtök o.s.frv. Horft er til að nýta gervigreind við eftirlitið. Endurbætt útgáfa Eftirlitsgáttar mun einnig auðvelda vinnu við frumkvæðisúttektir af hálfu Landspítala, sem ber að framkvæma samkvæmt lögum. 

2. Samstarf LSH og annarra heilbrigðisaðila – Allra hagur
Í dag hafa 85 skilgreindir heilbrigðisaðilar (stofnanir og sjálfstætt starfandi) aðgang að sjúkraskrá LSH og nýta sér sjúkraskrárkerfin á ýmsa vegu. Mikil umsýsla er vegna ytri heilbrigðisaðila og umfangið eykst stöðugt. Þetta snýr að skilgreiningu og stofnun aðgangs, tengingum við kerfi spítalans, aðgangsveitingum og annarri þjónustu. Þessi fjöldi ytri aðila kallar einnig á virkt eftirlit með uppflettingum í sjúkraskrá Landspítala, skjáborð sem dæmi. Lögð er áhersla á sjálfvirkni og sjálfsþjónustu í ferlinu. Nefna má sjálfsþjónustu í umsóknarferli ytri stofnanna og rafrænum undirskriftum því tengt. Stofnanir geta jafnframt stýrt aðgengi starfsfólks síns að kerfum Landspítala í gegnum aðgangsstjórnunarkerfi Landspítala, Vörðinn. Margar flækjur eru í ferlinu, heilbrigðisstarfsfólk vinnur oft hjá mörgum stofnunum og í mismunandi hlutverkum á sama tíma. Aðgangur þeirra má ekki skerðast þótt starfsmaður hætti eða breyti um starf hjá einni stofnun en er áfram í starfi annars staðar. Einnig þarf að fylgjast með hvaðan notandi í margþættu hlutverki skráir sig inn í kerfin svo dæmi séu tekin.

3. Lyfjaferli krabbameinssjúklinga – Öruggari og skilvirkari meðferð
Nýtt tölvukerfi, Cato, fyrir alla þætti lyfjagjafa krabbameinssjúklinga var innleitt á spítalanum fyrir tæpu ári. Kerfið heldur utan um lyfjafyrirmæli krabbameinssjúklinga, sem eru þau flóknustu á spítalanum, styður við blöndun krabbameinslyfja hvers sjúklings og styður jafnframt við lyfjagjöfina sjálfa. Þetta er í raun fyrstalokaða lyfjaferli spítalans en unnið er að því að flestar lyfjagjafir í nýjum spítala verði í lokuðu lyfjaferli. Mikil ánægja er með lausnina, bæði með aukið öryggi sjúklinga og ekki síður skilvirkara verklag. Stefnt er að innleiðingu Cato hjá SAk (Akureyri) bráðlega en byrjum þó á HSU (Selfoss) og HSS (Keflavík). Sjá skjámyndir úr Cato kerfinu og skjáborð í Heilsugátt sem heldur utan um krabbameinssjúklinga í meðferð.


1. Mikilvæg lækningatæki – Aðgerðaþjarki og ómtæki
Yfir 9000 lækningatæki eru í notkun á spítalanum. Tryggja þarf daglegan rekstur lækningatækjanna en jafnframt þarf reglulega að endurnýja tækin sem og að taka upp fjölbreytilega nýja tækni. Dæmi um nýlegar endurnýjanir þar sem miklar framfarið hafa orðið er nýr aðgerðaþjarki (e. „Robot“) og ný ómtæki. Nýr aðgerðarþjarki var tekinn í notkun á skurðstofu 1 á Hringbraut í júní. Nýi þjarkinn gefur kost á stærra aðgerðasvæði, fleiri aðgerðarflokkum og lengri skurðáhöldum ásamt uppfærðri tækni. Kostir notkunar þjarka umfram opnar aðgerðir eru m.a. styttri legutími, færri fylgikvillar og minni notkun verkjalyfja. Sjá frétt frá RUV. Tvö ný ómtæki voru sett upp á bráðamóttökunni í sumar þar sem brýn þörf var á endurnýjun á eldri tækjum. Ómtækin eru komin í fulla notkun og fer gott orð af þeim frá starfsfólki bráðamóttökunnar sem og ráðgefandi sérgreinum sem einnig nýta tækin. Ómtækin eru tengd þráðlausu tölvuneti spítalans og skila ómmyndum sjúklinga sjálfkrafa í myndgeymslu spítalans (PACS). Þessi lækningatæki eins og flest nýrri lækningatæki spítalans eru í raun flókin tölvubúnaður sem tengjast tæknilegum innviðum og skila gögnum í sjúkraskrárkerfi spítalans. 

2. Stratos eftirlitskerfið – Tryggjum öruggan rekstur tölvukerfa
Framsæknar lausnir sem efla starfsemi spítalans er megin markmið stafrænnar framþróunar. Forsenda slíkrar framþróunar er þó öruggur rekstur tölvukerfanna, hár uppitími og góður svartími kerfa. Mikil áhersla er því á rekstur tölvukerfa spítalans og innleidd hafa verið ýmis tól til stuðnings. Þar má nefna Stratos eftirlitskerfið sem vaktar öll helstu hugbúnaðarkerfi spítalans og sýnir í rauntíma hvort tölvukerfin starfi eðlilega. Við hægagang í kerfi er flaggað gulu og rauðu ef alvarlegri truflanir verða. Ef smellt er á einstök kerfi í Stratos má sjá tæknilega innviði að baki þeirra og hvar bilunin er. Sjá dæmi um tæknilega innviði Heilsugáttar og Glims sýkla- og veirufræðikerfisins. Til viðbótar vaktar Stratos mikilvæg lækningatæki og annan búnað sem og reglubundnar keyrslur eins og vinnslur gagna fyrir vöruhús. Stöðugt er verið að bæta kerfum og búnaði í vöktun og bæta vöktun einstakra lausna.

3. Samþættingalag LSH – Límið sem heldur öllu saman
Yfir 300 hugbúnaðarkerfi eru í notkun á spítalanum, þar af 120 sjúkraskrárkerfi. Sjúkraskrárgögn úr kerfunum og lækningatækjum eru aðgengileg í Heilsugátt gegnum svokallað samþættingalag. Samþættingalagið er skeytamiðja sem tengir saman kerfin, sækir gögn og skrifar og stýrir flæði gagnanna. Fjölmargar samþættingar eru milli einstakra sjúkraskrárkerfa auk samþættinga við fjárhags og mannauðskerfin svo dæmi séu tekin. Samþættingalagið hefur verið í þróun síðustu 15 ár og stækkar stöðugt. Til marks um umfangið eru nálægt 900 virkar samþættingar og vefþjónustur um 3500. Til viðbótar eru 150 sérhæfðar vefþjónustur (.Net). Á hverri mínútu eru 7000-9000 köll í samþættingarlagið. Samþættingaumhverfi spítalans er vafalítið það stærsta og flóknasta hérlendis. Þessi tæknilega útfærsla hefur reynst ákaflega vel til að tryggja áreiðanleika gagna og aðgengi að þeim.
1. Sjúklinga appið – Núna öllum opið og niðurstöður blóðrannsókna
Sjúklinga app Landspítala hefur verið aðgengilegt sjúklingum á flestum deildum spítalans í þrjú ár. Skráðir notendur eru orðnir yfir 100.000 og tæplega 26.000 þeirra hafa nýtt sér appið síðustu 90 daga, margir oft, sjá mælaborð. Nýbúið er að gera appið, sem heitir einfaldlega „Landspitali“, öllum aðgengilegt á Google Play og Apple Store. Notkun þess krefst þó rafrænna skilríkja. Markmið með appinu er að auka þátttöku sjúklinga í eigin meðferð og upplýsa þá sem best. Liður í því er aðgangur sjúklinga að eigin sjúkraskrárgögnum. Frá 13.06.2023 birtast nú niðurstöður blóðrannsókna sem framkvæmdar eru á Landspítala í appinu, tveimur virkum dögum eftir að niðurstaðan liggur fyrir. Þetta er áfangi á vegferð þar sem flest eða öll sjúkraskrárgögn verða gerð sjúklingum aðgengileg. Gert er ráð fyrir að gögnin verði jafnframt í Heilsuveru eða á Island.is í framhaldi.

2. Hjartabilunargrunnur – Gagnasöfnun í fremstu röð
Eitt af markmiðum spítalans er virkt vísindastarf. Í samvinnu við hjartalækna á Landspítala hefur verið þróað ferli í Heilsugátt til að safna á skipulagðan hátt upplýsingum um alla sjúklinga með hjartabilun sem koma á spítalann. Ferlið er í nokkrum skrefum. Fyrst er myndaður sjúklingahópur í Heilsugátt með hjálp regluvélar sem flokkar sjálfvirkt saman alla sjúklinga sem fá ICD-10 greiningu sem fellur undir hjartabilun eða ef minnst er á „hjartabilun“ í nótum sjúklinga. Því næst er fyllt út skráningarform fyrir hvern einasta sjúkling. Ýmist með upplýsingum sem koma sjálfkrafa úr sjúkraskrá, frá sjúklingi í gegnum spurningalista í sjúklingaappi eða skráð handvirkt í Heilsugátt með aðstoð læknanema. Gögnin eru að lokum öll aðgengileg í hjartabilunargagnagrunni sem kallast „Icelandic Heart Failure“ Registry (IHFR) sem bætir möguleika vísindarannsókna á sjúklingum með einkenni hjartabilunar. Sjá nánar.

3. Heilsugátt og gervigreind
Notkun gervigreindar mun hafa mikil áhrif við meðferð sjúklinga á komandi árum. Fyrsta útgáfa stuðningstóls í Heilsugátt, þróað í samvinnu við bráðadeild Fossvogi með lokuðum hóp sérfræðinga, er tilbúið til prófana. Gervigreindin vinnur á upplýsingum úr bráðamóttökuskrá til að byrja með en virknin verður útvíkkuð ef tilraunin lofar góðu. Byggt á gögnum í bráðamóttökuskrá kemur mállíkan gervigreindar með tillögu að greiningum sjúklings. Ferlið er að læknir velur sjúkling í Heilsugátt, opnar bráðamóttökuskrá hans og smellir á ákveðinn hnapp (Augað). Þá vinnur gervigreindin á gögnunum og birtir niðurstöður á skiljanlegu formi. Sjá skjámyndir. Við erum að taka fyrstu skrefin á þessari vegferð og að mörgu þarf að huga áður en fyllilega má treysta gervigreindinni í klínísku starfi. Ýmis fleiri verkefni eru til skoðunar á þessu sviði. Það eru vissulega spennandi tímar framundan.

1. Tímalínan – Öll sjúklingagögn á einum stað
Tímalínan er ein af mörgum einingum Heilsugáttar, og ákaflega mikilvæg. Þar má skoða nánast öll gögn sjúklinga í tímaröð eða á annan hátt. Tímalínan birtir gögn úr langflestum sjúkraskrárkerfum spítalans sem og ytri gögn úr öðrum Sögukerfum og fleiri kerfum utan spítalans. Hægt er að vinna með gögnin í Tímalínunni á fjölmarga vegu, en samhliða skoðun gagna má skrá nótur og önnur gögn um sjúklinga. Tímalínan er í stöðugri framþróun og í nánast hverri útgáfu Heilsugáttar eru viðbætur við Tímalínuna. Sjá dæmi um notkun Tímalínu sem og ýmsar nýjungar. Framþróun Heilsugáttar er ör, eins og þessi langi listi um helstu nýjungar í síðustu útgáfum sýnir, en mánaðarlega kemur ný útgáfa af Heilsugátt. 

2. Stofusýn – Stuðningur við göngudeildir
Í tengslum við starfsemi í nýju dag- og göngudeildarhúsi við Eiríksgötu voru fjölmargar tæknilausnir þróaðar og innleiddar. Ein þeirra er Stofusýn í Heilsugátt sem gefur yfirsýn yfir stofunýtingu á deild með því að sækja upplýsingar um aðföng og bókanir í Afgreiðslukerfi Sögu og tengja við stofur deildar í Stofusýn. Markmiðið með Stofusýn er að minnka óreiðu, áreiti á starfsfólk og skapa yfirsýn. Einnig verði hægt að taka út tölur um nýtingu stofa, viðveru miðað við áætlanir og fleiri þætti sem hjálpa stjórnendum að stýra úthlutun rýma. Lausnin er í notkun á nokkrum einingum en frekari þróun er í gangi og standa vonir til að lausnin fari í almenna innleiðingu á göngudeildum á árinu. Sjá hér nokkrar skjámyndir.

3. Orri – Rafrænar breytingatilkynningar fyrir stjórnendur
Rafrænir ráðningasamningar og breytingarbeiðnir hafa verið í notkun undanfarin ár og stytt afgreiðslutíma slíkra beiðna mikið. Beiðnirnar hafa flestar verið gerðar af mannauðsstjórum sviðanna en nú er búið að bæta við virkni þannig að stjórnendur geta útbúið sjálfir þessar beiðnir og sent í undirritun en ákveðnar tegundir breytinga þarf þó að senda í rýni til mannauðsstjóra sem yfirfer, tryggir samræmi og sendir beiðnirnar svo í samþykkt til þeirra sem eiga að undirrita rafrænt. Verið er að undirbúa kennsluefni fyrir stjórnendur og verður kynnt betur fljótlega. Sjá hér ítarlegri lýsingu sem og myndband sem útskýrir gerð svona beiðna. Mikil áhersla er á sjálfsþjónustu og útrýmingu pappírseyðublaða á spítalanum og erum við komin langt á þeirri vegferð.


1. Útskriftarbréf – Hraðari og skilvirkari útskriftir
Eitt af markmiðum spítalans er að efla og bæta útskriftir, þar sem áhersla er lögð á að veita sjúklingum sem bestar upplýsingar um meðferðina og framhaldið. Í Heilsugátt er tilbúin ný lausn, Útskriftarborð, sem er hugsað sem sameiginlegt útskriftarbréf frá þeim fagstéttum sem koma að meðferð sjúklings í legunni. Útskriftarborðið mun auka skilvirkni og öryggi við útskriftir auk þess að efla teymisvinnu fagstétta. Bréfið samanstendur af dálkum með flýtitexta og öðrum dálkum sem safna sjálfkrafa helstu upplýsingum um legu sjúklings (rannsóknir, tímabókanir ofl.). Auk þess getur heilbrigðisstarfsfólk bætt inn texta og fræðsluefni. Útskriftarbréfið og fræðsluefnið er síðan sent til sjúklings í sjúklinga appið og Heilsuveru. Einnig vistast bréfið sem PDF í viðeigandi lotu í Sögukerfinu. Hjartadeildin hefur notað lausnina með góðum árangri og gert er ráð fyrir innleiðingu á aðrar deildir í framhaldi. Sjá dæmi um skjámyndir.

2. Tímabókanir aðgengilegar sjúklingum
Tímabókanir sjúklinga á dag- og göngudeildir, vegna meðferða eða rannsókna, eru nú aðgengilegar í sjúklinga appinu og Heilsuveru. Tæknilausnin hefur verið tilbúin í nokkurn tíma en samræma hefur þurft verklag á deildum spítalans áður en hægt var að birta tímabókanir, sem og hvað skuli birta. Tímabókanir skráðar sem símtal og skilaboð birtast til dæmis ekki. Aðkoma sjúklinga að eigin meðferð er ein af áherslum spítalans og aðgengi að eigin gögnum er liður í því. Tæknilega er mögulegt í dag að birta mikið af þeim upplýsingum en slíkt kallar á faglega umræðu áður en birting hefst, enda um viðkvæm gögn að ræða. Til að mynda eru hafnar prófanir á birtingu niðurstaðna úr blóðrannsóknum. Þar koma upp mörg álitamál sem greiða þarf úr svo dæmi sé tekið.

3. Aðgangsveitingar að tölvukerfum – Aukin sjálfvirkni og sjálfsþjónusta
Beiðnir um aðgang að tölvukerfum spítalans eru um 65.000 á ári. Lögð hefur verið áhersla á sjálfvirkni og sjálfsþjónustu með þróun lausna eins og Varðar og Leynihólfs. Yfir 80% af aðgangsveitingum eru sjálfvirkar í dag. Búið er að endurbæta Leynihólfið þ.a. notendur sjá þar nýjasta lykilorð sitt í Heilsugátt/Sögu og geta jafnframt breytt því. Þetta nýtist t.d. ef notendur hafa gleymt lykilorði sínu. Í bili nýtist lausnin aðeins innan spítalans en markmiðið er að ytri stofnanir geti einnig nýtt virkni Varðar og Leynihólfs á sama hátt. Sjá leiðbeiningar um notkun.
1. Skjáborðin – lífæð í starfsemi spítalans
Rauntíma skjáborð yfir sjúklinga á deildum spítalans eru mikilvægt hjálpartæki í starfsemi spítalans. Frá því fyrsta skjáborðið í Heilsugátt var útbúið fyrir bráðamóttökuna í Fossvogi, hafa skjáborð verið innleidd fyrir flestallar bráðadeildir, legudeildir og dag- og göngudeildir, auk fjölda sérhæfðra skjáborða. Skjáborðin sem birta gögn úr tugum undirliggjandi tölvukerfa og lækningatækjum, eru sveigjanleg í uppsetningu en áhersla er þó lögð á staðlaða notkun. Skjáborðin eru dæmi um stöðuga framþróun, því frá fyrsta skjáborðinu hafa komið 140 útgáfur af Heilsugátt og nánast í hverri útgáfu hafa verið einhverjar endurbætur skjáborða. Hér eru dæmi um stöðluð skjáborðí notkun á spítalanum, sem og dæmi um stillimöguleika skjáborðanna.

2. Sérhæfð skjáborð – mætum ólíkum þörfum
Til viðbótar við stöðluðu skjáborðin hafa ýmis sérhæfð skjáborð verið þróuð til að styðja við klíníska starfsemi. Við innleiðingu á nýju fyrirmælakerfi vegna krabbameinslyfja (Cato) reyndist yfirsýn klínísks starfsfólks yfir sjúklinga í meðferð ófullnægjandi. Því var þróuð sérstök útgáfa af skjáborði fyrir deild blóð- og krabbameinslækninga. Annað glænýtt dæmi er svokallað teymisskjáborð lyflækninga, þar hafa lyflæknar skilvirka yfirsýn yfir sína sjúklinga óháð því hvar þeir eru staðsettir. Meðal annars má sía eftir einstökum læknum, sérgreinum eða teymum. Líklegt er að teymisskjáborðið verði þróað áfram t.d. fyrir yfirsýn áhættusjúklinga óháð staðsetningu þeirra. Eldra dæmi er skjáborð innlagna sem sýnir í rauntíma stöðuna á öllum deildum spítalans, rúmanýtingu, ástand sjúklinga, hjúkrunarþyngd og fleira.

3. Allar niðurstöður blóðrannsókna á einum stað – stór áfangi
Rannsóknakjarni LSH hefur í samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir unnið að því að samnýta blóð- og kemíukerfi spítalans (Flexlab), þannig að allar rannsóknaniðurstöður þeirra stofnanna eru nú aðgengilegar í Heilsugátt. Til viðbótar er nýlega búið að tengja kerfi spítalans við einkareknar rannsóknastofur í blóð- og kemíurannsóknum (Sameind og Mjódd). Allar niðurstöður blóðrannsókna á landinu eru þar með aðgengilegar í gegnum Heilsugátt. Þetta er mikilvægur áfangi sem klárlega eykur öryggi sjúklinga og sparar læknum sporin. Sjá skjámyndir.

  1. Innskráning í tölvukerfi spítalans með auðkenniskortum
    Á bráðdeild og 11EG standa nú yfir prófanir á innskráningu í tölvur og hugbúnaðarkerfi með auðkenniskortum (starfsmannakortum). Yfir 400 heilbrigðisstarfmenn skrá sig nú inn með því að setja kortið á lesara staðsettan við tölvur á deildunum. Notendur þurfa því ekki lengur að slá inn lykilorð til að opna tölvukerfin, og leggja síðan kortið aftur á kortalesarann til að skrá sig út. Lausnin býður upp á ýmsa fleiri möguleika en sérstök áhersla er lögð á að einfalda verklag starfsfólks. Auk þess að stytta tíma til innskráninga í kerfi, er dregið úr þörf á lykilorðum og notkun sameiginlegra aðganga. Ef almenn ánægja verður með lausnina er gert ráð fyrir að innleiða hana á öðrum deildum spítalans. Fyrir áhugasama er hér stutt myndband frá framleiðanda.

  2. Móttökustandar og greiðslumöguleikar – bætt þjónusta
    Búið er að innleiða 26 móttökustanda á deildir víða um spítalann og fjölgar ört. Þegar sjúklingar mæta á spítalann skrá þeir sig með kennitölu og þurfa ekki að gefa sig fram í móttöku. Sjúklingur svarar spurningum um smitgát, ofnæmi og yfirfer persónuupplýsingar. Sjúklingur er sjálfkrafa skráður í sjúkrakrárkerfin þar sem meðferðaraðili sér að sjúklingur er mættur. Innleiðing móttökustanda hefur skilað mikilli hagræðingu og ánægju sjúklinga. Á nokkrum deildum er búið að innleiða greiðslumöguleika við móttökustandana þ.a. sjúklingar geta greitt fyrirfram fyrir þjónustuna. Þetta nýtist sérstaklega þar sem fyrir liggur hvaða meðferð viðkomandi er að fara í, t.d. brjóstaskimun eða beinþéttnimælingu. Í vinnslu er að bjóða upp á fleiri greiðslumöguleika og víðar um spítalann.

  3. Brjóstamiðstöð og brjóstaskimun á Eiríksstöðum – ný hugsun 
    Spítalinn hefur séð um brjóstaskimanir í göngudeildarhúsi Eiríksgötu 5 síðan í apríl 2021. Lögð hefur verið áhersla á sjálfsþjónustu sjúklinga, að ferli þeirra sé sem skilvirkast og upplifun af þjónustunni sem best. Ýmsar tæknilausnir hafa verið þróaðar í tengslum við framkvæmd og úrlestur skimana, t.d. úrlestur tveggja lækna (double blind reading) þar sem vinnuflæðið er að mestu í Heilsugátt með tengingu við myndskoðun í EI myndgreiningakerfi. Lausnin er í stöðugri þróun í samstarfi við notendur, m.a. hefur verið skoðað að nýta gervigreindartækni við úrlestur. Hér er skjal sem sýnir nokkur vinnuflæði og skjámyndir í Heilsugátt og EI kerfinu.

Hvetjum ykkur til að kynna þessar lausnir fyrir ykkar starfsfólki. Ef frekari upplýsinga er óskað endilega hafið samband.

 

 

 2022


1. Samnýting tölvukerfa LSH – Bætt meðferð og góð nýting fjármuna
Sjúkraskrá Landspítalans samanstendur af yfir 100 tölvukerfum. Stefna spítalans er að aðrar heilbrigðisstofnanir geti nýtt þau kerfi, þótt þarfir spítalans séu vissulega flóknari. Þannig hafa yfir 80 stofnanir og einkastofur aðgang að gögnum spítalans gegnum Heilsugátt. Ýmis rannsóknakerfi eru samnýtt, t.d. nýta allar heilbrigðisstofnanir blóðrannsóknakerfi LSH og fjölmörg vista hjartalínurit sín í kerfi spítalans svo dæmi séu tekin. Mest samstarf er þó með SAk, sem í dag nýtir einnig kerfi fyrir sýkla- og veirurannsóknir, meinafræði, krabbameinslyf og blóðbankaþjónustu. Í skoðun er að samnýta skurðstofukerfi, gjörgæslukerfi, lagerkerfi, myndgreiningakerfi, Office365 og fleira mætti nefna. Einnig er ákveðið að SAk taki upp Heilsugátt á sama hátt og LSH, m.a. vegna krafna unglækna sem hafa alist upp við Heilsugátt LSH.

2. Klíníska Spjallkerfið – Breytt og skilvirkara verklag
Spjallkerfið í Heilsugátt hefur verið í notkun í nokkur ár og þegar skilað miklu. Notkunin kallar á breytt verklag og að sérgreinar og/eða teymi vakti sínar rásir, sem spítalinn er kominn vel áleiðis með. Þar hefur þó sýnt sig að breytingar á verklagi eru oft snúnari en tæknin sjálf. Spjallkerfið er ætlað klínísku starfsfólki til öruggra og rekjanlegra samskipta sem vistast sem hluti af sjúkraskrá og er samofið annarri virkni í Heilsugátt eins og skjáborðum, Tímalínu og Vinnuhólfi. Einnig er spjallkerfið nýtt fyrir sérfræðiráðgjöf (konsúlt), m.a. fyrir ytri stofnanir sem leita ráðgjafar hjá sérfræðingum LSH. Lausnin býður upp á myndsamtöl þ.a. að læknar geti sameiginlega yfirfarið sjúkraskrá, t.d. hjartalínurit eða röntgen mynd. Fjölmargar viðbætur eru fyrirhugaðar. Hér eru nokkrar skjámyndir sem sýna notkun kerfisins.

3. Sjúkrakallkerfi sjúklinga – Betri þjónusta
Unnið hefur verið markvisst að uppfærslu og endurnýjun sjúkrakallkerfa spítalans undanfarin ár og innleiðingu er nú lokið á níu deildum. Kerfið býður upp á fjölmarga nýja möguleika og tengist sjúkraskrárkerfum spítalans. Lausnin auðveldar samskipti starfsfólks við sjúklinga í gegnum borð- og farsíma, bætir tengingar við sjónvarp, útvarp, ljós og byltuvarnir. Einnig veitir það starfsfólki betri yfirsýn með stöðugri vöktun á vinnu- og vaktherbergjum. Þannig er auðveldara að fylgjast með, bregðast fyrr við og veita sjúklingum betri þjónustu. Stjórnendum gefst einnig kostur á að skoða tölfræði úr kerfinu líkt og viðbragðstíma og fjölda sjúkrakalla yfir valið tímabil. Sjá kynningarmyndband um lausnina og hér eru myndir af notkun kerfisins.
  1. Sjálfvirk afhending sjúkraskráa til sjúklinga
    Árlega berast LSH um 10.000 óskir frá sjúklingum um afrit af eigin sjúkraskrá, sem og frá ýmsum ytri aðilum. Úrvinnslan er tímafrek enda sjúkraskráin í yfir 100 kerfum. Gögn voru tekin handvirkt úr kerfunum og límd inn í PDF skjal, yfirfarin og send sjúklingum. Búið er að hálf sjálfvirknivæða ferlið og markmiðið að gera alsjálfvirkt. Með nýja ferlinu safnar Tímalínan í Heilsugátt öllum gögnum sjúklings í sérskjal, tekur út kennitölur og merkir nöfn þ.a. fjarlægja megi upplýsingar um 3ju aðila á hraðvirkan hátt (krafa skv. lögum). Með einum smelli er skjalið síðan sent í Heilsuveru og pósthólf viðkomandi á Island.is. Samhliða er unnið að því sjúklingar hafi aðgang að allri sjúkraskrá sinni í Heilsuveru og sjúklinga appi LSH, sem er viðamikið verkefni og unnið í áföngum. Hér má sjá  nýja verkferlið og nokkrar skjámyndir um verkferlið úr Heilsugátt.

  2. Þjónusta við erlenda sjúklinga – nýjar tæknilausnir
    Sjúklingum sem hvorki geta tjáð sig á íslensku eða ensku fjölgar stöðugt. Þetta kallar á kostnaðarsama túlkaþjónustu og tefur meðferð. Ýmsar tæknilausnir eru í prófun á spítalanum til stuðnings. Care-to-translate (C2T) er nýtt samskiptatól sem inniheldur fyrir fram skilgreindar setningar sérhannaðar eftir sérgreinum (á 42 tungumálum), og er vottuð lausn fyrir heilbrigðisstofnanir. Kerfið þýðir og les upp viðkomandi setningar á tungumáli sjúklings. Lausnin er í innleiðingu á spítalanum og er uppsett á spjaldtölvum á deildum spítalans þ.a. sjaldnar er þörf fyrir utanaðkomandi túlk. Verkefnið er skref í þróun sjúklingafræðslu og vandaðra samskipta í heilbrigðiskerfinu. Hér eru frekari upplýsingar um kerfið og notkun þess á Landspítalanum.

  3. Velferðartorgið – Nýtum tæknina og bætum velferð starfsfólks
    Til að styðja sem best við starfsfólk spítalans og bæta líðan hefur verið innleitt svokallað Velferðartorg sem er aðgengilegt á innri vef spítalans. Þar getur starfsfólk bókað tíma hjá fjölda sérfræðinga á sviði stuðningsþjónustu, ýmist sérfræðingum innan LSH eða sérfræðingum sem starfa utan spítalans. Hægt er að bóka fjarfund eða staðfund eftir því hvað hentar betur. Lausnin er frá Köru Connect og hefur verið aðlöguð þörfum spítalans og fengið góðar viðtökur frá starfsfólki. Þótt Velferðatorgið snúi að starfsfólki nýtist Köru Connect lausnin einnig vel til samskipta við sjúklinga. Hér eru nokkrar skjámyndir úr Velferðartorgi Landspítala.

  1. Rauntíma gæðastýring á gjörgæslum LSH
    Sérstakt gjörgæslukerfi, CIS, var innleitt fyrir nokkrum árum fyrir gjörgæslur, svæfingu, vöknun og vökudeild spítalans, samtals yfir 120 rúm. Kerfið safnar miklu magni af gögnum m.a. úr lækningatækjum tengdum sjúklingum. Útbúin hefur verið sérstök lausn ofan á gjörgæslukerfið sem sýnir helstu klíníska gæðavísa á myndrænan hátt, til að fylgjast með og bæta starfsemina. Martin Ingi Sigurðsson yfirlæknir svæfinga- og gjörgæslulækninga í samvinnu við Rögnvald Sæmundsson prófessor í iðnaðarverkfræði og hóp forritara úr HÍ þróuðu lausnina. Launin var nýlega kynnt framleiðendum CIS gjörgæslukerfisins og til skoðunar er að nýta lausnina á öðrum sjúkrahúsum erlendis. Lausnin er dæmi um nýsköpun á LSH en ekki síður hvernig nýta má klínísk gögn til stýringa. Hér eru skjámyndir úr kerfinu. 
     
  2. Beiðnir og tilvísanir í Heilsugátt – allt á einum stað
    Hlutverk Heilsugáttar er að líma saman yfir 100 sjúkraskrárkerfi spítalans. Liður í því eru beiðnir um rannsóknir og gerð tilvísana um meðferð. Búið er að þróa viðmót fyrir yfir 95% þeirra rannsókna/tilvísana sem þörf er fyrir. Hér eru nokkur dæmi . Í notkun eru svokallaðir fyrirmælapakkar (e. Order sets) fyrir helstu sjúkdómseinkenni. Næsta skref er aukin sjálfvirkni, þ.a. þegar tiltekinn fyrirmælapakki, sem inniheldur ákveðnar rannsóknir, greiningar, lyfjagjafir, meðferðaóskir ofl. er valinn þá framkvæmir Heilsugátt sjálfkrafa þær aðgerðir sem hægt er. Þannig einfaldast vinna heilbrigðisstarfsfólks og öryggi sjúklinga eykst. Hér eru dæmi um fyrirmæli sjúklinga og fyrirmælapakka.

  3. Biðlistar og tilvísanir (B&T) – Nýtt skilvirkt og öruggt ferli
    Það hefur reynst snúið að halda utan um tilvísanir sem berast einstökum sérgreinum LSH frá öðrum deildum en ekki síður frá öðrum heilbrigðisstofnunum. Því hefur verið útbúin eins konar ferlavél (B&T) í Heilsugátt sem er í innleiðingu á deildum spítalans. Með B&T fæst yfirsýn yfir tilvísanir allra sjúklinga og stöðu þeirra í ferlinu, en almennt færast þeir frá „Tilvísun“ í „Í afgreiðslu“ í „Á biðlista“ og að síðustu í „Skipulagt“. Lausnin tryggir einnig að sjúklingar séu upplýstir þegar þeir færast úr einni stöðu í aðra fram að því að aðgerð eða meðferð er skipulögð og dagsett. Ferlið er alrafrænt fyrir þá sjúklinga sem það kjósa í Heilsuveru og með sjúklinga appi LSH. Hér eru nokkrar skjámyndir.

  1. Gagnvirk mælaborð til framsetningar gagna
    Eitt af markmiðum spítalans til næstu ára er að nýta betur gögn til ákvörðunartöku. Það gildir um starfsemis- og stjórnendaupplýsingar en ekki síður um gögn í klínísku starfi þar sem regluvélar og gervigreind munu breyta miklu. Spítalinn situr á miklu magni gagna, m.a. í umfangsmiklu vöruhúsi gagna. Við erum að gera þessi gögn aðgengilegri fyrir starfsfólk með gagnvirkum mælaborðum í stað hefðbundinna skýrslna. Dæmi um þetta eru fjárhagsmælaborð stjórnenda, mælaborð flutningaþjónustu auk fjölmargra mælaborða HUT. Þessum mælaborðum mun fjölga hratt á komandi mánuðum.

  2. Klínískar regluvélar í Heilsugátt
    Regluvélar eru skref í nýtingu gervigreindar við meðhöndlun sjúklinga. Útbúa má alls konar klínískar reglur sem Heilsugátt nýtir á sjálfvirkan hátt til að finna þá sjúklinga sem falla undir viðkomandi reglur. Hægt er að keyra reglurnar t.d. á alla sjúklinga sem koma á bráðamóttöku, eða eru inniliggjandi. Flaggað er í sjúkraskrá sjúklings ef við á eða umræddir sjúklingar eru settir í sérstaka hópa sem viðkomandi sérfræðingar fara síðan yfir. Í dag eru yfir 150 klínískar reglur virkar og fjölgar hratt. Klínískt starfsfólk getur útbúið eigin reglur en HUT aðstoðar eftir þörfum. Meðfylgjandi eru nokkrar skjámyndir sem útskýra þessa virkni.

  3. Kubburinn – ný hugsun í nýtingu sjúkraskrárgagna
    Kubburinn gengur skrefi lengra en regluvélarnar varðandi gervigreind. Kubburinn er eins konar leitarvél sem leitar í sjúkraskrá spítalans og telur ekki aðeins fjölda sjúklinga sem uppfylla ákveðin skilyrði heldur líka hvað þeir eiga sameiginlegt. Þannig má t.d. leita uppi tengsl milli sjúkdóma, aðgerða, lyfja osfrv. Mikil nýsköpunartækifæri eru fólgin í því að taka þessa hugsun enn lengra. Næstu skref í þróun Kubbsins eru sýndarmeðferðir, þar sem meðferðaraðilar geta með hjálp líkansins spáð fyrir um hvort sjúklingur verði fyrir ákveðnum atburði, byggt á sjúkrasögu viðkomandi og undirliggjandi gögnum annarra sjúklinga. Meðfylgjandi eru nokkrar skjámyndir úr Kubbnum sem sýna notkunarmöguleika.

  1. Nýtt ferli nýsköpunar tæknilausna orðið virkt
    Eitt af markmiðum Landspítalans er að stuðla að nýsköpun heilbrigðistæknilausna í samvinnu við nýsköpunarfyrirtæki. Framkvæmdastjórn spítalans samþykkti stefnu þess efnis í apríl og nú er ferlið orðið virkt. Á heimasíðu spítalans www.landspitali.is/nyskopun má finna frekari upplýsingar auk umsóknarforms þar sem nýsköpunarfyrirtæki geta óskað eftir samstarfi við Landspítalann. Hér má einnig sjá frekari upplýsingar um ferlið.
  2. Hópavirkni í Heilsugátt 
    Heilsugátt (sjá hér mynd af úfærslu í sjukrahúsmálum og Heilsugátt)  gegnir lykilhlutverki í stefnu spítalans í sjúkraskrármálum. Hópavirkni er ein af mörgum nýjungum síðustu ára. Með hópunum er á skilvirkan hátt haldið utan um sjúklingahópa. Bæta má sjúklingum handvirkt í hópa en oftar gerist slíkt sjálfvirkt með regluvélum. Í boði eru yfir 50 tegundir dálka, m.a. sem sækja gögn beint í sjúkraskrá, t.d. niðurstöður blóðrannsókna. Í dag eru þegar þúsundir hópa í Heilsugátt. Líkja mætti hópunum við klínískt Excel á sterum. Hóparnar gegndu lykilhlutverki við umsjón Covid sjúklinga á spítalanum og nýtast vel fyrir sjúklingahópa sem sinna á með fjarheilbrigðisþjónustu. Hér eru skjámyndir m.a. frá Brjóstamiðstöð, með dæmum um hópa og virkni.

  3. Endurbætt skurðstofukerfi
    Orbit er eitt af yfir 100 sjúkraskrárkerfum spítalans. Það er notað fyrir aðgerðir og inngrip á skurðstofum, hjartaþræðingu, æðaþræðingu, speglun og fyrir svæfingar. Orbit heldur m.a. utan um biðlista aðgerða, aðgerðaskipulag, aðgerðaskráningu og vöknunarskipulag. 18 mánaða uppfærsluverkefni lauk í mars en kerfið er samþætt fjölmörgum öðrum kerfum spítalans, yfir 30 samþættingar. Kerfið hefur reynst mjög vel og líklegt að SAk nýti það einnig í framhaldi, en mikil samvinna er með LSH og sjúkrahúsinu á Akureyri. Hér eru nokkrar skjámyndir úr Orbit kerfinu. 

  1. Stoðgátt – allt á einum stað
    Þróun Heilsugáttar sem viðmót ofan á yfir 100 sjúkraskrárkerfi spítalans hefur reynst mjög árangursrík. Nú er í þróun svokölluð Stoðgátt sem verður viðmót ofan á stoðþjónustukerfin, t.d. fjárhags- og mannauðskerfin, birgðakerfin, flutningaþjónustu, matarþjónustu og í raun allar þjónustulínur spítalans. Í Stoðgátt mun starfsfólk spítalans hafa yfirlit yfir öll erindi sem þeim berast og geta framkvæmt allar helstu daglegar aðgerðir sem framkvæmda þarf í fjölmörgum tölvukerfum í dag. Því til viðbótar mun Stoðgáttin verða viðmót við helstu tæknikerfi í nýjum spítala, t.d. sjálfvirka flutningavagna, rörpóstkerfi, öryggis- og aðgangskerfi, hússtjórnarkerfi ofl. Þróun Stoðgáttar er langtíma þróunarverkefni, en fyrsta útgáfa Stoðgáttar er í notendaprófunum. Vissulega enn heldur frumstæð eins og Heilsugátt var á sinum tíma en mun þroskast hratt. Hér má sjá nokkrar skjámyndir úr Stoðgáttinni.

  2. Nýtt starfsmanna app LSH
    Samhliða þróun sjúklinga apps, sem er í innleiðingu á deildum spítalans, er app fyrir starfsfólk spítalans einnig í þróun. Markmiðið er að allir starfsmenn spítalans, klínískir sem aðrir, hafi í símanum yfirlit yfir dagskrá sína, sjái erindi sem bíða þeirra og geti óskað eftir helstu þjónustu, og framkvæmt ýmsar handhægar aðgerðir. Einnig verða í appinu sérlausnir sem nýtast ákveðnum starfsstéttum. Fyrsta útgáfa appsins verður aðgengileg á næstu dögum. Starfsfólk flutningaþjónustunnar verður fyrsti notendahópurinn þar sem þau geta unnið með beiðnir sem bíða þeirra. Í framhaldi er gert ráð fyrir að nýrri útgáfa á 2ja mánaða fresti með aukinni virkni.
    Hér eru skjámyndir úr appinu sem og hönnunarmyndir sem sýna ætlaða virkni í næstu útgáfum.

  3. Nýtt rekjanleikakerfi skurðáhalda tekið í notkun
    Í apríl var tekið í notkun nýtt tölvukerfi á öllum skurðstofum og dauðhreinsun sem heldur utan um feril dauðhreinsaðra skurðverkfæra og vara sem notaðar eru í skurðaðgerðum. Ferill verkfæranna er skráður í gegnum notkun þeirra í aðgerð, eftirlit, þrif, pökkun, dauðhreinsun uns varan er aftur komin í geymslu á lager tiltæk fyrir næstu aðgerð. Hægt er að skoða feril allra verkfærabakka, skoða hvaða bakkar voru notaðir í aðgerð hjá ákveðnum sjúklingi, í hvaða aðgerðum ákveðinn verkfærabakki var notaður og eins er haldið utan um fyrningu verkfæra og viðhald. Þetta er umfangsmikið og mikilvægt kerfi, en krafa er um rekjanleika allra skurðáhalda. Hér eru skjámyndir úr kerfinu og helstu verkferlar sem kerfið styður við.

  1. Nýsköpunverkefni á LSH í nýjan og betri farveg
    Landspítalinn vill stuðla að nýsköpun tæknilausna og eiga samstarf við fyrirtæki á því sviði. Bent hefur verið á að LSH geti gert betur í þeim efnum og spítalinn vill bregðast við því. Því hefur framkvæmdastjórn spítalans samþykkt nýtt ferli nýsköpunarverkefna í heilbrigðis- og upplýsingatækni. Í stuttu máli geta fyrirtæki óskað eftir samstarfi á heimasíðu spítalans. Umsóknir fara í skilgreint klínískt og tæknilegt matsferli. Verkefni sem fá jákvæða umsögn eru síðan tekin fyrir í UTnefnd spítalans. Líklegt er að ferlið muni mótast á næstu misserum en fyrsta útgáfa umsóknarforms verður aðgengileg í maí. Einnig verður þróað tæknilegt viðmót þ.a. nýjar nýsköpunarlausnir geti nálgast gögn úr kerfum spítalans og skilað, enda nánast forsenda árangurs að nýjar tæknilausnir tengist sjúkraskrárkerfum spítalans.
    Hér eru nánari upplýsingar um ferlið.

  2. Stefna LSH í samstarfslausnum mun efla störf, samstarf og upplýsingaleit allra starfsmanna
    LSH hefur mótað stefnu í upplýsingatæknimálum til næstu 5 ára þar sem stafræn umbreyting er leiðarljós stefnunnar. Því til viðbótar er stefnumótun í gangi fyrir einstaka málaflokka: sjúkraskrármál, fjárhags- og mannauðskerfi, samstarfslausnir ofl. Framkvæmdastjórn spítalans samþykkti nýlega stefnu í samskiptalausnum til næstu ára. Office365 leikur þar stórt hlutverk en fjölmargar aðrar lausnir flokkast undir samstarfslausnir, en stefnuna má finna hér.

  3. Hlutur upplýsingatækni á LSH er aðeins 3% - lægri en í nágrannalöndum
    Óumdeilt er að skynsamleg nýting upplýsingatækni sé forsenda árangurs í flestum fyrirtækjum og á sannarlega við um heilbrigðiskerfið. Kostnaður vegna upplýsingatækni og stafrænna umbreytinga er mikill en ávinningurinn er líka gríðarlegur. Algengt er að erlendir spítalar verji 4%-5% af rekstrarkostnaði sínum til upplýsingatæknimála og t.d. ver Karolinska yfir 6%. Landspítalinn ver aðeins 3% til upplýsingatæknimála. Til samanburðar er UT kostnaður íslensku bankanna yfir 10%. Landspítalinn er stærsti vinnustaður landsins með stærsta og flóknasta tölvuumhverfið. Fyrir utan tæplega 5000 vinnustöðvar og yfir 300 tölvukerfi eru yfir 9000 lækningatæki sem eru í raun flókinn tölvubúnaður. Hér er einfalt yfirlit yfir umfang málaflokksins á LSH.


    Umfang upplýsingatækni á Landspítala
  1. Sjúklinga app LSH - nýjungar
    Sjúklinga app Landspítalans er í stöðugri framþróun, en lausnin styður við sjúklinga sem nýta sér þjónustu spítalans. Ný útgáfa kom í síðustu viku á App Store og Google Play. Meðal nýjunga eru möguleikar á að yfirfara persónuupplýsingar og fylgjast með þróun meðferðar, t.d. lífsmörkum og rannsóknum. Einnig geta sjúklingar nú sent skilaboð á starfsfólk á viðkomandi deild. Í nýjustu útgáfunni er líka sérstakur stuðningur við sjúklinga á bráðamóttöku. Í dag fá sjúklingar sem koma í aðgerð í Fossvog eða leggjast inn á legudeild A4 aðgang að appinu. En jafnframt fá allir sjúklingar sem koma á bráðamóttöku í Fossvogi nú sent SMS með eftirfarandi hlekk http://landspitali.is/app við innritun. Í framhaldi munu allir sjúklingar sem leggjast inn eða koma á dag- og göngudeildir spítalans geta nýtt appið. Í apríl er gert ráð fyrir nýrri uppfærslu með fjölmörgum viðbótum sem verða kynntar þá. Sjá hér skjámyndir úr sjúklingaappinu.

  2. Aðgangsveitingar að tölvukerfum spítalans
    6000 starfsmenn Landspítala hafa aðgang að fjölmörgum tölvukerfum spítalans. Til viðbótar hafa 2000 nemendur á hverjum tíma aðgang auk 3500 starfsmanna annarra heilbrigðisstofnanna. Alls eru um 55.000 óskir um aðgangsveitingar að tölvukerfum spítalans á ári og fjölgar hratt. Búið er að sjálfvirknivæða þennan feril, þ.a. nú eru 82% aðgangsveitinga framkvæmdar sjálfvirkt. Vörðurinn og Leynihólfið eru lausnir sem hafa verið þróaðar til að sinna þessu hlutverki. Mikil áhersla er á að sjálfsþjónustu og sjálfvirknivæðingu verkferla innan spítalans og aðgangsveitingar eru gott dæmi um það.
    Frekari upplýsingar um aðgangsveitingar á Landspítala.

  3. Hugbúnaðarþjarkar
    Nokkrar deildir spítalans eru byrjaðar að nýta svokallað hugbúnaðarþjarka (e. Robotics) til að sinna ýmsum verkefnum og létta þannig á starfsfólki. Hægt er að láta þjarkana vinna skilgreind ferli, þar sem þjarkurinn vinnur eins og hefðbundinn starfsmaður, loggar sig inn í tölvukerfi, smellir með mús til að fara inn í rétta skjámynd og fyllir út viðeigandi reiti. Dæmi um svona ferli er skráning reikninga í Navision fjárhagskerfið, þar sem þjarkurinn sér um að útbúa reikninga vegna ógreiddra koma á göngudeildir LSH. Þjarkurinn sækir grunngögnin úr skýrslu í Tunnunni og skráir inn í Navision, um 8000 reikninga á mánuði. Þjarkurinn vinnur í dag meira en tíu mismunandi ferli og fjölmörg önnur ferli í undirbúningi. Ef þú hefur hugmynd að þjarkanotkun á þinni einingu hafðu þá endilega samband við okkur á HUT og við skoðum málið með þér.

  1. Sending myndgreininga
    Áður fengu sjúklingar afrit eigin myndgreininga á disk eða minnislykli ef þeir þurftu gögnin. Á sama hátt sendu læknar spítalans reglulega myndgreiningar erlendis til að óska eftir sérfræðiáliti kollega. Fyrir tveimur árum var byrjað að nota rafræna lausn (Image over Globe) sem hefur smá saman verið samþætt ferlum og kerfum spítalans. Með lausninni fær sjúklingur sendan tengil á myndirnar og sama gildir þegar sérfræðilæknar þurfa að gefa álit. Í kerfinu er hægt að skoða myndirnar og vinna með þær svipað og í hefðbundnum röntgenkerfum. Lausnin hefur reynst vel, bætt þjónustu við sjúklinga og flýtt meðferð sjúklinga. Gagnaöryggi er tryggt enda gögnin ekki persónugreinanleg. Meðfylgjandi er dæmi um tengil á myndgreiningarrannsókn (tvísmella á myndir til að velja).
    Dæmi um myndrannsókn

  2. Sending vefjameinafræðisýna
    Stafræn meinafræði er smám saman að ryðja sér rúms á meinafræðideildum spítala í stað skoðunar meinafræðisýna í smásjá eins og verið hefur í áratugi. Á sama hátt og fyrir myndgreiningar þurfa sérfræðingar meinafræðideildar LSH reglulega að fá álit erlendis frá á flóknum sjúkdómstilfellum. Áður þurfti í slíkum tilvikum að senda sýni á sýnagleri í pósti. Fyrir nokkrum misserum var innleidd ný lausn (Pathozoom) sem gefur kost á að senda tengil á innskannað sýnagler á erlenda sérfræðinga til álits og greiningar. Nú er sjaldnar nauðsynlegt að senda sjálf sýnaglerin út og erlend álit er fljótlegra að fá. Síðan hefur notkun lausnarinnar verið þróuð áfram og samþætt ferlum meinafræðideildar. Lausnin hefur reynst vel og nýtist ekki aðeins til sérfræðiálita heldur fyrir margt annað, t.d. til kennslu. Gögn í kerfinu eru ekki persónugreinanleg. Meðfylgjandi er dæmi um rannsókn. Í þessu tilfelli æxlisvöxtur sem nefndur er „giant cell tumor“.
    Dæmi um meinafræðirannsókn

  3. Lokað lyfjaferli í krabbameinslækningum
    Í innleiðingu er ný hugbúnaðarlausn í stað núverandi Aria fyrirmælakerfis krabbameinslyfja. Kerfið heitir Cato og hluti lausnarinnar er lyfjafyrirmælakerfi fyrir lækna. En auk þess blöndunareining krabbameinslyfja sem og umsjón lyfjagjafa þar sem lyf gefin sjúklingi eru skönnuð sem og armband sjúklings og borin saman við fyrirmælin. Þannig næst lokað lyfjaferli sem eykur verulega öryggi þessa viðkvæma sjúklingahóps. Gert er ráð fyrir að lausnin verði tekin í notkun í vor. Þetta er skref í endurbættu lyfjaferli spítalans sem kallar á fjölmargar nýjar og endurbættar hugbúnaðarlausnir á næstu árum, og er forsenda flutnings í nýjan spítala. Meðfylgjandi mynd sýnir lokaða lyfjaferlið.
    Lyfjaferli krabbameinssjúklinga

 

 2021

  1. Covid og rafræn samskipti við sjúklinga.
    Covid göngudeildin hefur náð að fækka símtölum til Covid sjúklinga verulega, því spurningalistar sendast nú sjálfkrafa á sjúklinga sem þeir svara í Heilsuveru. Svör sjúklinga vistast sjálfkrafa í sjúkraskrá og kerfið metur hvort sjúklingur þurfi sérstaklega athygli. Einnig má nefna ýmis konar viðbótar virkni eins og spá um hvort nýgreindir sjúklingar muni lenda inn á spítala eða gjörgæslu. Sú jákvæða reynsla af fjarheilbrigðisþjónustu sem fæst frá Covid göngudeildinni á klárlega eftir að nýtast víðar á spítalanum. Óumdeilt er að vel hefur tekist til með Covid göngudeild spítalans þótt álagið hafi oft verið mikið. Ein ástæða eru öflugar rafrænar lausnir þar sem haldið er utan um alla Covid greinda með því að nýta ýmsar einingar Heilsugáttar. Leiðarljós hefur verið góð yfirsýn yfir sjúklinga í meðferð og sjálfvirkni þar sem því verður við komið. Til upplýsinga fylgja nokkrar skjámyndir (nöfnum breytt).Covid skjámyndir.

  2. Varsla og miðlun skjala.
    Mikil framför hefur orðið á spítalanum síðustu ár þegar kemur að vörslu skjala og miðlun, sem og mögulegu samstarfi við vinnslu þeirra. Notendur hafa nú fjölmarga valkosti úr að velja sem henta mismunandi þörfum. Þessar lausnir eiga það sammerkt að bæta starfsumhverfi starfsfólks, auka skilvirkni í starfi og tryggja öryggi gagna. Mikilvægt er að allir starfsmenn séu meðvitaðir um þessar lausnir og verklag. Viljum því benda á þetta stutta minnisblað: Vistun og miðlun gagna.

  3. Vistun og miðlun gagna.Öryggismál á Landspítala – öruggari auðkenning.
    Landspítalinn varðveitir ákaflega mikilvægar og viðkvæmar upplýsingar og það er skylda okkar að verja þau gögn fyrir óviðkomandi aðilum. Innbrot í tölvukerfi þar sem gögnum er stolið eða tekin í gíslingu þar til lausnargjald er greitt eru orðin ótrúlega algeng og dæmi um spítala erlendis sem hafa lent illa í því. Aukið öryggi er langferð með markvissum skrefum sem öll hafa það markmið að bæta öryggið. Liður í því er aukið öryggi í aðgangsmálum, þar sem lykilorð inn í tölvuna og ýmis kerfi skulu nú vera a.m.k. 14 stafir. Einnig krefst aðgangur að Ljóranum og VPN nú tveggja þátta auðkenningar (slá þarf inn sérstakan kóða til viðbótar við notendanafn/lykilorð). Mikilvægast er þó að byggja upp öryggismenningu þar sem allt starfsfólk spítalans er meðvitað um öryggismál, skilji ekki eftir lykilorð þar sem óviðkomandi kemst yfir þau, smelli ekki á tengla í dularfullum tölvupóstum osfrv. Til marks þessa ógn, eru hér nokkur dæmi um spítala sem hafa lent í alvarlegum tölvuárásum. Öryggisógnir spítala

  1. Sjálfvirkur flutningur lífsmarkamælinga í sjúkraskrá.
    Mikið hagræði og öryggi næst með að mæla lífsmörk og senda sjálfkrafa þráðlaust í sjúkraskrá sjúklings. Til að uppfylla klínískar og tæknilegar gæðakröfur Landspítala var farið í útboð í fyrra og Masimo Rad-97 Pulse CO-Oximeter monitor varð fyrir valinu. Eftir nokkurra mánaða samvinnu Masimo og HUT er slík sjálfvirkni komin á, þar sem byrjað er að skanna armband sjúklings og auðkenniskort starfsmanns áður en mæling hefst og öll lífsmarkagildi skila sér sjálfkrafa í sjúkraskrá sjúklings. Fyrsta prufudeildin B7 hefur notað Masimo mæli í nokkrar vikur og vankantar verið sniðnir af. Útfærður var stuðningur við NEWS, ONEWS og PEWS stigun sem hægt er að innleiða á allar deildir spítalans. Tækið býður upp á ennishita mælingu ásamt öðrum lífmörkum sem varpast samstundis þráðlaust í sjúkraskrá sjúklings, auk þess er hægt að skrá ýmsar viðbótar upplýsingar í tækið sem fylgja með í sjúkraskrána, eins og staðsetning þegar hiti er mældur og stöðu við blóðþrýstingsmælingu, svo eitthvað sé nefnt. Eftir að lífsmörkin eru send birtast leiðbeiningar á skjá tækisins um næstu skref. Gögnin skrást í lífsmarkaeiningu Sögu og birtast strax á skjáborði deilda í Heilsugátt.

  2. Samskipti við sjúklinga.
    Spítalinn lítur á rafrænan stuðning og rafræn samskipti við sjúklinga sem eitt af forgangsverkefnum spítalans. Heilsuvera er megin viðmót sjúklinga auk nýs sjúklinga apps LSH. Sjúkraskrá Landspítala býður ýmsa möguleika fyrir klínískt starfsfólk til samskipta við sjúklinga, og fjölmargar viðbætur á leiðinni. Meðvera sem er hluti af Sögu er hentugur valkostur en einnig er mögulegt á ýmsum stöðum í Heilsugátt að eiga samskipti við sjúklinga enda áhersla á að slík samskipti falli sem best að verklagi starfsfólks. Til dæmis viljum við senda rafrænt sem mest af því fræðsluefni og útskriftarleiðbeiningum sem ætlað er sjúklingum, frekar en að afhenda á pappír. Kerfin okkar styðja þegar vel við þá virkni. Meðfylgjandi skjal sýnir nokkra þeirra valmöguleika sem við höfum til samskipta við sjúklinga. 
  1. Hugráður („Software Center“).
    Af öryggisástæðum eru skýrar reglur um hvað notendur mega gera í tölvuumhverfi Landspítalans. Til dæmis geta notendur ekki sett upp hugbúnað að vild án aðkomu HUT. Hins vegar viljum við benda á að í boði er töluvert safn hugbúnaðar sem notendur geta sett upp og nýtt sér og það safn stækkar stöðugt. Á skjá notenda LSH er icon sem heitir Hugráður og þá opnast svokallað „Software Center“ þar sem hægt er að velja hugbúnað. Einnig er hægt að komast í „Software Center“ með því að slá það inn í leitargluggann í Windows (neðst til vinstri á skjánum).
  1. Sjúklinga app LSH. 
    Áherslan í sjúkraskrármálum spítalans síðustu 5-10 árin hefur verið á klínísku starfsemina, skilvirkni og aukið öryggi sjúklinga. Þar hefur mikill árangur náðst m.a. með stöðugri framþróun Heilsugáttar.  Nú er hins vegar stóraukin áhersla á rafrænan stuðning og samskipti við sjúklinga. Heilsuvera er lykilverkfæri í þeim efnum en jafnframt er fyrsta útgáfa sjúklinga apps LSH í prófunum á HNE, en um 700 sjúklingar hafa þegar fengið aðgang að appinu.  Sjúklinga appið er afurð nýsköpunar átaksins Heilbrigðismóts sem Fjármálaráðuneytið stóð fyrir, en spítalinn tók þátt í 10 nýsköpunarverkefnum sem mörg skiluðu mjög góðum árangri.  Áframhaldandi þróun appsins er í gangi og gert er ráð fyrir innleiðingu á haustmánuðum. 

  2. Rafrænar undirskriftir mannauðsgagna. 
    Innleiðing rafrænna undirskrifta í stað hefðbundinna undirskrifta skjala hefur verið átaksmál síðustu ár.  Byrjað var á ráðningasamningum og breytingatilkynningum enda umfangið mest þar.  Nú er svo komið að 96% slíkra skjala eru undirrituð rafrænt.  Launadeildin fær um 23.000 skjöl af ýmsu tagi á ári (14 tegundir skjala).  Af þeim eru tæplega 60% undirrituð rafrænt í dag.  Markmiðið er að innan tveggja ára verði öll mannauðsskjöl innan spítalans undirrituð rafrænt

  3. Fjarheilbrigðisþjónusta og myndsamtöl. 
    Fjarheilbrigðisþjónusta og aukin aðkoma sjúklinga að eigin meðferð er ein af lykiláherslum spítalans til næstu ára.  Liður í því eru fjarsamtöl, annars vegar klínískir samráðsfundir og hins vegar myndsamtöl við sjúklinga.  Fjarfundagátt LSH er nýtt til þessa, en það er örugg samskiptaleið og ætluð til klínískra samskipta meðan Teams er ætlað til almennra funda.  Búið er að þróa ýmsa virkni í fjarfundagáttina og tengja hana verklagi og sjúkraskrárkerfum spítalans.   Þessi lausn virkar vel og nú eru yfir 200 slíkir fundir á mánuði og fer hratt fjölgandi.  Geðsviðið hefur verið hvað virkast í þeim efnum en sífellt fleiri deildir nýta sér þjónustuna. Ef ykkar deild hefur áhuga á að nýta þessa tækni þá endilega hafið samband við HUT.  Hægt er að nálgast þessa þjónustu á nokkra  vegu, m.a. gegnum HUTgátt.  Sjá http://hutgatt.lsh.is/tolvumal/fjarfundagatt-lsh/
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?