Greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga í stjórnunarupplýsingum apríl 2004:
Í Stjórnunarupplýsingum fyrir fyrsta ársþriðjung 2004 er lögð áhersla á fjóra þætti í starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss. Í fyrsta lagi eru birtir biðlistar eftir þjónustu spítalans og þróun þeirra síðasta árið. Þar kemur fram að enn fækkar á nánast öllum biðlistum. Þá eru settar fram starfsemistölur fyrstu fjögurra mánaða ársins í samanburði við sömu mánuði í fyrra. Í þriðja lagi eru birtar upplýsingar úr DRG kerfinu og loks bráðabirgðauppgjör fyrsta ársþriðjungs og samanburður við rekstraráætlun. Frá síðustu áramótum hefur verið greint sérstaklega frá einhverju úr starfsemi eins sviðs á spítalanum í hverju hefti Stjórnunarupplýsinga. Að þessu sinni fær geðsvið spítalans sérstaka umfjöllun.
Fækkun á biðlistum kemur sérstaklega fram á skurðsviði spítalans. Eftir skurðaðgerð biðu 3.067 einstaklingar í maí í fyrra en nú bíða 2.251 sem er fækkun um 27%. Í meira en þrjá mánuði hafa 1.384 einstaklingar beðið og eru 830 af þeim að bíða eftir augnaðgerð á dagdeild augndeildar, aðallega eftir aðgerð á augasteini. Ef meðalbiðin er umreiknuð í mánuði og miðað við fjölda aðgerða á árinu 2003 í hverri sérgrein þá hefur biðin eftir aðgerð á augasteini styst úr 13 mánuðum í 8 mánuði, aðgerð vegna vélindabakflæðis og þindarslits hefur styst frá því að vera 19,5 mánuðir í rúma 7 mánuði. Bið eftir gerviliðaaðgerð á hné hefur styst úr 8,5 mánuðum í rúma 7 mánuði og eftir gerviliðaðgerð á mjöðm úr 5 mánuðum í tæpa 3 mánuði. Eftir hjartaþræðingu bíða nú 47 einstaklingar en á sama tíma í fyrra biðu 149 einstaklingar. Þetta samsvarar um einnar viku biðtíma í stað tæplega tveggja mánaða í fyrra. Að lokum má geta þess að ekki er biðlisti eftir miklum fjölda meðferða, t.d. eftir krabbameinsmeðferð. Fækkun á biðlistum eftir þjónustu spítalans er árangur af umtalsverðri starfsemisaukningu í kjölfar endurskipulagningar eftir að sameining sérgreina var um garð gengin.
Skurðaðgerðum fjölgaði fyrstu fjóra mánuði ársins um 5,3% frá fyrra ári. Aðgerðum fjölgar í almennum skurðlækningum, augnlækningum, barnaskurðlækningum, brjóstholsskurðlækningum, bæklunarlækningum, þvagfæraskurðlækningum og æðaskurðlækningum. Legum á bráðadeildum sjúkrahússins hefur fjölgað um 0,7% en legudögum fækkað um 5,5%. Meðallegutími styttist úr 8,5 dögum í 8,0 daga. Ef aðeins er litið til meðallegutíma á bráðadeildum sjúkrahússins þá er hann 5,0 dagar eða eins og hann var í fyrra. Komum á göngudeildir fjölgar um 6,5% en fækkar á dagdeildum um 3,2%. Umtalsverð fjölgun er á slysa- og bráðamóttökur spítalans, aðallega á Hringbraut, á bráðamóttöku barna þar, bráðamóttöku geðdeilda og almenna bráðamóttöku við Hringbraut. Aukningin er 6,7% frá síðasta ári.
Í hverri legu eða dvöl sjúklings eru skráðar sjúkdómsgreiningar sem lýsa meginástæðu meðferðar, undirliggjandi sjúkdómum og fylgikvillum meðferðar, ef einhverjir eru. Úr DRG framleiðslumælingarkerfinu eru upplýsingar um fjölda sjúkdómsgreininga eftir sviðum og sérgreinum. Að meðaltali er hver sjúklingur á LSH með 1,81 sjúkdómsgreiningu. Flestar eru greiningarnar á öldrunarsviði spítalans en þar er hver sjúklingur með 3,42 sjúkdómsgreiningar að meðaltali. Á endurhæfingarsviði eru greiningarnar 2,87, á lyflækningasviði II eru þær 2,77 á hvern sjúkling. Fæstar eru sjúkdómsgreiningar á hvern sjúkling á skurðlækningasviði eða 1,42.
Bráðabirgðauppgjör LSH eftir fyrsta ársþriðjung sýnir 76.6 m.kr. umfram fjárheimildir tímabilsins eða 0,8%. Launagjöld eru nánast á áætlun en rekstrargjöld 2,4% umfram áætlun. Ef litið er á hækkun rekstrargjalda frá fyrra ári sést að lækninga- og hjúkrunarvörur hækka um 9,2% og sérfræðiþjónusta um 7,0%. Kostnaður vegna S-merktra lyfja eykst um 10% en lyfjakostnaður í heildina eykst um 6,0%. Umfangsmiklar sparnaðarráðstafanir standa yfir á spítalanum sem fela í sér fækkun starfsmanna ásamt ýmsum öðrum aðgerðum til lækkunar gjalda. Jafnframt er fylgst náið með framvindu aðgerðanna á hverju sviði spítalans. Flest sviða spítalans eru innan rekstraráætlunar.
Í þessu hefti eru sérstakar upplýsingar frá geðsviði spítalans. Starfsemi sviðsins hefur breyst talsvert á undanförnum árum með aukinni dag- og göngudeildarþjónustu og minni sólarhringsþjónustu. Er það í samræmi við þróun í nágrannalöndunum. Greint er frá meðalbráðleika sjúklinga á hinum ýmsu deildum sviðsins en bráðleiki sýnir umönnunarþyngd sjúklinga að meðaltali. Þar er sýndur samanburður á æskilegum hjúkrunarklukkustundum og raunverulegum hjúkrunarklukkustundum skv. sjúklingaflokkunarkerfi spítalans. Víðast hvar er nokkuð gott samræmi þar á milli. Þá er litið til RAI–MH (Resident Assessment Instrument for Mental Health) kerfisins en það hefur verið í prófun á endurhæfingardeildum geðsviðs. RAI-MH mælitækið er nýtt til að afla grunnupplýsinga við mat á geðheilsu og þjónustuþörf inniliggjandi sjúklinga, 18 ára og eldri, á geðsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss. Upplýsingarnar munu gefa færi á samanburði milli þjónustu hinna ýmsu meðferðarforma, deilda og sviða innan geðheilbrigðisþjónustunnar.
Anna Lilja Gunnarsdóttir
framkvæmdastjóri