Leit
Loka

Almennt um námið

Námsbrautin er tólf mánaða nám sem hefur verið sérhannað til að bæta nýsköpunarfærni þátttakenda með formlegri kennslu og verkefnavinnu undir handleiðslu innlendra og erlendra sérfræðinga í nýsköpunar- og þróunarvinnu. Námið er ætlað þeim sem hafa áhuga á að starfa með lausnamiðaðri og skapandi nálgun á tæknilegum, vísindalegum eða starfsemistengdum málum í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þátttakendur kynnast möguleikum og eiginleikum nýsköpunar, læra á laga- og styrkjaumhverfi og fá tengingu við atvinnulíf á Íslandi. Nemendur læra að skilja og framkvæma nýsköpunarverkefni undir handleiðslu á meðan á námstímanum stendur. Námið er fjölþætt og veitir heildstæða innsýn og færni til að geta þróað góðar hugmyndir og komið þeim í framkvæmd. Gríðarmikilvægt er að fjölga klínískum starfsmönnum með nýsköpunarfærni til að fást við áskoranir nútímaheilbrigðisþjónustu með nýjum aðferðum.

Fyrir hverja

Námsbrautin hentar klínískum fagaðilum sem hafa áhuga á að búa til nýjar lausnir sem nýtast sjúklingum, starfsfólki eða sem bæta starfsemina. Námið er krefjandi og þarf virka þátttöku til að standast námskröfur en unnið verður bæði í styttri kennslulotum og samfelldri verkefnavinnu. Fyrsti hópur námsbrautarinnar mun samanstanda af sérnámslæknum og sérfræðilæknum Landspítala en sérnámslæknum sem teknir verða inn í námið býðst að stunda námið samhliða sérnámi. Opið verður svo fyrir skráningu á valda fyrirlestra og vinnustofur fyrir aðra klíníska fagaðila sem hafa áhuga á að bæta færni sína í nýsköpun.

Markmið

Að námi loknu eiga nemendur að:

  • Hafa grunnþekkingu á nýsköpun og hagnýtingu nýsköpunar við þróun nýrra lausna
  • Hafa mikla nýsköpunarfærni
  • Þekkja vel nýsköpunarumhverfi og vita hvar hægt er að leita sér þekkingar, færni og finna samstarfsaðila
  • Hafa þekkingu og skilning á siðfræði, persónuvernd og lagaumhverfi nýsköpunar
  • Hafa þekkingu á styrkjaumhverfi og fjármögnun nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna
  • Gera sér grein fyrir mikilvægi góðrar skjölunar, hafa skilning á mikilvægi vel skrifaðra verkferla og geta teiknað upp ýmsar tegundir tölvukerfa
  • Þekkja stafræna þróunarferla og ferli umbóta og þróunar
  • Geta komið hugmynd til framkvæmda í verkefnavinnu undir handleiðslu

Samsetning náms og kennsluaðferðir

Kennsluaðferðir eru fjölbreyttar; hefðbundnir fyrirlestrar, vinnustofur og verklegir tímar auk fjölda masterclassa sérfróðra og leiðandi aðila í nýsköpunarumhverfi. Auk þess fá þátttakendur úthlutað handleiðara (mentor) og fá að þróa og koma hugmynd sinni til framkvæmda en handleiðarar verða valdir út frá efni hugmynda og er verkefnavinna og handleiðsla aðeins í boði fyrir þá sem eru skráðir á námsbraut.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?