Vísindi að hausti 2020
Vísindi á vordögum (2020 að hausti) er uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala sem hefur verið haldin árlega í 20 ár.
Árið 2020, á 20 ára afmæli hátíðarinnar, hefur COVID-19 sett nokkur strik í reikninginn. Samkomubann og sóttvarnir valda því að hátíðin heitir nú Vísindi að hausti, veggspjaldasýning er eingöngu rafræn, hátíðinni er streymt beint í stað þess að Hringsalur er fullur af vísindaáhugafólki og styrkveitingar úr vísindasjóði hafa þegar farið fram með rafrænum hætti. En breytingar eru líka til góðs, þetta ástand hefur gefið aukið rými til að kynna fleiri athyglisverða fyrirlestra vísindamanna á Landspítalanum um vísindi á tímum COVID og er það vel. Ástandið hefur líka sýnt okkur hversu frábært starfsfólk er að störfum við að standa vörð um veg og vanda vísinda á Landspítala.
Dagskrárliðir á Vísindum á vordögum eru jafnan í höndum Vísindaráðs Landspítala.
Vísindi að hausti 2020 - Hringsalur, miðvikudag 7. október
Vísindi á vordögum, nú undir heitinu Vísindi að hausti, er nú haldin í tuttugasta skipti og því á þessi uppskeruhátíð vísinda á Landspítala 20 ára afmæli. Margt hefur breyst á þessum 20 árum, sumt til góðs og annað til hins verra. Það er t.d. áhugavert að skoða dagskrá Vísindi á vordögum sem haldin var fyrir 20 árum síðan, sem er að finna á innra neti Landspítala. Dagskráin hófst með fyrirlestri Dr. Miles F. Shore prófessors við Harvard háskóla sem fjallaði um breytingar í umhverfi heilbrigðisfyrirtækja.
Í framhaldinu var veggspjaldakynning í K-byggingu, þar sem niðurstöður hátt í 40 vísindarannsókna voru kynntar. Í beinu framhaldi hófst svo ársfundur Landspítala og var hann einnig haldinn í K-byggingu, innan um öll veggspjöldin. Á ársfundinum héldu tölu m.a. Guðný Sverrisdóttir formaður stjórnarnefndar Landspítala og þáverandi heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson. Fléttaðist því saman á áhugaverðan hátt í einum viðburði uppskeruhátíð vísinda og klínískrar starfsemi á Landspítala. Í dag eru þetta tveir aðskildir viðburðir, í tíma og rúmi. Eflaust eru til góðar og gildar skýringar á því af hverju við höfum leyft þessum augljósa aðskilnaði á milli vísinda og klínískrar starfsemi að þróast í rekstrarumhverfi spítalans, en er ekki komin tími á endurskoðun?
Það er ýmislegt sem bendir til að þrengt hafi nokkuð að möguleikum starfsmanna Landspítalans á að stunda sínar eigin vísindarannsóknir við spítalann. Og voru þeir ekki nægir fyrir. Skýringarnar eru margþættar, þ.á.m. fyrri efnahagsþrengingar landsins. En kannski líka breytt viðhorf nýrra kynslóða. Unga kynslóðin telur ekki eðlilegt fyrirkomulag starfsemi háskólasjúkrahúss ef starfsmenn neyðast til að nota stóran hluta af frístundum sínum til vísindastarfa. Mörg þeirra vilja því ekki skuldbinda sig til þess að taka þátt í vísindum og vísindarannsóknum.
Unga kynslóðin hefur rétt fyrir sér. Á háskólasjúkrahúsi á að vera hægt að stunda vísindi og vísindarannsóknir innan venjulegs vinnutíma. Fyrir marga er það einfaldlega ekki hægt á Landspítala nútímans vegna þess að í allt of mörgum tilfellum er ekki gert ráð fyrir því að það þurfi bæði tíma og rúm til að stunda vísindi. Við þurfum að setja meiri kraft í baráttuna fyrir öflugra vísindastarfi á Landspítala. Við þurfum að gera það núna, við munum ekki sjá eftir því. Allir verða að taka höndum saman ef gagn skal verða af, stjórnmálafólk og stjórnendur spítalans ásamt öðru starfsfólki hans.
Við innan spítalans viljum flest trúa því að við höfum nú þegar hafið vegferð breytinga til hins betra. Vegvísir okkar er nýsamþykkt vísindastefna Landspítala og greinargerð Vísindaráðs Landspítala sem fylgir henni (linkur). Með nýrri vísindastefnu eru stjórnendur spítalans að setja fram mjög skýra sýn á hvert skal halda og hvaða markmiðum skal náð næstu fimm árin. Stefnan endurspeglar sterklega nauðsyn þess að nú er komið að því að leggja sérstaka áherslu á eflingu vísindastarfsins á spítalanum. Forsenda þess að það sé gerlegt er hækkun fjárframlaga til Landspítala. Ekki bara hækkun á fjárframlögum, heldur líka sérmerking ákveðins hluta fjármagns til Landspítala sem nýtast skal í uppbyggingu og reksturs vísindastarfs. Þannig verður betur hægt að koma í veg fyrir að efnahagssveiflur framtíðar komi harðar niður á vísindastarfseminni en annarri starfsemi spítalans.
Einn mikilvægasti þátturinn í nýrri vísindastefnu spítalans er viðurkenning á mikilvægi þess að „ástundun vísindarannsókna sé samofin daglegri starfsemi á spítalanum“. Bæði í orði og í verki. Það er ein af mikilvægum forsendum þess að við veitum sjúklingum þjónustu sem byggir á nýjustu þekkingu. Það er ein af forsendum þess að okkur gengur vel í baráttunni við þann óþekkta óvin sem SARS-CoV-2 veiran er. Að vísindin séu samofin daglegri starfsemi kallar á mikilvægi þess að sem flestum starfsmönnum sem hafa áhuga á og getu til að stunda vísindarannsóknir verði gert það kleift samhliða klínísku starfi. Bæði í tíma og rúmi.
Vísindastefnu spítalans þarf að hafa í huga við hönnun á nýjum spítala. Vísindastarfsemi má ekki vera aðskilin klínískri starfsemi. Þessir tveir þættir eru eins og aftur- og framhjól á sama mótorhjólinu. Það er mikilvægt að þau sem bera ábyrgð á hönnun framtíðarhúsnæðis Landspítala geri sér grein fyrir mikilvægi þessa og tryggi að umgjörð spítalans rúmi metnaðarfulla vísindastarfsemi samofinni klínískri þjónustu.
Eins og áður sagði að þá er þetta í tuttugasta skipti sem við höldum uppskeruhátíð vísinda hér á Landspítala. SARS-CoV-2 hafði þau áhrif að við gátum ekki haldið Vísindi á vordögum í vor þannig að ákveðið var að flytja viðburðinn til haustsins. En til þess að gefa starfsfólki spítalans færi á að nýta sumarið til vísindarannsókna ásamt nemum og öðru samstarfsfólki þá var vísindastyrkjum úthlutað strax í vor. Styrkjaúthlutun fór því fram í byrjun maí með hjálp tölvupósta. Það bárust 94 styrkumsóknir upp á samtals tæpar 167 milljónir, en að hámarki má sækja um til sjóðsins tvær milljónir fyrir hvert verkefni. Úthlutunar upphæðir voru veglegri en oft áður þar sem framkvæmdastjórn spítalans hafði árinu áður hækkað framlög í vísindasjóðinn um 15 milljónir. Þannig að í staðinn fyrir heildarúthlutun upp á tæplega 70 milljónir var úthlutað 85 milljónum til þeirra 80 vísindaverkefna sem hlutu brautargengi Vísindaráðs Landspítala.
Í stað þess að njóta gleðinnar af því að horfa á vísindamenn spítalans ganga upp á svið til að taka við styrkjum úr hendi forstjórans okkar, þá ætlar hann sjálfur að vera með ávarp. Einnig ætlar hópur sérfræðinga á Landspítala sem hefur komið að lækningu og umönnun þeirra sem hafa sýkst af SARS- CoV-2 að veita okkur innsýn í niðurstöður nýjustu rannsókna sinna við spítalann. Þá ætlar yfirlæknir á Vísindadeild að deila sýn sinni á gildi vísinda og vísindamenningar á Landspítala í baráttunni við veiruna.
SARS-CoV-2 hefur sannarlega dregið fram í sviðsljósið mikilvægi vísinda og vísindamenningar á háskólasjúkrahúsi eins og Landspítala. Til lengri tíma litið eigum við eflaust eftir að verða þakklát fyrir þann kafla í þessari annars sorglegu sögu.
Með von um að þið njótið þess sem Vísindi að hausti hefur upp á að bjóða!
Rósa Björk Barkardóttir, formaður Vísindaráðs Landspítala
Davíð O. Arnar er heiðursvísindamaður Landspítala 2020 og hlaut hann viðurkenninguna fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. Davíð er yfirlæknir hjartalækninga við Landspítala.
Heiðursvísindamaður Landspítala er útnefndur ár hvert og hefur vísindaráð Landspítala veg og vanda af útnefningunni. Eins og hefð er fyrir hélt heiðursvísindamaðurinn fyrirlestur um rannsóknir sínar að lokinni útnefningu, afhendingu heiðursskjals og heiðursverðlauna að upphæð 300 þúsund króna.
Sjá nánar frétt: Davíð Ó. Arnar er heiðursvísindamaður Landspítala 2020
Myndskeið: Heiðursvísindamaður Landspítala 2020
Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir er ungur vísindamaður Landspítala 2020 og hlaut hún viðurkenninguna fyrir góðan árangur á sviði vísindarannsókna. Hrafnhildur er sérnámslæknir.
Ungur vísindamaður Landspítala er útnefndur ár hvert og fer valið fram í kjölfar innsendingar ágripa veggspjalda og ferilskráa. Vísindaráð Landspítala hefur veg og vanda af vali og útnefningu. Eins og hefð er fyrir hélt Hrafnhildur fyrirlestur um helstu niðurstöður rannsókna sinna að lokinni útnefningu, afhendingu viðurkenningarskjals og verðlaunafés að upphæð 250 þúsund króna.
Sjá nánar frétt: Hrafnhildur er ungur vísindamaður Landspítala 2020
Myndskeið: Ungur vísindamaður Landspítala 2020
Viðar Örn Eðvarðsson, yfirlæknir barnalækninga, hlaut verðlaun Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands 2020 og nema verðlaunin 2 milljónum króna.
Minningar- og gjafasjóður Landspítala Íslands var stofnaður árið 1916 og er tilgangur sjóðsins að stuðla að bættri meðferð sjúklinga, m.a. með styrkveitingum til þeirra eða aðstandenda þeirra og til tækjakaupa fyrir sjúkrahús og/eða til valinna verkefna á vegum Landspítala.
Þorbjörg Guðnadóttir, gjaldkeri sjóðsins, afhenti Viðari viðurkenningarskjal og verðlaunafé og hélt hann fyrirlestur um verðlaunaverkefnið í kjölfarið
Sjá nánar frétt: Viðar Örn haut tveggja milljóna verðlaun minningargjafasjóðs Landspítala
Myndskeið: Verðlaunahafi Minningar- og gjafasjóðs Landspítala Íslands
Verðlaun voru veitt fyrir þrjú bestu ágrip veggspjalda á hátíðinni. Verðlaunahafar voru þau Bylgja Hilmarsdóttir, Aron Hjalti Björnsson og Íris Kristinsdóttir. Verðlaunin eru 100 þúsund krónur í formi kynningar/ferðastyrks á verkefnum sínum. Verðlaunahafar héldu örfyrirlestur um verkefnin sín.
Verðlaunaágrip voru valin úr 48 innsendum ágripum vísindarannsókna árið 2020. Vísindaráð hafði veg og vanda af mati ágripa sem bárust og valiu á verðlaunahöfum.
Veggspjöld verðlaunahafa
Skylt efni;
Vísindasjóður úthlutaði styrkjum til 83 rannsóknarverkefna vorið 2020, þar af voru 44 ný verkefni sem hlutu styrk. Heildarupphæð styrkja nam um 83 milljónum króna og nemur því meðalstyrkur um 1 milljón króna.
Úthlutun styrkja Vísindasjóðs Landspítala hefur fram til þessa farið fram á Vísindum á vordögum, en í ár var úthlutað með rafrænum hætti vegna COVID-19.
Vísindasjóður Landspítala er rannsóknarsjóður sem árlega veitir allt að 100 milljónir króna í rannsóknarstyrki til starfsmanna spítalans. Tilgangur Vísindasjóðs Landspítala samkvæmt skipulagskrá hans er að styrkja og efla vísindarannsóknir, athuganir og tilraunir í vísindalegum tilgangi á Landspítala eða í náinni samvinnu við hann. Vísindaráð Landspítala er til ráðgjafar um vísindastarf á Landspítala, hefur veg og vanda af úthlutun styrkja úr Vísindasjóði Landspítala og veitingu viðurkenninga fyrir vísindastörf á spítalanum.
COVID-19 hefur haft gríðarleg áhrif um heim allan og sér ekki fyrir endann á. Ein örsmá birtingarmynd ástandsins í heiminum er sú að fjöldi stórra og smárra vísindaráðstefna sem haldnar eru ár hvert eru nú haldnar á netinu. Skipuleggjendur ráðstefna hafa á örskömmum tíma nýtt sér þá tækni sem í boði hefur verið og þróun á lausnum í netheimum verið gífurlega hröð til að mæta þessari þörf í vísindasamfélaginu. Ársins 2020 verður eflaust minnst um heim allan sem ár tölvutækninnar og Teams. Margt er hægt að segja um þessa þróun, bæði jákvætt og neikvætt, en allir eru sammála um að landslagið hefur breyst. Hver áhrifin verða á vísindasamfélagið til lengri tíma veit enginn.
Árleg uppskeruhátíð vísinda á Landspítala fer ekki varhluta af þessum áhrifum. Vísindi á vordögum varð Vísindi að hausti, hátíðinni var streymt vegna samkomutakmarkana og hin árlega veggspjaldasýning vísindamanna sem hefur gefið starfsmönnum, gestum og gangandi færi á að sjá hvað er í gangi í rannsóknum innan Landspítala og spjalla við vísindafólk er nú eingöngu hér á þessari síðu. Hvort þessi lausn muni verða áfram hluti af uppskeruhátíðum vísindanna á Landspítala í framtíðinni kemur í ljós en það sem stendur upp úr er að nýta sér þau tól sem í boði eru á hverjum tíma til að gera vísindastarfsemi á spítalanum sýnilega og hátt undir höfði.
Heimsfaraldurinn og höfuðstóllinn
Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir, vísindadeild Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Ársins 2019 verður að öllum líkindum minnst sem góðs og gjöfuls árs, ekki síst í samanburði við ýmislegt það sem árið 2020 hefur haft í för með sér. Allt frá sameiningu hefur Landspítali haldið sérstakan ársfund fyrir vísindamenn spítalans, þar sem litið er um öxl og árangur nýliðins árs er gerður upp og styrkjum úthlutað úr vísindasjóði. Þessi ársfundur, oft nefndur „vísindi á vordögum“ hefur jafnan verið haldinn í apríl eða maíbyrjun, en vegna heimsfaraldurs COVID-19 reyndist óumflýjanlegt að fresta fundinum til hausts.
Ég tel að ég mæli fyrir munn margra þegar ég segi að árið 2019 virðist nú vera svo órafjarri, en engu að síður er ástæða til, þótt seint sé að líta stuttlega yfir farinn veg og spá í spilin fyrir framtíðina. Birtum vísindagreinum í erlendum fræðiritum fækkaði lítillega milli áranna 2018 og 2019, en fjöldinn hefur haldist mjög áþekkur undanfarin sex ár (mynd 1). Innlendar fræðigreinar hafa um árabil verið rétt um tíundi hluti af heildarfjölda vísindalegra birtinga, sem undirstrikar hið alþjóðlega eðli rannsókna á sviði heilbrigðisvísinda. Fjölda umsókna um leyfi til vísindarannsókna má líta á sem vísbendingu um áhuga og áform rannsakenda á spítalanum. Þar er staðan nokkuð stöðug; á árinu 2019 hélst fjöldi leyfa frá vísindasiðanefnd og siðanefnd LSH svipaður og undanfarin ár, en umsóknum til siðanefndar stjórnsýslurannsókna fækkaði nokkuð (mynd 2).
Mikilvægi spítalans sem vísinda- og kennslustofnunar fyrir nema í heilbrigðisvísindum sést ljóslega á mynd 3, en þar má sjá yfirlit um þróun á fjölda meistara- og doktorsnema sem stunda rannsóknir sínar að hluta eða öllu leyti hér. Má þar sjá ánægjulega aukningu á fjölda doktorsnema undanfarin ár. Rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda eru oft afar kostnaðarsamar, enda eru þær gjarnan mannaflafrekar og notast er við dýr efni og tækjabúnað. Því miður virðist ekki gert ráð fyrir þessari staðreynd þegar fjárframlög til rannsókna eru ákveðin eins og sjá má glögglega af afar lágu úthlutunarhlutfalli Rannsóknasjóðs á árinu 2019. Það er því ánægjulegt að sjá þá jákvæðu þróun í styrkjamálum við spítalann á síðasta ári sem sýnd er á mynd 4. Þar kemur fram aukning á innlendum og erlendum styrkjum sem vísindamenn á spítalanum öfluðu, auk þess sem bætt var í vísindasjóð Landspítala á árinu 2019. Nam heildarfjárhæð þessara styrkja alls um 433 milljónum króna.
Í árslok 2019 hófst staðbundinn faraldur í Kína með nýrri kórónuveiru sem síðan náði að breiðast út um allan heim og barst til Íslands í febrúarlok. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að fyrsti sjúklingurinn greindist með hinn nýja sjúkdóm COVID-19 hér á landi, höfum við fylgst með og tekið þátt í að bregðast við þeim síbreytilegum áskorunum sem heimsfaraldrinum fylgja. Þar hefur gildi vísindalegra vinnubragða sannað gildi sitt.
Margir af lykilstarfsmönnum spítalans í baráttunni við veiruna hafa hlotið vísindalega þjálfun hér á spítalanum sem hefur nýst í klínískri vinnu, jafnt sem við skipulag starfseminnar og til þekkingarsköpunar sem miðlað hefur verið til umheimsins. Þannig hefur heimsfaraldurinn COVID-19 fært okkur heim sanninn um gildi samvinnu þvert á landamæri, stofnanir, fyrirtæki, stétt og stöðu, en einnig um mikilvægi þess að rækt sé lögð við vísindastarf, enda á klínísk þjónusta og rannsóknir að fléttast saman á Landspítala.
Á hinn bóginn hefur faraldurinn einnig afhjúpað veikleika stofnana og þjóðfélaga um allan heim og þar erum við ekki undanskilin. Þegar faraldurinn skall á urðum við áþreifanlega vör við skort á mikilvægum tækjum, tækniþekkingu og starfsfólki á ákveðnum sviðum. Á þessa veikleika hefur ítrekað verið bent undanfarin ár en í kjölfar heimsfaraldursins hefur verið brugðist við. Vonandi veit það á gott fyrir framtíðina. Í glímunni við áskoranir framtíðar verður vísindaleg menntun og þekking, nýsköpun og sveigjanleiki okkar mikilvægasti höfuðstóll.
Út frá sjónarhóli vísinda og vísindamenningar á Landspítala var árið 2019 nokkuð merkilegra en mörg önnur ár. Það kemur aðallega til af tvennu. Annars vegar samþykkti framkvæmdastjórn spítalans nýja vísindastefnu til næstu fimm ára og hins vegar hækkun á framlagi í Vísindasjóð spítalans fyrir árið 2020. Framlagið fór úr 85 milljónum upp í 100 milljónir sem samsvarar 17% hækkun. Með þeirri hækkun hefur framlagið í sjóðinn hækkað um 25% síðustu tvö árin og það munar um þá upphæð fyrir vísindasamfélagið á spítalanum.
Með nýrri vísindastefnu eru stjórnendur spítalans að setja fram mjög skýra sýn á hvert skal halda og hvaða markmiðum skal náð næstu fimm árin. Stefnan endurspeglar sterklega nauðsyn þess að nú er komið að því að leggja sérstaka áherslu á eflingu vísindastarfsins á spítalanum. Forsenda þess að það sé gerlegt er hækkun fjárframlaga til Landspítala. Ekki bara hækkun á fjárframlögum, heldur líka sérmerking ákveðins hluta fjárframlaga til Landspítala sem nýtast skuli í uppbyggingu og reksturs vísindastarfs. Þannig verður betur hægt að koma í veg fyrir að efnahagssveiflur framtíðar komi harðar niður á vísindastarfseminni en annarri starfsemi spítalans.
Einn mikilvægasti þátturinn í nýrri vísindastefnu spítalans er viðurkenning á mikilvægi þess að „ástundun vísindarannsókna sé samofin daglegri starfsemi á spítalanum“. Það er ein af mikilvægum forsendum þess að við veitum sjúklingum þjónustu sem byggir á nýjustu þekkingu. Það er t.d. ein af forsendum þess að okkur gengur vel í baráttunni við þann óþekkta óvin sem SARS-CoV-2 er. Að vísindin séu samofin daglegri starfsemi kallar á mikilvægi þess að sem flestum starfsmönnum sem hafa áhuga á og getu til að stunda vísindarannsóknir verði gert það kleift samhliða klínísku starfi. Bæði í tíma og rúmi.
Við hönnun á nýjum spítala þarf að hafa vísindastefnu spítalans í huga. Vísindastarfsemin má ekki vera aðskilin klínískri starfsemi. Þessir tveir þættir eru eins og aftur- og framhjól á sama mótorhjólinu. Til þess að hámarka nýtingu og afrakstur háskólasjúkrahúss af fjármögnun vísindalegrar starfsemi þarf hún að vera samofin klínískri starfsemi. Þau sem bera ábyrgð á hönnun framtíðarhúsnæðis fyrir Landspítala bera ábyrgð á framtíð Landspítala sem háskólasjúkrahúss. Það er mikilvægt að þau sem bera ábyrgð á byggingu framtíðarhúsnæðis Landspítala geri sér grein fyrir mikilvægi þessa og tryggi að umgjörð sjúkrahússins rúmi metnaðarfulla vísindastarfsemi samofinni klínískri þjónustu.
Sjá einnig: Vísindaráð
Hlutverk Landspítali Íslands er þríþætt; Að veita heilbrigðisþjónustu, skapa nýja þekkingu með rannsóknum og mennta heilbrigðisstarfsfólk. Nauðsynlegt er að haldið sé vel utan um þá grunnstoð sem vísindastarfið er enda er það deginum ljósara að vísindi auka fagmennsku, gæði og öryggi og eru forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu og menntun starfstétta.
Starfsmenn Vísindadeildar hafa til margra ára tekið saman árlegt yfirlit um vísindastarf á Landspítala og birtir hina árlegu samantekt á Vísindum á vordögum ár hvert. Gagna sem eru lýsandi fyrir virkni í vísindum s.s. birtingar vísindagreina, styrkfjárhæðir til vísindarannsókna, fjöldi nýrra vísindarannsókna, fjöldi meistara- og doktorsnema er víða aflað og er yfirlitið unnið í samstarfi við forstöðumenn og forsvarsmenn fræðisviða og fræðigreina auk tengiliða. Regluleg úttekt á vísindastarfinu og niðurstöður hennar er mikilvægur þáttur í að meta árangur vísindastefnu Landspítala á hverjum tíma auk þess sem yfirgripsmikil þekking á áhrifum aðgerða í þágu vísindastarfs næst.
Yfirlit 2019:
- Vísindastarf á Landspítala 2019 (litla heftið)
- Vísindastarf á Landspítala 2019 (stóra hefið)
Sjá einnig yfirlit ársins 2018:
- Vísindastarf á Landspítala 2018 (lítið hefti)
- Vísindastarf á Landspítala 2018 (stóra heftið)
Safn yfirlita: Yfirlitsskýrslur
Á vefsíðu Landspítala er að finna ýmsar hagnýtar og fræðandi upplýsingar um vísindastarfsemina á spítalanum.