Starfsáætlun Landspítala
Starfsáætlun Landspítala fyrir árið 2024 er verkefnamiðuð og er unnin eftir stefnu Landspítala og áhersluatriðum hennar sem eru þjónusta, starfsfólk, þekking og umgjörð. Verkefnin eru tæplega 450 talsins og miða að ríflega fimmtíu markmiðum í starfsemi spítalans. Öll verkefnin eru þess eðlis að þeim eigi að vera hægt að ljúka á árinu 2024 en sum þeirra eru einnig liður í langtímaverkefnum sem eru til þess fallin að bæta þjónustu spítalans, auka skilvirkni og tryggja að sjúklingar fái bestu meðferð sem völ er á.
Starfsáætlun Landspítala miðar að því að Landspítali sinni sínu fjölþætta hlutverki sem þjóðarsjúkrahús, háskólasjúkrahús, stór vinnustaður og kjölfesta íslenska heilbrigðiskerfisins. Jafnframt miðar áætlunin að framtíðarsýn spítalans, sem er meðal annars að veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu í fjölbreyttu og sístækkandi samfélagi og vera miðstöð nýsköpunar, vísinda og menntunar á sviði heilbrigðisþjónustu.