Ný dagdeild skurðlækningasviðs á Landspítala Hringbraut verður opnuð á 13D miðvikudaginn 3. júní 2009. Það er liður í umfangsmiklum breytingum á skipulagi skurðlækningasviðsins sem hefur að megin tilgangi að efla dagdeildarstarfsemi og auka þannig skilvirkni í starfsemi sviðsins í heild og gera hana hagkvæmari. Það er stefna Landspítala að auka dag- og göngudeildarþjónustu og er þetta skref í átt að því markmiði sem er mjög í takt við þróun í starfsemi sjúkrahúsa erlendis.
Þvagfæraskurðdeild Landspítala hefur verið í marga áratugi á 13D en í núverandi mynd síðan árið 2001 þegar sambærileg deild á Landspítala Fossvogi sameinaðist henni. Núna verður starfsemi deildarinnar skipt þannig að legudeildarhlutinn sameinast almennri skurðdeild á 13G þar sem verða bæði almennar skurðlækningar og þvagfæraskurðlækningar. Legurýmum fækkar við þessa breytingu um 18 en því er mætt með nýju dagdeildinni á 13D sem er ætlað að þjóna fyrst og fremst sérgreinunum almennum skurðlækningum, augnlækningum og þvagfæraskurðlækningum.
Dagdeild skurðlækninga á 13D verður opin virka daga kl. 7:00 til 19:00.Þar eiga að fá þjónustu sjúklingar á skurðlækningasviði sem þurfa ekki að liggja á spítalanum yfir nótt Sú breyting verður líka að langflestir sjúklingar sem koma í aðgerð byrja á dagdeildinni að morgni en fara síðan á legudeild eftir aðgerð. Með þessu losna rými á legudeild sem hafa til þessa verið nýtt af skammlegusjúklingum og skilvirkni í starfseminni eykst og hagræðing næst. Auk þess er gert ráð fyrir því að nota sjúkrahótel í auknum mæli þar sem það á við.
Víðast erlendis er þetta dagdeildarfyrirkomulag alþekkt og þannig hefur verið hægt að draga úr starfsemi legudeilda og stytta legutíma umtalsvert.Hrafnhildur Baldursdóttir verður hjúkrunardeildarstjóri á dagdeild skurðlækninga en hún hefur verið hjúkrunardeildarstjóri á þvagfæraskurðdeildinni í 20 ár. Starfsaldur hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á þvagfæraskurðdeild er að meðaltali 18 ár. Starfshópurinn skiptist í þrennt, af 13,9 stöðugildum hjúkrunarfræðinga verða 4,90 á dagdeildinni, 4,10 fara á 13G og 4,90 fara á aðrar deildir og af 9,2 stöðugildum sjúkraliðA verða 3,20 á dagdeildinni, 3,60 fara á 13G og 2,40 á aðrar deildir.
Engin breyting verður á heildarfjölda starfsmanna vegna þessara skipulagsbreytinga á skurðlækningasviðinu. Eiríkur Jónsson verður áfram yfirlæknir þvagfæraskurðlækninga á Landspítala.