Tæplega 60 rannsóknir hafa nú verið gerðar með holsjárómskoðunartæki (endoscopic ultrasound), sem afhent var Landspítala Fossvogi 15. júní síðastliðnum. Búnaðurinn hefur reynst mjög vel við greiningu illkynja sjúkdóma í vélinda, maga, briskirtli og gallvegum. Rúmlega helmingur þessara rannsókna hefur verið gerður á sjúklingum fyrir skurðaðgerð, til frekari stigunar á staðbundinni útbreiðslu æxla. Ljóst þykir að tekist hafi jafnframt að greina fyrr og með meiri nákvæmni ýmis vandamál sem ekki hefur verið hægt að leysa með hefðbundinni holsjárskoðun af efri meltingarvegi og/eða annarri myndgreiningaraðferð, s.s. ómskoðun eða tölvusneiðmynd.
Hjúkrunarfræðingar á speglunareiningu A-3, Landspítala Fossvogi, hafa fengið góða þjálfun í meðferð tækjabúnaðarins. Þegar ofangreind rannsókn er framkvæmd er venjulega gerð gróf holsjárskoðun af efri meltingarvegi, þ.e. vélinda, maga og skeifugörn en síðan er gerð holsjárómskoðun í vélinda, maga eða skeifugörn, eftir því hvað verið er að athuga hverju sinni. Jafnframt er hægt að gera slíka skoðun til að meta útbreiðslu æxla í endaþarmi. Þá er einnig mögulegt að þræða sérstaka holsjárkanna (endoprobe) gegnum vinnugöng á venjulegu maga- eða ristilspeglunartæki og gera þannig ómskoðun á mjög þröngum svæðum í meltingarvegi, jafnvel þræða ómkannann inn í gallgöng eða brisgang.
Gera má ráð fyrir að fullkomin holsjárómskoðun taki um það bil 1,5 til 2 klst. Ítarleg kynning hefur farið fram á tækjabúnaði þessum og fyrirlestrar haldnir, bæði á Landspítala Hringbraut og Landspítala Fossvogi. Þá hefur öllum læknum sem hugsanlega gætu nýtt sér kosti þessarar rannsóknar fyrir sjúklinga sína verið sendar ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar um hvar hægt er að taka frá tíma í þessa rannsókn. Holsjárómskoðunartækið er á speglunareiningu A-3 Landspítala Fossvogi, sími 525 1645 eða í samráði við Ásgeir Theodórs lækni, píp 1609, símar 525 1609/525 1645.