Á Landspítala hefur verið opnuð þverfagleg sáramiðstöð til greiningar og ráðgjafar við meðferð langvinnra sára. Sáramiðstöðin er á göngudeild G3 í Fossvogi.
Sáramiðstöð Landspítala er þverfagleg miðstöð með aðkomu margra sérgreina, þar á meðal æðaskurðlækninga, húðlækninga, lýtalækninga, innkirtlalækninga, smitsjúkdómalækninga, bæklunarlækninga og hjúkrunarfræðings með sárameðferð sem sérgrein. Grundvallaratriði sárameðferðar er að greina og meðhöndla undirliggjandi orsök sáranna og þá þætti sem tafið geta sárgræðslu.
Á sáramiðstöð LSH vinna hjúkrunarfræðingar, læknar og fótaaðgerðafræðingur. Þar fer fram greining á sárum og ráðgjöf um meðferð. Einnig er gert ráð fyrir eftirfylgni eða meðferð af hálfu sérfræðings ef talin er þörf á en að sárameðferðin sé síðan í höndum þeirra sem annast hafa sjúklinginn fyrir.
Starfsemi sárahjúkrunarfræðings er þríþætt; göngudeildarþjónusta á göngudeild G3 í Fossvogi, ráðgjöf á deildum spítalans og kennsla og fræðsla.
Umsjón með sáramiðstöðinni hefur Guðbjörg Pálsdóttir sárahjúkrunarfræðingur. Netfangið er saramidstod@landspitali.is.
Tilvísun frá heilbrigðisstarfsmanni þarf til að bóka tíma á sáramiðstöðinni.