Sjö manna hópur lagði 16. júní 2012 af stað í hjólaferð kringum landið og minnir með ferðinni reiðhjólafólk á mikilvægi þess að nota hjálma. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS), Landspítali og Rauði Kross Íslands standa fyrir átakinu. Hópurinn stefnir að því að ljúka hringferðinni 23. júní.
Kynning hópsins á ferðinni:
"Hjólreiðar eru frábær ferðamáti. Þær njóta vaxandi vinsælda, enda holl og skemmtileg hreyfing sem sparar að auki eldsneyti. Hjólreiðafólk á öllum aldri getur náð talsverðum hraða og því brýnt að gæta fyllsta öryggis, bæði hvað varðar hjólið sjálft, fatnað og hlífðarbúnað. Rannsóknir og reynsla sýna að áverkar á höfði og hálsi eru að jafnaði alvarlegustu afleiðingar reiðhjólaslysa og að notkun hjálma getur komið í veg fyrir alvarleg meiðsl af þessu tagi. Þannig getur hjólahjálmur komið í veg fyrir örkuml og fötlun og er langmikilvægastur af öllum öryggistækjum í hjólreiðum. Hjólum því aldrei án hjálms og gætum þess sem foreldrar að börnin okkar hjóli alltaf með hjálm á kolli.
Það er ekki tilviljun að í þeim hópi sem nú hjólar í kringum landið til þess að vekja athygli á málinu eru m.a. sjúkraflutningamenn frá SHS og læknir frá Landspítala. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og starfsfólk heilbrigðiskerfisins verða vitni að slysum í sínum daglegu störfum. Það er áberandi hversu oft hjálmur á höfði hefur bjargað mannslífum og sorglegt hve oft hjálmur hefði getað gert gæfumuninn. Það er einnig áhyggjuefni hve margir virðast hunsa þetta atriði og taka óþarfa áhættu með því að hjóla hjálmlausir, ekki síst fullorðna fólkið. Það er mun meiri áhætta en fólk gerir sér grein fyrir að vera óvarinn til höfuðsins á hjóli og að auki er það slæm fyrirmynd fyrir þá sem yngri eru.
Hjólahópurinn og einstakir meðlimir hans hafa stundað íþróttina í mörg ár og tekið þátt í ýmsum ferðum og keppnum innanlands og erlendis. Nefna má ferð í kringum Ísland 1998, ferð yfir Sprengisand frá Reykjavík til Akureyrar (400 km) á 27 klst, frá Fonti á Langanesi til Reykjanesstáar ásamt hópi frá SHS, Reykjavík-Skaftafell (300 km ) á 16 klst., Vattern Rundan (300 km keppni í Svíþjóð) á 8 klst. og 28 mín.
Núna er ætlunin að hjóla í kringum landið frá Reykjavík, samtals um 1.400 km leið. Hjólaðir verða 180-300 km á dag, eftir aðstæðum, fyrst norður í land og ferðinni lokið á 5-7 dögum. Stefnt er að því að ekki verði skipst á, þannig að hver og einn meðlimur hópsins hjóli alla leiðina."