Ályktun stjórnar Starfsmannafélags Landspítala 12. september 2012:
Stjórn Starfsmannafélags Landspítala lýsir áhyggjum sínum af líðan starfsmanna spítalans. Landspítali er stærsti vinnustaður landsins og þar vinnur vel menntað fólk á lægri launum en á almennum vinnumarkaði. Frá árinu 2008 hafa starfsmenn spítalans tekið á sig miklar kjaraskerðingar og vinnuálag hefur verið mikið. Starfsmenn hafa þannig stuðlað að hallalausum rekstri Landspítala. Þeir eru orðnir langþreyttir og finnst nú nóg komið, vinnuframlag þeirra lítið metið og alls ekki til launa. Nýlegar launakannanir sýna að starfsmenn ríkisins eru að meðaltali með 20% lægri laun en starfmenn á almennum vinnumarkaði. Mörg fyrirtæki lækkuðu laun starfsmanna sinna tímabundið fyrst eftir hrun en hafa nú hækkað þau aftur. Heilbrigðisstarfsmenn hafa farið til starfa erlendis og einnig fara margir tímabundið til að ná sér í aukapening og vinna þá í skorpum til að láta enda ná saman. Stjórn Starfsmannafélagsins hefur áhyggjur af fólksflótta hinna ýmsu stétta frá stofnuninni og telur að hækkun launa geti dregið úr honum.