Verkfall hjúkrunarfræðinga hefur mikil áhrif
Tveggja daga verkfalli hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu lýkur á miðnætti aðfaranótt 1. júní. Verkfallið nær til um það bil 350 hjúkrunarfræðinga af þeim 1169 sem fengu greidd laun um síðustu mánaðamót á LSH. Aðrir hjúkrunarfræðingar starfa samkvæmt undanþágulistum.
Í verkfalli ber að veita alla bráðaþjónustu, svo og meðferð krabbameina, hjúkrun aldraðra og langveikra. Þrátt fyrir þetta hefur verkfallið umtalsverð áhrif á starfsemi LSH. Helstu áhrifin eru eftirfarandi:
- 254 sjúkrarúmum hefur verið lokað og kemur það við öll svið en þó mest á skurðlækningasviði.
- Dag- og göngudeildarstarfsemi liggur að mestu leyti niðri en u.þ.b eitt þúsund einstaklingar koma daglega á þessar deildir.
- Valaðgerðir liggja niðri þessa tvo daga. Einnig hefur mikið verið um frestun aðgerða s.l. viku til að undirbúa lokun deilda á skurðlækningasviði, en u.þ.b. 50% af legurými þess sviðs er lokað. Lauslega áætlað er hér um 400 aðgerðir að ræða.
- Öllum meðferðum og mörgum rannsóknum sem ekki þarf að veita brátt er frestað, t.d. hjartaþræðingum.
Að mati Önnu Stefánsdóttur hjúkrunarforstjóra hefur framkvæmd verkfalls gengið áfallalítið. Tekist hefur að leysa þau vandamál sem upp hafa komið. Samstarf við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga varðandi undanþágur hefur gengið vel, sótt hefur verið um undanþágur þar sem nauðsynlega hefur þurft til að halda uppi bráðaþjónustu. Alls hafa verið afgreiddar u.þ.b 100 undanþágubeiðnir.