"Fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga fordæmir fyrirhugaðar breytingar á starfssemi Landspítala - háskólasjúkrahúss, LSH.
Uppsagnir starfsfólks, fækkun sjúkrarúma og breytingar á starfssemi hefur gríðarleg áhrif á alla þjónustu við sjúklinga og teflir öryggi þeirra í tvísýnu.
Fyrirhuguð helgarlokun á bráðamóttöku við Hringbraut hefur í för með sér aukið álag á starfssemi slysa- og bráðadeildar í Fossvogi, sem er þó nóg fyrir um helgar. Þetta eykur bið eftir þjónustu og hætta á mistökum eykst auk þess sem aðgengi sjúklinga að sérhæfðri hjúkrunarþjónustu mun minnka.
Nú þegar annar LSH varla þeim verkefnum sem samfélagið gerir kröfur til. Ef skerða á þjónustu enn frekar munu sjúklingar útskrifast enn veikari heim en nú
er raunin og gera aukna kröfu um aðhlynningu í heimahúsi. Heimahjúkrunin er ekki í stakk búin til að mæta þeim kröfum þannig að áhrifin á heimili landsins verða mikil. Afleiðingar þessa er óhjákvæmileg fjölgun endurinnlagna sem leiðir til aukins álags og kostnaðar á bráðaþjónustuna.
Fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga hvetur stjórnvöld til að endurmeta fjárveitingar til LSH auk þess sem óskað er eftir stefnumótun stjórnvalda hvað varðar starfssemi og þjónustustig LSH."