Aðalfundur hjúkrunarráðs Landspítala samþykkti meðfylgjandi ályktanir á fundi sínum 17. október 2007. Í annarri þeirra er áskorun um að brugðist verði hið fyrsta við manneklu í hjúkrun. Í hinni er lýst áhyggjum vegna þess stóra hóps sjúklinga sem bíður á sjúkrahúsinu eftir langtímavistum á sambýlum og hjúkrunarheimilum.
Ályktun 1
Aðalfundur hjúkrunarráðs Landspítala, haldinn þann 17. október 2007 skorar á heilbrigðisyfirvöld, yfirstjórn spítalans svo og Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri að sameinast í átaki til að vinna bug á manneklu í hjúkrun hið fyrsta.
Mikil vinna hefur verið lögð að undanförnu í að greina orsakir vandans og koma með tillögur til úrbóta. Nú er komið að framkvæmdum, þær munu kosta fjármagn og mannafla en eftir engu er að bíða.
Almenningur á Íslandi vill góða heilbrigðisþjónustu og hún verður ekki veitt án fullnægjandi mannafla í hjúkrun.
Ályktun 2
Aðalfundur hjúkrunarráðs Landspítala, haldinn þann 17. október 2007, lýsir yfir áhyggjum sínum yfir þeim stóra hópi sjúklinga sem nú bíður inni á sjúkrahúsinu eftir langtímavistun á sambýlum og hjúkrunarheimilum og ítrekar mikilvægi þess að úr þeirra vistunarmálum verði greitt sem fyrst.
Það er óásættanlegt fyrir þessa einstaklinga að dvelja langdvölum á bráðasjúkrahúsi þar sem erfitt er að mæta þörfum þeirra. Á sama tíma getur spítalinn vart sinnt sínum brýnustu skyldum gagnvart þeim sem nauðsynlega þurfa á bráðaþjónustu hans að halda.