Ályktun stjórnar Starfsmannafélags Landspítala 24. október 2011:
"Stjórn Starfsmannafélags Landspítala mótmælir þeim niðurskurði í fjárveitingum til spítalans sem enn er boðaður. Stjórnin telur að lengra verði ekki gengið án þess að það komi niður á þeirri margvíslegu þjónustu sem starfsmenn spítalans veita. Ekki má gleymast að Landspítali er í senn aðalsjúkrahús höfuðborgarsvæðisins og þjóðarsjúkrahús allra landsmanna, sem ekki getur hafnað að veita aðstoð sína þegar um flóknustu og erfiðustu sjúkdómstilfellin er að ræða.
Starfsmenn Landspítalans hafa á liðnum árum, í samstarfi við stjórn spítalans, lagt sig alla fram um að mæta þeim niðurskurðarkröfum sem gerðar hafa verið til spítalans og sjálfir hafa þeir komið fram með fjölda sparnaðartillagna sem flestum hefur þegar verið komið í framkvæmd. Þrátt fyrir niðurskurð í fjárveitingum og tilsvarandi fækkun starfa hefur að mestu verið haldið uppi þeirri þjónustu sem spítalinn vill geta veitt sem þjóðarsjúkrahús. Á þessum tíma hafa starfsmennirnir tekið á sig tekjuskerðingu, samfara auknu vinnuálagi og margvíslegum skipulagsbreytingum, sem eiga að verða til hagræðingar. Frekari niðurskurður vegur að velferð starfsmanna og getur ekki orðið til annars en að skerða verði þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra, hætta við vel uppbyggða starfsemi og loka mikilvægum deildum.
Stjórn Starfsmannafélagsins hefur verulegar áhyggjur af starfsmönnum spítalans við þessar erfiðu kringumstæður. Vaxandi áhyggjur um framtíðina hafa þegar leitt til þess að starfsmenn leita í auknum mæli eftir atvinnumöguleikum í nálægum löndum. Á því eiga þó ekki allir kost og stöðugar áhyggjur af persónulegri velferð hafa áhrif á getu starfsmanna til að sinna erfiðum störfum sínum af þeirri alúð sem nauðsynleg er.
Stjórnin vill því hvetja heilbrigðisyfirvöld til að hætta við boðaðar niðurskurðartillögur og leggja í staðinn áherslu á að styðja af fullum krafti við starfsmenn Landspítalans til að þeir geti sinnt sínum viðkvæmu og vandasömu störfum án utanaðkomandi ógnar og geti - hér eftir sem hingað til - lagt sig fram við að veita góða og metnaðarfulla þjónustu öllum sem þangað leita."