Endurhæfing 1, tíu manna lið B1 í Fossvogi, hreyfði sig mest í Lífshlaupinu 2011 eða 19.255 mínútur samtals, 1.925 mínútur hver þátttakandi. Það lið var einnig með flesta daga eða 200 samtals en fjögurra manna lið fjármálasviðs, HANNEZ, hreyfði sig hlutfallslega flesta daga eða 21 dag hver þátttakandi. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) stóð fyrir Lífshlaupinu dagana 2.-22. febrúar. Átakinu er ætlað að ná til allra landsmanna og gátu starfsmenn spítalans ýmist skráð sig í einstaklings- eða vinnustaðakeppni. Keppt var bæði um fjölda daga og mínútna. Þátttakendum Landspítala fer fjölgandi. Í ár tóku 398 starfsmenn þátt en 304 í fyrra. Liðin voru 49 en 42 árið 2010. Landspítali varð í þriðja sæti í vinnustaðakeppni í flokki fyrirtækja með 800 starfsmenn eða fleiri. Efstu lið spítalans, Endurhæfing 1 og HANNEZ, hlutu því bronsverðlaun Lífshlaups ÍSÍ þar sem hlutfallslega flestir tóku þátt, bæði mælt í dögum og fjölda mínútna. |
|
Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs og Hólmfríður Erlingsdóttir, sjúkraþjálfari á starfsumhverfisdeild sviðsins, færðu liðunum sem sköruðu framúr viðurkenningu fyrir frammistöðuna. Alls voru 5.454 dagar skráðir á liðsmenn Landspítala í ár (3.952 árið 2010), að meðaltali 14 dagar á hvern einstakling (13 árið 2010) og 379.986 mínútur (269.810 árið 2010) eða að meðaltali 955 mínútur á hvern einstakling (887 árið 2010) . Mest mátti skrá 10 þátttakendur í lið og var 21 lið Landspítala með þann fjölda og 9 lið með 9 þátttakendur. |
Hreyfing meðal liðsmanna frá Landspítala var fjölbreytt eins og myndin sýnir