Frá Rannsóknastofu í næringarfræði við HÍ og LSH:
Mjög mikilvægt er að drekka vel þegar fólk hefur veikst af inflúensu og líkamshiti hækkar. Oft minnkar matarlyst, en gott er að neyta þess matar og drekka það sem fólk hefur lyst á.
Hversu mikið?
Ágætis viðmið er að drekka að minnsta kosti 2 lítra á dag. Stærra fólk þarf meira af vökva, eins og t.d. fullorðnir hávaxnir karlar sem gætu þá þurft að drekka 3 lítra, en smávaxnir eitthvað minna. Lítil börn með hita þurfa þó rúmlega lítra af vökva daglega.
Hvað er gott að drekka?
Eitthvað af drykkjunum sem neytt er þurfa að innihalda sölt og sykrur. Þess vegna er gott að drekka soð, súpur og grænmetissafa sem innihalda oftast bæði sölt og sykrur, sömuleiðis ávaxtasafa og íþróttadrykki sem innihalda meira af sykrum en einnig sölt. Íste getur einnig verið hressandi, eða gosdrykkir. Þegar fólk er veikt finnst því oft lystugra að þynna drykkina, þ.e. að blanda út í þá meira af vatni en áætlað er. Dæmi um heimatilbúna blöndu er sódavatn og eplasafi, blandað til helminga. Fyrir börn sem eru á brjósti og mæður þeirra er gott að brjóstagjöfinni sé haldið áfram og hún jafnvel aukin ef hægt er – hugsanlegt er að mamman hafi andlitsgrímu ef hún er veik og barnið ekki.
Hvenær?
Mikilvægt er að sjúklingurinn haldi áfram að borða og að hann afli sér eða honum sé boðinn vökvi aukalega. Það getur verið gott að spyrja fólk á matartímum hvort það geti eða hafi lyst á mat, án þess að ætla því endilega að borða. Mikilvægt er að kappkosta að koma í veg fyrir vökvaskort og drekka reglulega yfir daginn. Einkenni ofþornunar eru slappleiki, munnþurrkur og lítil þvagframleiðsla en hætta á ofþornun er meiri þegar um uppköst og niðurgang er að ræða í veikindunum auk hækkaðs líkamshita. Veikt fólk á ekki að laga mat á heimilum.
Meðal heimilda:
Centers for Disease Control and Prevention. (2009, júlí). Interim Guidance for Novel H1N1 Flu (Swine Flu): Taking Care of a Sick Person in Your Home. Sótt 29. júlí 2009 af http://www.cdc.gov/h1n1flu/guidance_homecare.htm
World Health Organization. (2008) Reducing excess mortality from common illnesses during an influenza pandemic:WHO guidelines for emergency health interventions in community settings. Geneva. Sótt 29. júlí 2009 af http://www.who.int/csr/resources/publications/swineflu/commonillnesses_pandemic/en/index.html