Sjúkrahótel Landspítala flyst þriðjudaginn 1. mars 2011 í Ármúla 9 (Park Inn Hótel) en það var áður að Rauðarárstíg 18 (Fosshótel).
Sjúkrahótel LSH í Ármúla 9 í Reykjavík er rekið í samræmi við samkomulag Landspítala og Sjúkratrygginga Íslands í samstarfi við Sinnum ehf sem leigir Landspítala húsnæði og rekur hótelþjónustuna. Landspítali sér áfram um rekstur hjúkrunarþjónustu sjúkrahótels LSH. Á sjúkrahótelinu verður bætt aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur á 65 vel búnum og rúmgóðum einbýlum með öryggishnapp. Aðstandendur og fylgdarmenn geta einnig gist á sjúkrahótelinu. Öll herbergin eru reyklaus, með sér baði, síma, ísskáp, sjónvarpi og útvarpi. Möguleiki er á nettenginu í herbergjum. Nokkur herbergi eru með aðgengi fyrir hjólastóla og öryggiskerfi er til staðar á herbergjum. Gistingu fylgir fullt fæði sem eldað er á staðnum.
Gestir hótelsins þurfa að vera sjálfbjarga með að komast fram úr rúmi og að sinna daglegum athöfnum. Sjúklingar/gestir þurfa að hafa með sér öll hjálpartæki sem þeir þurfa að nota svo sem hjólastóla, göngugrindur og hækjur. Sama gildir um öll lyf. Hjúkrunarfræðingar starfa við hótelið og veita hjúkrunarráðgjöf, sinna ýmsum hjúkrunarstörfum eins og að gefa lyf, taka sauma, skipta á sárum og aðstoða fólk við að fara í bað. Enginn starfsmaður er á vakt á sjúkrahótelinu frá kl. 23:00 til 8:00 en hjúkrunarfræðingur er á bakvakt og á hótelinu er næturvörður. Stefnt er að næturvakt hjúkrunarfræðings á sjúkrahótelinu frá 1. apríl 2011.