Kvenfélagið Hringurinn styrkti deildina til kaupa á vöktunartækjum á barnavöknun ásamt færanlegum súrefnismettunarmælum sem einnig gefa kost á að fylgja eftir breytingum á blóðrauða við blæðingu og kolmónoxíði við reykeitrun. Allt eru þetta mikilvægir þættir til að auka öryggi barna sem deildin hefur til meðferðar.
Actavis styrkti kaup á blöðruómtæki sem nýtist fyrst og fremst á vöknun en einnig á svæfingu og gjörgæslu þegar við á. Hefur tækið meðal annars verið notað til að fylgjast með þvagmagni í blöðru til að komast hjá uppsetningu þvagleggs eftir lágskammtamænudeyfingar með góðum árangri.
Hringurinn og Actavis sameinuðust svo í kaupum á barkaþræðingartæki sem auðveldar erfiðar barkaþræðingar fyrir bæði börn og fullorðna. Tækið varpar mynd af barkaþræðingunni á skjá sem jafnframt gerir kennslu þeirra sem eru að læra barkaþræðingu mun auðveldari. Þetta er í fyrsta sinn sem Hringurinn tekur þátt í tækjakaupum með öðrum styrkjanda.