Stjórn læknaráðs LSH hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun um framlög til tækjakaupa á LSH:
Læknaráð Landspítala - háskólasjúkrahúss þykir rétt að vekja sérstaka athygli á lágum fjárframlögum til tækjakaupa á LSH. Síðustu þrjú ár hafa árleg framlög staðið í stað, þ.e. verið 218 milljónir króna, en sú upphæð nemur aðeins u.þ.b. 1% af heilarrekstrargjöldum spítalans. Hafa skal í huga að við sambærilegar heilbrigðis- og menntastofnanir á Vesturlöndum er tækjakaupafé yfirleitt á bilinu 3-5% af heildarrekstrarkostnaði eða 3-5 sinnum hærri en við LSH. Miðað við þær forsendur vantar samanlagt 1300 - 2600 milljónir króna til tækjakaupa á LSH síðustu þrjú árin. Með þessar tölur í huga og hraða úreldingu á tækjabúnaði spítalans getur læknaráð LSH ekki annað en lýst þungum áhyggjum sínum um framtíð LSH sem helsta þjónustu - vísinda - og kennslustofnun Íslands á sviði heilbrigðismála.
Nú þegar eru mörg mikilvæg rannsóknar- og greiningartæki komin að niðurlotum vegna elli og nær úrelt orðin. Jafnframt hefur LSH ekki getað fylgt framvindu í rannsóknartækni með búnaði sem gera verður kröfu um að sé til staðar á háskólasjúkrahúsi og þá ekki síður þegar það er hið einasta meðal viðkomandi þjóðar.