Greinargerð Vilhelmínu Haraldsdóttir
sviðsstjóra lækninga, lyflækningasviði II
4. maí 2003
Háskammta krabbameinslyfjameðferð með eigin stofnfrumuígræðslu á sér fastan sess í meðferð sjúklinga með ýmsa illkynja blóðsjúkdóma. Á Landspítala - háskólasjúkrahúsi hefur lengi ríkt áhugi meðal lækna og hjúkrunarfræðinga á viðkomandi deildum að taka upp slíka meðferð hér á landi. Hingað til höfum við þurft að senda íslenska sjúklinga til annarra landa til að gera þeim kleyft að fá þessa meðferð. Flestir hafa farið til Stokkhólms. Það skal þó tekið fram að ekki er fyrirhugað að sinni að hefja hér á landi þá tegund stofnfrumuígræðslu þegar stofnfrumur eru græddar í sjúkling úr öðrum einstaklingi.
Eigin stofnfrumuígræðsla er meðferð sem beitt er gegn ýmsum illkynja sjúkdómum, svo sem mergfrumuæxli, bráðu hvítblæði, eitilfrumukrabbameini og ýmsum föstum æxlum. Blóðmyndandi stofnfrumum er þá safnað úr blóði viðkomandi sjúklings en þessar stofnfrumur eru móðurfrumur allra þroskaðra blóðfrumna. Þegar þessum stofnfrumum hefur verið safnað eru þær varðveittar þannig að þær halda þessum sérstaka hæfileika sínum. Nokkru síðar fær sjúklingurinn krabbameinslyfjameðferð og í lok þeirrar meðferðar fær hann sínar eigin stofnfrumur til baka. Stofnfrumurnar sjá þá um að koma blóðmyndun í gang hjá sjúklingnum en meðferðin sem hann hefur fengið er oft það kröftug að blóðmyndunin myndi annars skerðast varanlega.
Á undanförnum árum hafa að meðaltali 4 fullorðnir einstaklingar þegið þessa meðferð erlendis. Ef við berum okkur saman við nágrannaþjóðir okkar ættum við samkvæmt tölum úr gagnagrunni EBMT (The European Group for Blood and Marrow Transplantation) og þær ábendingar sem viðurkenndar eru í dag fyrir slíkri meðferð að meðhöndla árlega 7 fullorðna einstaklinga með háskammta krabbameinslyfjameðferð og eigin stofnfrumuígræðslu. Ástæðan fyrir þessum mun á raunverulegum og áætluðum fjölda sjúklinga geta verið margvíslegar en ein af þeim er vissulega sú að meðferðin hefur ekki verið framkvæmd hér á landi.
Reyndin hefur verið sú að sífellt stærri hluti undirbúningsins og eftirmeðferðarinnar fer fram hér á landi og er í höndum íslenskra lækna og hjúkrunarfræðinga. Sjúklingar hafa þó þurft að fara tvær ferðir út, það er til að safna stofnfrumunum og svo til að fá þær aftur. Blóðbankinn mun sjá um vinnslu stofnfrumnanna úr blóði sjúklinga svo og gæðaeftirlit, frystingu, geymslu og þíðingu stofnfrumnanna. Starfsfólk blóðlækningadeildar LSH mun sjá um allan undirbúning sjúklinganna, lyfjameðferð þeirra, eftirmeðferð eftir stofnfrumugjöf og eftirlit að meðferð lokinni. Hér er því um að ræða samstarfsverkefni þessara tveggja deilda.
Undirbúningsvinna hefur leitt í ljós að bæði eru fagleg og fjárhagsleg rök fyrir því að gefa þessa meðferð alfarið hér á landi svo ekki sé minnst á hve sú breyting mun létta sjúklingum og aðstandendum þeirra baráttuna gegn þessum erfiðu sjúkdómum. Það er þó nauðsynlegt að vanda vel til verksins og að árangur okkar verði ekki síðri en nágrannaþjóðanna.