|
Úttekt á mönnun hjúkrunar á Landspítala |
|
|
|
| Niðurstöður nýrrar úttektar um mönnun hjúkrunar á Landspítala hafa verið birtar á upplýsingavef LSH. Höfundar hennar eru Elísabet Guömundsdóttir, Kristlaug H. Jónasdóttir og Helga H. Bjarnadóttir verkefnisstjórar á hag- og upplýsingasviði. Vorið 2006 gerði hag- og upplýsingasvið úttekt á mönnun í hjúkrun á LSH í þeim tilgangi að greina stöðu og leggja grunn að úrbótum varðandi manneklu og vinnuálag á legudeildum spítalans. Stjórnendur LSH brugðust þá við með ýmsum aðgerðum og er úttektin núna sú fyrsta eftir að þessar aðgerðir hófust. Hún hefur verið kynnt framkvæmdastjórn Landspítala.
Mönnun hjúkrunar - niðurstaða úttektar 2007
HELSTU NIÐURSTÖÐUR
Mönnun og mönnunarþörf hjúkrunar á LSH
Aukin þörf fyrir hjúkrun á LSH; Starfsemi klínískra sviða hefur aukist á undanförnum árum, nýjar meðferðir verið teknar upp, nýjar dag- og göngudeildir tekið til starfa og sjúkrahústengdum heimavitjunum fjölgað. Aðsókn að spítalanum eykst jafnt og þétt, m.a. vegna fjölgunar íbúa hérlendis, vaxandi fjölda aldraðra svo og fjölgunar ferðamanna.
• Hjúkrunarþörf sjúklinga á legudeildum hefur aukist og legutími styst, sem þýðir hraðari umsetningu og aukið vinnuálag á legudeildum. Á LSH liggja allmargir hjúkrunarsjúklingar, sem lokið hafa bráðameðferð, en ekki er hægt að útskrifa vegna skorts á hjúkrunarýmum utan spítalans.
• Ný og aukin starfsemi hefur tekið til sín mannafla, að einhverju leyti frá legudeildum. Viðvarandi álag á legudeildum LSH hefur sett mark sitt á starfsemina undanfarin ár.
Plássleysi og flæðisvandi; Á nokkrum bráðadeildum hefur fjöldi sjúklinga umfram það sem deildin annar leitt til aukins álags og yfirvinnu.
• Á lyflækningasviði I voru legudagar utan sjúkrastofu skráðir sérstaklega á þriggja mánaða tímabili sumarið 2007. Þeir voru alls 839 á tímabilinu sem telst nokkuð mikið.
• Á bráðadeildum er eðlilegt rúmanýting talin vera um 85% svo deildir hafi laus rúm fyrir innlagnir bráðasjúklinga. Þetta viðmið er um 60% á gjörgæsludeildum. Rúmanýting umfram viðmið getur verið vísbending um ,,umfram innlagnir" sem bendir til ófullnægjandi þjónustu.
• Haustið 2006 var sett af stað verkefni til að bæta flæði sjúklinga innan LSH.
Starfsmenn hjúkrunar; Óverulegar breytingar hafa verið á heildarmönnun í hjúkrun síðastliðin 3 ár meðan hjúkrunarþörf hefur aukist umtalsvert á spítalanum. Viðbótarþörfin virðist að einhverju leyti mönnuð með yfirvinnu starfsmanna og auknu vinnuálagi, sérstaklega á legudeildum spítalans.
• Meðalaldur er fremur hár innan hjúkrunar (>40 ár) og starfsreynsla mikil. Starfsmannavelta var 10% hjá hjúkrunarfræðingum árið 2006, þar af hætti hluti þeirra vegna aldurs.
• Hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og sjúkraliðar á barneignaraldri (< 40 ára) voru að meðaltali í 6-10% lægra starfshlutfalli en aðrir starfsmenn á árunum 2005-2007. Starfshlutfallið lækkaði að meðaltali um 1% á ári síðastliðin tvö ár.
• Fyrirsjáanleg starsfslok; Stórir árgangar hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraliða komast bráðlega á eftirlaunaaldur. Alls munu 147 hjúkrunarfræðingar/ljósmæður og 95 sjúkraliðar, starfandi á LSH í janúar 2007, verða 67 ára eða eldri á næstu 7 árum. Fleiri geta þó hætt vegna aldurs á næstu árum vegna 95 ára reglu og annarra sérlífeyriskjara. Mikilvægt er að efla valkosti í störfum sem gætu hvatt einstaklinga innan þessa hóps til að fresta starfslokum á spítalanum.
• Fyrirsjáanleg nýliðun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða vegur ekki upp á móti fjölda þeirra sem hverfa af vinnumarkaði á næstu árum og þaðan af síður til að mæta aukinni þörf fyrir hjúkrun.
• Mannekla í hjúkrun tengist m.a. þenslu á vinnumarkaði og mikilli eftirspurn eftir hjúkrunarfræðingum. Einstaklingar ráða sig fremur til starfa þar sem hagstæðast er boðið m.t.t. launa, starfsaðstöðu og vinnutíma.
Úttekt á mönnun á legu-, skilunar-, gjörgæslu-, slysa- og bráðadeildum
Heildarvinnuframlag í hjúkrun; Setnum stöðugildum 2006 fækkaði um 20 frá árinu 2005 þrátt fyrir fjölgun starfsmanna. Á móti komu m.a. um 11-12 stöðugildi í aðkeyptri hjúkrunarþjónustu árið 2006. Aukavöktum fjölgaði um 15 stöðugildi milli ára, en fjarvera var svipuð. Fækkun starfsmanna á sinn þátt í fjölgun aukavakta þar sem mæta þarf manneklu með yfirvinnu.
• Mikil yfirvinna skapar álag á starfsmenn og hækkar rekstrarkostnað deildanna. Umframkostnaður fyrir hvert stöðugildi hjúkrunarfræðings, sem unnið er í yfirvinnu í stað dagvinnu með álagsgreiðslum, reyndist um 50% og nam að meðaltali um 2,7 milljónum á ári árið 2007. Hvert stöðugildi í aðkeyptri hjúkrunarþjónustu var gróflega áætlað um tvöfalt dýrara en eitt stöðugildi hjúkrunarfræðings í starfi.
Samsetning faghópa í hjúkrun "Skill Mix"; Hlutfall hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra hefur lækkað frá 2005 ef litið er til fyrstu 4 mánaða hvers ár. Hlutfallið er undir 50% á nokkrum bráðadeildum og er það áhyggjuefni . Viðvera og fjarvera starfsmanna hjúkrunar; Fjarvera vegna orlofs og veikinda var svipuð árin 2005 og 2006. Smávægilegar sveiflur voru í öðrum tegundum fjarvista, s.s. fæðingar- og foreldraorlofi, en raunviðvera var um 76% bæði árin. Árið 2006 voru fjarvistir, aðrar en orlof og fæðingar- og foreldraorlof, 14 -15% sem samsvarar 222 stöðugildum, en voru 213 árið 2005.
• Veikindi starfsmanna á úttektardeildum voru 7,5 % bæði árin, sem er aðeins yfir meðaltali allra starfsmanna á LSH (5,8% árið 2005 og 6,7% árið 2006). Endurskoða þarf mönnunarmódel legudeilda með hliðsjón af þekktu fjarvistarhlutfalli og breytingum, m.a. á fæðingar- og foreldraorlofi og öðrum ytri þáttum.
Aukavaktabyrði og vinnuálag hefur verið viðvarandi á mörgum hjúkrunardeildum. Aukavaktir árið 2006 jafngiltu 7% stöðugilda vinnuframlagi til viðbótar. Þetta er svipað hlutfall og veikindafjarvistir, sem vekur spurningar um þörf fyrir mönnun vegna annarra fjarvista og aukna hjúkrunarþörf.
• Aukavaktir hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraliða á úttektardeildunum numu að jafnaði um 100 störfum á mánuði. Meginþorri þeirra sem unnu aukavaktir var í 80-100% starfshlutfalli. Á tveimur deildum voru aukavaktir yfir 20% stöðugilda deildarinnar í febrúar 2007.
Aðgerðir innan hjúkrunar á LSH; Vorið 2006 voru settar í gang aðgerðir vegna manneklu innan hjúkrunar á LSH og eru vísbendingar um árangur að koma fram. Dæmi: Fyrstu 4 mánuði ársins 2007 voru um 3,8 færri stöðugildi unnin á aukavöktum en árið áður. Í febrúar 2007 hafði deildum með fleiri en þrjú stöðugildi á aukavöktum fækkað um átta milli ára. Mælt er með úttekt á mönnun spítalans í heild og skoðun m.a. á samspili hjúkrunar og lækninga á deildum með mikla yfirvinnubyrði eða vanmönnun. Einnig að leita lausna til að mæta hjúkrunarþörf sjúklinga. Í ljósi aukinnar menntunar, aukinna krafna um sérþjálfun og þekkingu á flókinni umönnun á spítalanum og fyrirsjáanlegrar manneklu í hjúkrun er mikilvægt að áhrif launakjara á brottfall og nýráðningar séu skoðuð. Sóknarfæri eru t.d. í að auka starfshlutfall hlutastarfsmanna, fresta starfslokum og hugsanlega bæta aðgengi að barnagæslu eða aðra þætti sem draga úr brottfalli í kjölfar barnsburðarleyfis. Grípa þarf til frekari aðgerða til gera vaktavinnu eftirsóknarverðari til að mæta hjúkrunarþörf sjúklinga á LSH, bæta starfsumhverfi innan hjúkrunar, draga úr aukavöktum og bæta þannig rekstur spítalans.
|
|