María I. Gunnbjörnsdóttir er settur yfirlæknir ofnæmislækninga á Landspítala þar til ráðið hefur verið í stöðuna á grundvelli auglýsingar.
María lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1993. Hún stundaði framhaldsnám í almennum lyflækningum, lungnalækningum og ofnæmislækningum 1996-2007 í Uppsölum í Svíþjóð. Hún varði doktorsritgerð árið 2006 við Uppsalaháskóla sem byggði á faraldsfræðilegum rannsóknum þar sem skoðaðir voru áhættuþættir fyrir öndunarfæraeinkennum og astma.
María hefur verið í hlutastarfi á Landspítala frá 2007 en frá 2009 einnig gegnt starfi yfirlæknis á göngudeild ofnæmislækninga á Akademiska Sjukhuset í Uppsölum í Svíþjóð.
Davíð Gíslason hætti yfirlæknisstörfum vegna aldurs í lok febrúar 2011. Að loknu auglýsinga- og ráðningarferli var Unnur Steina Björnsdóttir ráðin yfirlæknir og frá þeim tíma urðu ofnæmislækningar sjálfstæð sérgrein en hafði áður heyrt undir lungnalækningar. Á reynslutíma afréð Unnur Steina hins vegar að segja sig frá starfinu og hætti í lok október. Staðan hefur verið auglýst aftur og er María I. Gunnbjörnsdóttir settur yfirlæknir þar til ráðningarferli lýkur.