Einkarekstur á heilbrigðissviði
- hvaða straumar berast frá Skandinavíu? -
Sænsk-íslenska verslunarráðið, í samvinnu við Verslunarráð Íslands, verður með fund á Grand hótel Reykjavík föstudaginn 23. janúar 2004, kl. 14:00 - 16:30.
Íslendingar hafa lengi leitað til Norðurlanda, einkum til Svíþjóðar, um fyrirmyndir í heilbrigðisþjónustu. Undanfarin misseri hafa orðið ýmsar breytingar í þeim rekstri og nýjar hugmyndir um skilvirkni og hagræðingu hafa rutt sér til rúms í Skandinavíu. Þá er útrás heilbrigðismála þekkt í þessum löndum, bæði með þjónustu við erlendra sjúklinga en einnig með útrás skandinavískra heilbrigðisfyrirtækja til annarra landa Evrópu. Samskipti sjúklinga á Norðurlöndum eru nú í auknum mæli beint við einkaaðila og fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu.
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra setur fundinn.
Ræðumenn verða Birgir Jakobsson forstjóri St. Göran spítala í Stokkhólmi en sjúkrahúsið er rekið sem hlutafélag í eigu einkaaðila. Otto Nordhus mun segja frá reynslu sinni af rekstri fyrirtækis síns, Nordhus Medical, sem sérhæfir sig í heilbrigðisþjónustu milli landa. Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarforstjóri Sóltúns og framkvæmdastjóri Öldungs hf. fjallar um einkaframkvæmd á Íslandi og Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir fjallar um lagaumhverfi einkaframkvæmdar á Íslandi og eftirlitshlutverk landlæknisembættisins. Fundarstjóri verður Inga Jóna Þórðardóttir.
Fundurinn er öllum opinn en fyrirfram skráning er nauðsynleg í síma 510 7100 eða mottaka@chamber.is.