Stofnað hefur verið til til rannsóknarsamstarfs við Northwestern University í Chicago í kjölfar árangurs rannsókna hjá segavörurnum Landspítala.
Í nýlegri rannsókn var borinn saman árangur núverandi skömmtunaraðferða warfaríns (Kóvars®) á Landspítala (2006) við árangur skömmtunaraðferða lækna árið 1992. Niðurstöðurnar voru birtar í International Journal of Laboratory Hematology* og hefur birting árangursins nú leitt til rannsóknarsamstarfs milli blóðmeinafræðideildar og rannsakenda á Northwestern University í Chicago, sem hafa sérstakan áhuga á bættri og öruggari lyfjagjöf með aðstoð hugbúnaðar. Ætlunin er að rannsaka m.a. hvaða þættir aðrir en blóðstorkumælingar (þ.e. hugbúnaður eða skráðar og óskráðar starfsreglur) leiði til besta árangurs við skömmtun warfaríns.
Segavarnir Landspítala eru starfseining á blóðmeinafræðideild, sem starfar á rannsóknarsviði. Segavarnir höfðu á árinu 2009 2.500 skjólstæðinga, sem heimsóttu segavarnirnar í yfir 40.000 skipti. Aðalverkefni segavarna er að skammta segavörn, oftast warfarin (Kóvar®). Warfarin er þýðingarmikið lyf en erfitt í skömmtun. Mikið atriði er að skömmtun þess takist vel til þess að segavörnin sé fullnægjandi og að ofskömmtun leiði ekki til alvarlegra blæðinga. Skömmtun er byggð á mælingum á blóðstorknun (INR). Skömmtunin hefur undanfarin 10 ár mætt mestmegnis á hjúkrunarfræðingum og lífeindafræðingum sem starfa með læknum blóðmeinafræðideildar að segavörnunum og nota sérhannaðan hugbúnað (“skömmtunarforrit”) sér til aðstoðar. Áður var skömmtuninni stýrt af hjartalæknum og blóðmeinafræðingum án notkunar skömmtunarforrits.
Í umræddri rannsókn kom í ljós, að meðferðarmarkmið sjúklinga á stöðugri blóðþynningu náðust miklu betur á Landspítala árið 2006 heldur en árið 1992 (p < 0.0001, mynd 1). Þannig hafði tíminn sem sjúklingar héldust innan meðferðarviðmiða aukist hjá sjúklingum með gáttatif úr 46% í 81%, með djúpa bláæðasega úr 62% í 84% og með gervihjartalokur úr 40% í 64%.
Sömuleiðis hafði tíminn sem sjúklingar voru óþynntir (INR <1,5) minnkað úr 7% í 1% og tíminn sem sjúklingar voru verulega ofþynntir (INR > 4.0) minnkað úr 2,8% í 0,4% (mynd 2).
Núverandi árangur á Landspítala er með þeim besta sem birtur hefur verið í læknisfræðilegum tímaritum. Góður árangur skýrist annars vegar af notkun hugbúnaðar og hins vegar af skipulögðum vinnubrögðum sem aðeins nást á sérhæfðum segavarnamiðstöðvum (“anticoagulation management centers”). Þótt rannsóknin hafi ekki verið sniðin að því að meta tíðni alvarlegra blæðinga eða nýrra blóðsega má draga þá ályktun að meðferð blóðþynntra sjúklinga á Landspítala hafi batnað verulega með þeim aðferðum sem beitt er í dag. Alvarlegar blæðingar tengjast einkum INR gildum yfir 5,0 og stuttur tími án þynningar minnkar líkurnar á nýjum blóðsegum.
*Önundarson PT, Einarsdottir KA, Gudmundsdottir BR. Warfarin anticoagulation intensity in specialist-based and in computer-assisted dosing practice. Int J Lab Hematol 2008; 30(5):382-9.