Hollvinir Grensásdeildar hafa fært henni að gjöf tvö hitaborð til að nota við framreiðslu á heitum mat fyrir sjúklinga á legudeildum á Landspítala Grensási. Gunnar Finnsson, formaður samtakanna, afhenti gjöfina fyrir nokkru. Hitaborðin eru frá fyrirtækinu Fastus sem jafnframt lagði sitt af mörkum með því að veita verulegan afslátt af þeim.
Í könnun um gæði meðferðar í endurhæfingu frá sjónarhóli sjúklinga, sem gerð var árið 2005, komu fram óskir um að í stað þess að nota matarbakka yrði skammtað á diska þannig að sjúklingar hefðu meira um skammtastærðir og meðlæti að segja.
Þessi gjöf Hollvina Grensásdeildar er því afar kærkomin en það hefur lengi verið baráttumál starfsmanna að bæta aðstöðu og breyta framreiðslu matar fyrir sjúklinga. Sjúklingar í endurhæfingu þurfa oft að liggja lengi á spítala og þurfa á hollri og góðri næringu að halda til að byggja sig upp. Vel framreiddur matur er lykilatriði.
Í tengslum við þessa gjöf voru settar upp nýjar innréttingar í borðsali legudeildanna og keyptur nýr borðbúnaður.
Samtökin Hollvinir Grensásdeildar voru stofnuð 5. apríl 2006. Tilgangur þeirra er að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemina þar og það sem henni tengist annars staðar á Landspítala. Það er gert með því afla fjár til starfseminnar og vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminni á opinberum vettvangi.