Samningur undirritaður um aukna þjónustu myndgreiningar. Pétur Hannesson og Torfi Magnússon frá Landspítala, Birna Jónsdóttir og Ragnheiður Sigvaldadóttir frá Læknisfræðilegri myndgreiningu.
Samningur um aðgang heilbrigðisstarfsmanna að rafrænum sjúkragögnum milli Landspítala og Læknisfræðilegar myndgreiningar var undirritaður 10. nóvember 2009.
Um er að ræða söguleg tímamót því þetta er fyrsti samningur sinnar tegundar. Með honum er komið á formlegri samvinnu sem gerir starfsmönnum myndgreiningardeildanna kleift að sækja rannsóknir í kerfi hvors annars hvenær sem á þarf að halda. Unnið hefur verið að því að koma þessu sambandi á um það bil eitt ár en eftir að lög um sjúkraskrá tóku gildi síðasta vor varð það loks mögulegt.
Á myndgreiningu Landspítala er ánægja með að geta nú boðið viðskiptavinum þessa bættu þjónustu og um leið aukið skilvirkni og dregið úr kostnaði.