Rúmlega helmingur nýrnafrumukrabbameina á Íslandi greinist nú fyrir tilviljun en 1971 var hlutfallið um 11%. Þessi þróun hefur leitt til þess að horfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein hafa vænkast umtalsvert hér á landi.
Þetta kemur fram í vísindagrein um bættar horfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein sem læknar við læknadeild Háskóla Íslands og skurðdeild Landspítala birta í dag, 5. janúar 2011, í einu virtasta vísindariti innan þvagfæraskurðlækninga, Journal of Urology. Greinin hefur vakið mikla athygli og er t.d. forsíðufrétt í Renal & Urology News.
Í greininni er bent á að ástæðan fyrir þessari hröðu aukningu tilviljanagreininga sé útbreidd notkun tölvusneiðmynda og ómskoðana. Hér á landi er aðgengi sjúklinga að þess konar rannsóknum óvenjugott, bæði á sjúkrahúsum og einkareknum læknastofum.
Nýrnafrumukrabbamein er langalgengasta illkynja æxlið sem greinist í nýrum en hér á landi greinast hátt í 30 einstaklingar árlega með sjúkdóminn. Nýrnafrumukrabbamein er óvíða algengara í heiminum en hér á landi og er ástæðan fyrir því ekki þekkt. Því er mikið á sig leggjandi að leita leiða til að auka batalíkur þeirra sem glíma við þennan sjúkdóm hér en rannsóknir á erfðum sjúkdómsins standa nú yfir hér á landi. Algengustu einkenni nýrnafrumukrabbameins eru verkir í kvið eða síðu og blóð í þvagi. Einkenni leynast oft og það getur tafið greiningu sjúkdómsins. Ef æxlið er eingöngu bundið við nýrað kemur lækning með skurðaðgerð til greina. Þess vegna skiptir miklu máli að greina sjúkdóminn snemma, áður en hann hefur dreift sér út fyrir nýrað.
Á síðustu tveimur áratugum hefur færst í vöxt að nýrnafrumukrabbamein greinist fyrir tilviljun þegar gerðar eru myndrannsóknir vegna annarra óskyldra sjúkdóma í kviðarholi, t.d. þegar leitað er að gall- eða nýrnasteinum með tölvusneiðmyndum eða ómskoðun. Í rannsókn íslensku læknanna kom í ljós að sjúklingar sem greindust með nýrnaæxli fyrir tilviljun höfðu betri lífslíkur og horfur um bata, jafnvel þótt tekið væri tillit til minni stærðar æxlanna og takmarkaðrar útbreiðslu. Alls voru 40% fleiri af tilviljanagreindu sjúklingunum á lífi fimm árum eftir greiningu en í hópi þeirra sem greindir voru á annan hátt. Þetta er í fyrsta skipti sem sýnt er fram á jákvæð áhrif tilviljanagreiningar með þessum hætti og hjá sjúklingum frá heilli þjóð.
Rannsóknin byggðist á gagnagrunni þvagfæraskurðdeildar Landspítala þar sem skráð eru öll tilfelli nýrnafrumukrabbameins sem greinst hafa hér á landi frá 1970. Gagnagrunnurinn þykir einstakur á heimsvísu þar sem hann nær til tilfella hjá heilli þjóð á 40 ára tímabili. Auk þess gátu höfundar greinarinnar stuðst við upplýsingar um fjölda myndrannsókna á landinu öllu.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Helga Björk Pálsdóttir deildarlæknir en rannsóknin er hluti af meistaraverkefni hennar við læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi Helgu er Tómas Guðbjartsson, prófessor við læknadeild, sem jafnframt hefur haft yfirumsjón með rannsókninni. Aðrir rannsakendur og meðhöfundar að greininni eru Eiríkur Jónsson, yfirlæknir þvagfæraskurðdeildar LSH, Guðmundur Vikar Einarsson þvagfæraskurðlæknir, Vigdís Pétursdóttir og Sverrir Harðarson meinafræðingar, Ármann Jónsson og Martin Ingi Sigurðsson deildarlæknar.