Tilkynning frá deild lyfjamála á LSH:
Oft hefur verið bent á mikilvægi þess að bæta skráningu aukaverkana lyfja á Íslandi sem hefur verið með eindæmum slök og þrátt fyrir átaksverkefni til að bæta úr hefur í besta falli náðst tímabundinn árangur sem síðan hefur fjarað út. Ástæða þessa er vafalaust fyrst og fremst sú að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafa ekki orðið áþreifanlega varir við árangur erfiðis síns. LSH gegnir lykilhlutverki í aukaverkanaskráningu þar sem alvarlegar aukaverkanir leiða gjarnan til innlagnar á sjúkrahúsið og jafnframt er LSH sú sjúkrastofnun þar sem mest er gefið af nýjum, mikilvirkum lyfjum þar sem enn ríkir ákveðin óvissa um öryggi þeirra. Markmiðið er að safna öllum aukaverkanatilkynningum á LSH saman og gera reglulega grein fyrir niðurstöðum. Ef vel tekst til verður aukaverkanaskráningin öflugt tæki til að efla vitund starfsmanna um mikilvægi þess að taka tillit til hugsanlegra aukaverkana þegar lyfjum er ávísað og setja í rétt samhengi við þær væntingar sem til meðferðarinnar eru gerðar.
Lyfjastofnun er þátttakandi í miðlægri skráningu aukaverkana í Evrópu sem tengist Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni og munu allar aukaverkanatilkynningar frá LSH rata í það gagnasafn. Með þessu leggjum við okkar lóð á vogaskálarnar til að auka öryggi sjúklinga og erum ekki lengur eingöngu þiggjendur upplýsinga sem aflað er annars staðar. Oft verður þekking á tíðni og eðli aukaverkana lyfja ekki fyllilega ljós fyrr en eftir markaðssetningu og er því sérstaklega mælst til þess að aukaverkanir lyfja sem hafa verið 5 ár eða skemur á markaði séu skráðar. Allar alvarlegar aukaverkanir ber þó að tilkynna.
Aukaverkun sem valdið hefur einhverju af eftirtöldu telst alvarleg:
- Dauða
- Lífshættu
- Varanlegum skaða eða langvinnri fötlun
- Vistun á sjúkrahúsi
- Lengingu sjúkrahúsdvalar
- Fósturskaða
Sérstakt eyðublað er á upplýsingavef LSH til skráningar á aukaverkunum lyfja, Tilkynning um aukaverkun vegna lyfs - náttúrulyfs - náttúruefnis. Það er að finna við höndina á vef lyfjaþjónustu undir Eyðublöð, einnig bakvið krækjuna Eyðublöð - Umsóknir - Pantanir við höndina á forsíðu heimavefs LSH. Hægt er að fylla eyðublaðið út á skjánum og prenta það síðan út. Rétt er að benda á að þótt allar upplýsingar liggi ekki fyrir þegar aukaverkun kemur í ljós er engu að síður mikilvægt að tilkynningin sé send án tafar. Ef þörf er á frekari upplýsingum mun deild lyfjamála sjá um það. Tilkynningar sendist til Sigurðar B. Þorsteinssonar yfirlæknis deildar lyfjamála þar sem þeim er safnað saman til frekari úrvinnslu og kynningar. Jafnframt verða þær sendar áfram til Lyfjastofnunar. |