Velferðarráðherra hefur veitt sýkla- og veirufræðideildum Landspítala starfsleyfi og um leið tilnefnt þær sem opinberar tilvísunarrannsóknastofur fyrir Ísland Leyfið er byggt á ákvæðum sóttvarnalaga um starfrækslu rannsóknastofa í sýkla- og veirufræði.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að landlæknir fái deildunum það hlutverk að fylgjast með sýklarannsóknum í landinu þannig að þær verði gerðar á viðunandi hátt og uppfylli gæðakröfur.
Sýklafræðideild
Veirufræðideild
Í sóttvarnarlögunum segir: „Rannsóknastofur, sem fást við rannsóknir á sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma sem lög þessi taka til, skulu hafa starfsleyfi [heilbrigðisráðherra].“
Jafnframt segir í reglugerð frá 2004: „Skilyrði fyrir slíku starfsleyfi er að rannsóknastofa hafi öðlast faggildingu á rannsóknum sbr. 1. gr. Ráðherra er heimilt að veita rannsóknastofu tímabundið starfsleyfi á meðan beðið er eftir faggildingu enda hafi rannsóknastofan lagt fram áætlun um að öðlast hana. Ráðherra er heimilt að veita rannsóknastofu takmarkað og tímabundið starfsleyfi, til að framkvæma tilteknar rannsóknir, sbr. 1. gr., enda sýni rannsóknastofan fram á að viðhaft sé virkt gæðaeftirlit. Ráðherra getur kveðið á um í starfsleyfi að rannsóknastofa sé tilvísunarrannsóknastofa (reference laboratory).“
Karl G. Kristinsson yfirlæknir, sýklafræðideild:
"Þetta er merkur áfangi í ljósi þess að þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem rannsóknastofur sem vinna með sýni frá sjúklingum fá starfsleyfi.
Þar að auki kveður þetta starfsleyfi á um að rannsóknastofurnar séu tilvísunarrannsóknarstofur, þ.e. reference laboratories, sem vísar til þess að þær hafa mikilvægu hlutverki að gegna við þjónustu- og vísindarannsóknir og við sóttvarnir fyrir landið allt. Segja má að þarna sé verið að viðurkenna orðinn hlut. Deildirnar hafa í raun unnið sem slíkar að miklu leiyi. Engu að síður felst í þessu aukin ábyrgð. Við erum með ráðherrabréfi orðnar opinberar tilvísunarrannsóknastofur fyrir Ísland."
Evrópska sóttvarnamiðstöðin, ECDC, hefur undanfarin ár verið að skilgreina hlutverk og skyldur tilvísunarrannsóknarstofa. Mikilvægt er að sóttvarnamiðstöðin geti treyst því sem gert er í hverju aðildarlandanna en þessar reglur eiga einnig að gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið (EEA).
Skilgreind meginhlutverk eða kjarnastarfsemi tilvísunarrannsóknastofa:
1. Að sjá til þess að þar séu gerðar greiningar með bestu viðurkenndu aðferðum og veitt aðstoð til annarra rannsóknastofa sem eiga í vandræðum með greiningar og að staðfesta tilteknar greiningar. Bjóða jafnframt upp á stofnagreiningar við rannsóknir á hópsýkingum.
2. Að viðhalda viðmiðunarstofnum og viðmiðunarætum fyrir aðrar rannsóknastofur í landinu.
3. Að veita ráðgjöf til heilbrigðisyfirvalda og heilbrigðisstofnana og stuðning við rannsóknastofur.
4. Að vera í forystu varðandi tækni og vísindarannsóknir á viðkomandi sviðum og taka þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi.
5. Að fylgjast með og skrá greiningar tiltekinna sýkla og veita ráðgjöf við rannsókn hópsýkinga.