Nýtt tölvusneiðmyndatæki var formlega tekið í notkun á Landspítala Fossvogi fimmtudaginn 10. september 2009. Meðal fjölmargra viðstaddra var Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra. Tölvusneiðmyndatæki eru mikilvirkustu og fjölhæfustu myndgreiningartækin í læknisfræðilegri myndgreiningu nú til dags og eru notuð við almenna og bráða myndgreiningu á flestum alvarlegum sjúkdómum, áverkum og slysum á miðtaugakerfi, höfði, brjóstholi og kviðarholi.
Landspítali hefur undanfarin ár haft til afnota tvö 16 sneiða tölvusneiðmyndatæki (TS-tæki), eitt í Fossvogi og annað við Hringbraut. Tækin hafa gegnt lykilhlutverki í bráða-myndgreiningarþjónustu á hvorum stað, í Fossvogi í tengslum við slysa- og bráðadeild, m.a. varðandi fjöláverkasjúklinga, og við Hringbraut í tengslum við bráðamóttöku. Brýn þörf hefur verið á að endurnýja bæði tækin og fékkst heimild frá heilbrigðisráðuneytinu s.l. vetur til þess að endurnýja tölvusneiðmyndatækið í Fossvogi. Það var frá árinu 2003 en orðið úrelt og fór tíðni rekstrartruflana og bilana vaxandi sem gat stefnt öryggi sjúklinga í voða.
Nýja tölvusneiðmyndatækið er af fullkominni gerð, búið stafrænum skynjara og tölvubúnaði sem getur skilað 64 tölvusneiðmyndum samtímis af sjúklingnum. Aðeins tekur fáar mínútur að rannsaka sjúkling frá hvirfli til ilja þegar þess gerist þörf. Fullkomin vinnustöð læknis fylgir tækinu, búin nauðsynlegum hugbúnaði fyrir myndvinnslu og gagnameðferð þar sem hægt er að skoða öll myndgögn sjúklingsins og framkvæma nauðsynlega sjúkdómsgreiningu. Með tækinu fylgir þjónustusamningur við Philips Medical Systems sem hefur mikla reynslu af tölvusneiðmyndatækjum. Hann tryggir Landspítala reglubundið fjareftirlit TS-tækjasérfræðinga fyrirtækisins og þar með fullkomið eftirlit með myndgæðum og öðrum eiginleikum tækisins mörg ókomin ár.
Margt nýtt og miklar framfarir með nýja tækinu
Hið nýja TS-tæki þjónar starfseminni í Fossvogi og uppfyllir helstu grunnþarfir fyrir læknisfræðilega myndgreiningu þar næstu ár. Þær myndgreiningarrannsóknir sem gera mestar kröfur til TS-tækja eru rannsóknir á hjarta og æðakerfi en Landspítali hefur ekki haft yfir að ráða slíku tæki til þess þar til nú. Mikilvægt notagildi tækisins er einnig m.a. mat á bráðum brjóstverkjum þar sem unnt er að útiloka kransæðasjúkdóm og fækka með því innlögnum. Samtímis má greina segarek til lungna en það er algeng bráðadánarorsök, sem og flysjun á ósæð. Bætt og hraðari myndgerð er einnig mjög mikilvæg við rannsóknir fjöláverkasjúklinga. Það er einnig nýjung að unnt er að meta blóðþurrð í vefjum sem er gagnlegt við greiningu á heilablóðfalli og kransæðasjúkdómi. Aukinn hraði og bætt myndgæði er forsenda fyrir kransæðarannsóknum og jafnframt mjög gagnlegt í öðrum rannsóknum þar sem notuð er þrívíddarmyndgerð, t.d. í æðarannsóknum s.s. í heila, hálsi og nýrum. Unnt er að fá heildstæða mynd af áverkum sjúklings á skjótvirkan hátt með einni myndgerðarrannsókn í stað margra með öðrum tækjabúnaði. Tækni í nýjustu gerðum TS-tækja, þar á meðal í þessu tæki, hefur einnig leitt til verulegs geislasparnaðar við tölvusneiðmyndarannsóknir.
Kostnaður
Áætlaður heildarkostnaður við nýja tölvusneiðmyndatækið nemur rúmum 170 milljónum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Breyta þurfti og aðlaga húsnæðið óverulega enda var nýja tækið sett inn í rúmgott húsnæði á annarri hæð Landspítala Fossvogi þar sem tölvusneiðmyndarannsóknir hafa farið fram um árabil. Aðeins tók einn dag að fjarlægja gamla TS-tækið og síðan átta daga að setja nýja tækið upp.
Þriggja ára rammasamningur
Nýja tölvusneiðmyndatækið er af gerðinni Brilliance 64 frá Philips Medical Systems í Hollandi. Umboðsaðili er Vistor hf. Samningurinn um kaup á tölvusneiðmyndatækinu var undirritaður á skrifstofu forstjóra Landspítala þann 24. ágúst s.l. en forstjórinn hafði forgöngu um að afla spítalanum heimildar til að endurnýja tækið. Þetta er þriggja ára rammasamningur sem byggir á opnu útboði hjá Ríkiskaupum í samvinnu við myndgreiningardeild og heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala frá síðastliðnu vori. Rammasamningurinn gerir spítalanum kleyft að ráðast í frekari kaup á tölvusneiðmyndatækjum á samningstímanum án kostnaðar við endurtekin útboð, ef fjárhagsstaða leyfir og stjórnvöld heimila og endurnýja þá tækið við Hringbraut.
Myndgreiningarrannsóknir í fremstu röð
Myndgreiningarrannsóknir á Landspítala eru í fremstu röð og standast vel samjöfnuð við það sem best gerist á öðrum háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndunum. Öll myndgögn eru færð í stafræna gagnageymslu og hægt að hafa aðgang að þeim hvenær sem skoða þarf rannsóknir eða bera saman nýjar og eldri tölvusneiðmyndarannsóknir. Niðurstöður rannsókna eru einnig geymdar með rafrænum hætti og er nú unnið að því á vegum heilbrigðisráðuneytisins að tengja saman alla helstu aðila læknisfræðilegrar myndgreiningar hér á landi til að tryggja aðgengi lækna að nýjustu niðurstöðum myndgreiningarrannsókna, sama hvar á landinu þær hafa farið fram. Þannig má koma í veg fyrir ónauðsynlegar rannsóknir, sjúklingum til hagræðis.