Lækningaforstjóri LSH hefur gefið út eftirfarandi lýsingu á ábyrgð yfirlækna á gjörgæsludeildum, í kjölfar beiðni um leiðbeinandi fyrirmæli um hvert ábyrgðarsvið hvers og eins yfirlæknis væri, sérstaklega yfirlækna gjörgæsludeilda:
Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990, með áorðnum breytingum, segir í 5. mgr. 29. gr.: "Á svæðis- og deildarsjúkrahúsum skulu vera yfirlæknar sérdeilda, sem bera ábyrgð á lækningum, sem þar fara fram. Yfirlæknir hefur eftirlit með starfsemi deildarinnar og skal stuðla að því að hún sé ávallt hagkvæmust og markvissust". Í ljósi þessa ákvæðis gildir eftirfarandi um ábyrgð yfirlækna á gjörgæsludeildum LSH skv. starfslýsingu: "Yfirlæknir gjörgæslulækninga ber ábyrgð á lækningum, læknisfræðilegum rannsóknum, ráðgjöf og þjónustu við sjúklinga í sinni sérgrein og/eða þeim sérgreinum sem hann ber ábyrgð á gagnvart lækningaforstjóra. Hann hefur ásamt hjúkrunardeildarstjóra eftirlit með starfsemi gjörgæsludeildar og ber ásamt honum fjárhagslega ábyrgð gagnvart sviðsstjóra á að rekstur sé ávallt í samræmi við gerðar áætlanir".
Á gjörgæsludeildum eru að jafnaði vistaðir veikustu sjúklingar sjúkrahússins. Greining og meðferð gjörgæslusjúklinga er samvinnuverkefni gjörgæslulækna, sérgreinalækna sem sjúklingurinn tilheyrir og annarra sérfræðinga sem kallaðir eru til hverju sinni. Gert er ráð fyrir að sérgreinalæknir sjúklings komi daglega, jafnvel oftar eftir þörfum, á gjörgæsludeild til að yfirfara sjúkdómsástand, meðferð og áætlanir með læknum gjörgæsludeildar en gjörgæslulæknar bera ábyrgð á að meðferðarfyrirmæli á gjörgæsludeild séu framkvæmd.
Afar mikilvægt er að öll fyrirmæli séu gefin af eða í samráði við lækna gjörgæsludeildar enda hvílir ábyrgð á framkvæmd þeirra þar. Allar meiriháttar ákvarðanir um meðferð sjúklings, s.s. ákvörðun um líknandi meðferð, takmörkun á meðferð, skilun og fleira skulu teknar sameiginlega af sérgreinalækni og gjörgæslulækni. Um skráningar á gjörgæslu er þess almennt krafist að gjörgæslulæknar skrifi dagála daglega svo og þeir sérgreinalæknar sem sjúklingurinn tilheyrir. Beiðni um innlögn á gjörgæsludeild er læknisfræðileg ákvörðun og er tekin af þeim sérfræðingi sem ber ábyrgð á meðferð viðkomandi sjúklings á legudeild/bráðamóttökudeild að höfðu samráði við sérfræðing á gjörgæsludeild. Þurfi að forgangsraða sjúklingum til innlagnar er sú ákvörðun í höndum og á ábyrgð yfirlæknis eða sérfræðings á gjörgæsludeild. Útskrift sjúklinga af gjörgæslu er ákvörðun gjörgæslulækna að höfðu samráði við sérgreinalækni frá legudeild.
Meðferð sjúklinga á gjörgæsludeildum er þannig teymisvinna gjörgæslulækna og þeirra sérgreinalækna sem best til þekkja. Yfirlæknir gjörgæsludeildar ber endanlega ábyrgð á því starfi sem þar fer fram.