Fréttatilkynning 14. mars 2003
Skipuð hefur verið nefnd um þróun verkjameðferðar á LSH, í samræmi við tillögur nefndar á vegum framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar um að stofnuð verði þverfagleg verkjamiðstöð á sjúkrahúsinu. Þessi verkjamiðstöð á að vera á G-3 í Fossvogi. Verkefni nefndarinnar eru m.a. að móta framtíðarsýn fyrir starfsemi tengdri verkjameðferð sjúklinga á LSH, vinna að auknu samstarfi þeirra sem annast verkjameðferð innan spítalans sem utan, vinna að bættu skipulagi og þjónustu við verkjameðferð á LSH og að setja fram tillögur um kennslu- og rannsóknarhlutverk þessa sérsviðs innan sjúkrahússins.
Nefndinni er ætlað að starfa a.m.k. til áramóta 2004-2005 en þá verði störf hennar og framtíð endurmetin. Beðið er um áfangaupplýsingar frá nefndinni 1. nóvember 2003 og 1. júní 2004. Þó er búist við því að teknar verði ýmsar ákvarðanir í samráði við lækninga- og hjúkrunarforstjóra á þessum tíma.
Nefndina skipa: Eiríkur Líndal, sálfræðingur, formaður, Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Anna Rós Jóhannesdóttir félagsráðgjafi, Anna Kristín Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari, Bjarni Valtýsson læknir, Guðmundur Björnsson læknir og Rannveig Einarsdóttir lyfjafræðingur.