Guðbjörg Pálsdóttir, deildarstjóri slysa- og bráðadeildar G-2 í Fossvogi, verður aðstoðarmaður Önnu Stefánsdóttur hjúkrunarforstjóra frá og með 1. janúar 2005.
Lilja Stefánsdóttir, núverandi aðstoðarmaður hjúkrunarforstjóra, skiptir um starfsvettvang frá sama tíma og tekur að sér starf sviðsstjóra hjúkrunar á skurðlækningasviði í eitt ár í leyfi Elínar J. G. Hafsteinsdóttur.
Guðbjörg lauk BSc prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og MSc gráðu í Trauma/Critical Care Nursing við University of Maryland at Baltimore í Bandaríkjunum árið 1997. Guðbjörg hefur langa reynslu af starfsmannastjórnun; sem hjúkrunardeildarstjóri slysa- og bráðadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur/Landspítala - háskólasjúkrahúss frá árinu 1999 og þar áður í eitt ár sem hjúkrunarframkvæmdastjóri slysa- og bráðasviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur (SHR). Guðbjörg starfaði sem klínískur sérfræðingur í hjúkrun mikið slasaðra á slysa- og bráðamóttöku SHR 1997 - 1998 og þar áður sem hjúkrunarfræðingur á sömu deild frá árinu 1992 auk starfa við neyðarmóttöku SHR og á skurðdeild A-4 SHR í Fossvogi. Einnig vann Guðbjörg sem hjúkrunarfræðingur á tímabilinu 1990 - 1999 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, á Landakoti og á Heilbrigðisstofnun Seyðisfjarðar. Guðbjörg tók þátt í skipulagningu og uppbyggingu nýrrar slysadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri á árunum 1990 - 1991 og sinnti þar ýmsum sérsviðum, t.d. sjúkraflugi með veika eða mikið slasaða einstaklinga. Guðbjörg hefur annast stundakennslu í diplómanámi í bráða-, gjörgæslu-, skurð- og svæfingahjúkrun við hjúkrunarfræðideild H.Í. auk þess að sitja í umsjónarráði á vegum LSH fyrir áðurnefnt nám. Jafnframt hefur hún stundað kennslu í bráðahjúkrun og skyldum greinum við ýmsar aðrar menntastofnanir. Guðbjörg á sæti í aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins. Guðbjörg hefur sótt fjölda námskeiða og ráðstefna í sínu fagi utan lands og innan. |