Inflúensa A (H1N1)
Tilkynning frá farsóttarnefnd Landspítala vegna inflúensu A(H1N1) 23. október 2009, kl. 16:20
Farsóttanefnd LSH ítrekar fyrri tilmæli sín til ættingja sjúklinga að þeir takmarki heimsóknir eins og kostur er vegna hættu á að þeir geti smitað sjúklinga sem eru á spítalanum af inflúensu.
Bólusetningu starfsmanna Landspítala er nú lokið. Ekki er til meira bóluefni að sinni til þessara nota. Starfsmönnum sem vilja enn láta bólusetja sig er bent á að snúa sér til sinnar heilsugæslustöðvar og panta tíma.
Það vekur athygli farsóttarnefndar hve hátt hlutfall sjúklinga sem þurfa að leggjast á sjúkrahús vegna inflúensu leggjast á gjörgæsludeildir. Á hverjum tíma eru um 20% sjúklinga með inflúensu sem liggja á deildum Landspítala á gjörgæsludeild. Það er mun hærra en í árlegum inflúensufaraldri. Hins vegar er það í samræmi við reynslu annarra af þessum svínaflensufaraldri. Reynsla Ástrala síðastliðið sumar benti til þess að þeim sjúklingum sem fengu veirulyf síðar í sjúkdómsgangi væri hættar við að lenda á gjörgæsludeild en þeim sem fengu lyfin fyrr.
Farsóttarnefnd hvetur til notkunar veiruleyfja gegn inflúensu A(H1N1) hjá sjúklingum með bráð einkenni sem benda ótvírætt til inflúensusýkingar. Sérstaklega á þetta við um þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma en einnig heilbrigða einstaklinga. Því fyrr sem lyfjagjöf hefst þeim mun meiri er ávinningurinn.