Hundruðir viðskiptavina í Stofni ráðstöfuðu hluta af stofnendurgreiðslu til Lífs, styrktarfélags kvennadeilda LSH.
Laufey Sigurbergsdóttir viðskiptavinur í Stofni, afhenti í dag fyrir hönd viðskiptavina Sjóvár í Stofni, Styrktarfélaginu Líf styrk og nam upphæð styrksins 1.424.467 kr.
Á hverju ári fá tjónlausir og skilvísir viðskiptavinir í Stofni endurgreiðslu á iðgjöldum sínum frá Sjóvá. Síðustu ár hefur viðskiptavinum gefist kostur á að ráðstafa hluta eða allri endurgreiðslunni til góðgerðamáls. Í ár ákváðu rúmlega átta hundruð Stofnfélagar að verja hluta eða allri endurgreiðslu sinni til Lífs, styrktafélags Kvennadeildar Landspítalans.
Fulltrúar úr stjórn Lífs, þær Eva Ásrún Albertsdóttir og Hildur Harðardóttir tóku á móti gjöfinni ásamt nokkrum starfsmönnum deildarinnar.
Á myndinni eru frá vinstri: Guðrún Guðbjörnsdóttir, ljósmóðir, Helga Ólöf Eiríksdóttir, ljósmóðir, Helga Sigurðardóttir, deildarstjóri, Hildur Harðardóttir, yfirlæknir, Eva Ásrún Albertsdóttir, ljósmóðir, Laufey Sigurbergsdóttir, viðskiptavinur Sjóvá og félagi í Stofni og Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.