Landspítali stefnir að því að því að draga úr neikvæðum áhrifum samgangna á umhverfið vegna starfsemi sinnar, samkvæmt samgöngustefnu sem framkvæmdastjórn spítalans samþykkti á fundi sínum 30. maí 2011.
Samgöngustefna Landspítala (PDF)
Sem heilbrigðisstofnun stefnir spítalinn að ...
- minni mengun
Með því að draga úr mengun vegna samgangna vill spítalinn stuðla að betra umhverfi. Þar er horft til mengunar eins og losunar gróðurhúsalofttegunda, svifryks, sóts og hljóðmengunar sem öll hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks. - betri heilsu starfsfólks spítalans
Heilsufarslegur ávinningur af því að ganga eða hjóla reglulega til og frá vinnu er óumdeildur. Með því að bæta aðstæður fyrir þá sem vilja komast til og frá spítalanum með öðrum hætti en á einkabílnum er stuðlað að jafnræði við val á ferðamáta og breyttum ferðavenjum starfsfólks sem hefur jákvæð áhrif á heilsu starfsfólks. - öruggara og líflegra umhverfi
Með því að draga úr akstri bíla við spítalann og með fjölgun þeirra sem koma gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum minnkar þörf fyrir bílastæði og götur. Það hefur einnig í för með sér að fleiri verða á ferli. Færri bílar og fleiri á ferli eykur öryggi. Þannig stuðlar spítalinn að öruggara og líflegara umhverfi.
Það hyggst spítalinn gera með fjölmörgum og fjölbreyttum aðgerðum sem miða að því að ...
- draga úr mengun vegna aksturs á vegum spítalans
Skutla milli Fossvogs og Hringbrautar, bílastæðum ekki fjölgað, gjaldskylda á skammtímastæðum nema fyrir fatlaða, visthæf ökutæki við endurnýjun, vistakstursnámskeið. - bæta aðstæður þeirra sem velja aðra ferðamáta en einkabílinn
Sturtu- og búningsaðstaða, fleiri og betri hjólastæði, upplýsingagjöf um ferðir strætó, ódýrari fargjöld í strætó fyrir starfsfólk, far heim fyrir starfsfólk sem ekki eru á bíl ef upp koma neyðartilfelli. - gera umhverfi starfsstöðva spítalans öruggara og bæta umferðaröryggi
Hertar aðgerðir gegn ökutækjum sem lagt er þannig að þau valdi hættu, úttekt og könnun á umferðaröryggismálum.
Ábyrgðarmaður samgöngustefnunnar er Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Hlutverk hans er að standa vörð um samgöngustefnuna. Hann sér til þess að verkefnið sé lifandi og fylgist með árangri vinnunnar.