Hópur hjúkrunarfræðinga á Landspítala efnir á ný til fjöldagöngu gegn umferðarslysum fimmtudagin 8. maí 2008, í því skyni að votta fórnarlömbum slysa og aðstandendum þeirra samúð og stuðning og vekja almenning til umhugsunar um afleiðingar háskalegrar hegðunar í umferðinni. Síðast en ekki síst vilja skipuleggjendur göngunnar minna á að alvarleg slys koma líka illa við alla þá sem starfs síns vegna koma þar við sögu, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, lögreglu, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, starfsmenn Landhelgisgæslunnar, presta og starfsmenn í útfararþjónustu.
Þúsundir manna tóku þátt í göngu gegn slysum 26. júní 2007, fleiri en flesta óraði fyrir. Það hefur bókstaflega verið kallað eftir því að ganga á ný í ár og fulltrúar margra starfshópa, sem nefndir voru til sögu hér að framan, mynda nú fylkingu til undirbúnings göngunni með hjúkrunarfræðingunum sem höfðu frumkvæði að göngunni í fyrra og eru einnig drifkraftar verkefnisins í ár.
Sumarið er jafnan tími birtu og yls í hugum landsmanna en því miður er það jafnframt mikil slysatíð í umferðinni. Heilbrigðisstarfsfólk er gjarnan með kvíðahnút í maganum þegar hefðbundnar ferðahelgar landsmanna nálgast. Þá dregur því miður oft ský fyrir sólu hjá mörgum manninum vegna alvarlegra slysa. Framundan er einmitt fyrsta eiginlega ferðahelgi sumarsins, hvítasunnan. Hópurinn sem stendur fyrir göngunni beinir því sérstaklega til landsmanna allra að fara sér hægt og láta ekki hvarfla að sér að stjórna bílum undir áhrifum vímuefna af einhverju tagi. Ungir ökumenn eru beðnir að sýna sérstaka varúð þar sem slysatíðni ungra er mun hærri en eldri.
· Á fimmtudaginn verður safnast saman á lóð Landspítala Hringbraut, Eiríksgötumegin, og lagt af stað kl. 16:30. Gengið verður fram hjá slökkvistöðinni við Skógahlíð og áfram sem leið liggur að þyrlupallinum við Landspítala Fossvogi. Þeir sem eru bundnir hjólastólum, eða eiga erfitt um gang af einhverjum ástæðum, eru hvattir til að koma inn í gönguna í Öskjuhlíð þegar að baki er sá kafli leiðarinnar þar sem tröppur og brekkur eru ákveðnir farartálmar. Síðari hluti göngunnar eru mun greiðfærari.
· Meðal þeirra sem ávarpa göngumenn er Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.
· Sjúkraflutningamenn ætla sem fyrr að halda á lofti svörtum blöðrum í göngunni í minningu þeirra 15 sem fórust í umferðinni á Íslandi á árinu 2007. Hjúkrunarfræðingar halda á lofti rauðum blöðrum sem tákni fyrir þá 166 sem slösuðust alvarlega í umferðinni á sama tíma.
· Blöðrunum verður sleppt við þyrlupallinn í fundarlok. Þannig endar athöfnin táknrænt í minningu þeirra sem látið hafa lífið í umferðinni og til að sýna fórnarlömbum alvarlegra umferðarslysa samhug og samstöðu.
Gengið gegn slysum
Hópur hjúkrunarfræðinga á Landspítala efnir aftur til fjöldagöngu gegn slysum. Gengið verður frá Landspítala Hringbraut að Landspítala Fossvogi fimmtudaginn 8. maí 2008. Gangan hefst kl. 16:30.