"Um þessar mundir er eitt ár síðan að hafist var handa við að innleiða fjölskylduhjúkrun með skipulögðum hætti á Landspítala. Markmiðið er að bæta gæði hjúkrunar og að efla samstarf við sjúklinga Landspítala og fjölskyldur þeirra. Aðferðir fjölskylduhjúkrunar byggja á þeim hugmyndum að veikindi séu viðfangsefni fjölskyldna og þau hafi áhrif á alla innan hennar. Með góðri upplýsingaöflun, nærgætni í samskiptum og vel ígrunduðum samtölum við sjúklinginn og fjölskyldu hans, geta hjúkrunarfræðingar stuðlað að bættri líðan fjölskyldumeðlima og aðstoðað þá við að takast á við þær breytingar sem fylgja heilbrigðisvandanum."
Áður en verkefnið hófst með formlegum hætti hafði, fjölskylduhjúkrun verðið innleidd á lyflækningasvið II með góðum árangri að mati hjúkrunarfræðinga og aðstandenda. Átti það stóran þátt í að ákveðið var að hefjast handa og innleiða fjölskylduhjúkrun á öllum sviðum Landspítala. Þá hafði barnasvið og nokkrar deildir öldrunarsviðs farið af stað með verkefnið sem gæðaverkefni á sviðunum.
Vorið 2007 stofnaði framkvæmdastjóri hjúkrunar stýrihóp sem hefur m.a. það hlutverk að veita verkefninu forystu, hafa umsjón með fræðslu og fylgja eftir innleiðingunni. Í stýrihópurinn situr einn hjúkrunarfræðingur af hverju sviði Landspítala, auk fulltrúa frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og fulltrúa hjúkrunarráðs.
Innleiðingarhópar hjúkrunarfræðinga á þeim sviðum sem hefja innleiðingu á þessu og næsta ári hafa verið myndaðir en þeir stýra innleiðingu, hver á sínu sviði. Þetta eru lyflækningasvið I, endurhæfingarsvið, skurðlækningasvið, kvennasvið og slysa-og bráðasvið. Innleiðing felst í fræðslu, þjálfun og stuðningi við hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk á deildum. Nú þegar hafa verið haldin fimm námskeið og færnibúðir fyrir lyflæknissvið I og endurhæfingarsvið.
Almenn ánægja er á meðal hjúkrunarfræðinga með innleiðingu fjölskylduhjúkrunar en fram kom í skýrslu innleiðingarhóps á öldrunarsviði um niðurstöður gæðaverkefnisins að hjúkrunarfræðingar í rýnihópum voru flestir sammála um að innleiðing fjölskylduhjúkrunar á sviðinu væri tækifæri til að vaxa í starfi og hún stuðlaði að því að hjúkrun á Landspítala verði enn betri og faglegri.
Árangur af verkefninu verður metinn með því að kanna upplifun skjólstæðinga af þeim stuðningi sem veittur er af hjúkrunarfræðingum, starfshæfni fjölskyldna, viðhorfum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til fjölskylduhjúkrunar og starfsánægju hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna hjúkrunar. Einnig verður gerð úttekt á hjúkrunarskráningu fyrir og eftir innleiðingu. Stefnt er að því að í lok verkefnis liggi fyrir niðurstöður 20 rannsóknarverkefna frá hinum ýmsu sviðum. Áætlað er að verkefnið taki fjögur ár."
(Greinargerð Elísabetar Konráðsdóttur verkefnastjóra innleiðingar fjölskylduhjúkrunar á Landspítala)