Stjórn læknaráðs Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun í kjölfar umræðu um rekstrarhalla LSH og fjárhagsvanda stofnunarinnar:
Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu ber læknaráði að láta sig allt það varða í rekstri viðkomandi stofnunar er snertir læknisfræðileg atriði og læknisþjónustu. Læknaráð LSH hlýtur að harma það að stjórnendur LSH hafa talið sig þurfa hvað eftir annað að grípa til aðgerða er skerða læknisþjónustu LSH. Læknaráð hefur þó fullan skilning á stöðu stjórnenda LSH. Þeim er gert að reka þekkta og óhjákvæmilega starfsemi LSH, en þó um leið opinberlega óskilgreinda fyrir árlegt framkvæmdafé sem jafnan er ákveðið af fjárveitingavaldinu að vera skuli hundruðum milljóna lægra en stjórnendur LSH telja eftir útreikningum sínum að þörf sé fyrir. Hið opinbera gefur því vitlaust í upphafi hvers árs og festir með fjárlögum. Af þessu leiðir árvissan rekstrarhalla, því frá verkefnunum verður ekki auðveldlega vikist og langvarandi árviss umræða um rekstrarhalla LSH hefur lamandi áhrif og getur dregið úr gæðum þjónustu og staðið í vegi nauðsynlegrar framþróunar. Fráleitt er hins vegar að ætla annað en metnaður þjóðarinnar standi til þess að eiga öflugt framsækið háskólasjúkrahús í heilbrigðiskerfi sínu.
Læknaráð hefur fulla ástæðu til að ætla að hagrætt hafi verið í starfsemi LSH jafnt og þétt eins og kostur hefur verið á og að áfram verði gengið á þeirri braut. Eins og hins vegar fram er komið er LSH ranglega skammtað framkvæmdafé árlega, ekki aðeins til læknisþjónustu og verkefna háskólasjúkrahúss, heldur einnig til viðhalds mannvirkja sem og til viðhalds og endurnýjunar tækjabúnaðar. Athygli vekur þögnin um frekari framvindu í byggingu hins nýja LSH og skammt er til skrefa aftur á bak ef ekki er hirt um að veita eðlilegu fjármagni til allra þeirra þátta sem fyrr eru nefndir. Læknaráð hvetur stjórnendur LSH til þess tafarlaust að skilgreina starfsemi LSH. Læknaráð lýsir sig reiðubúið sem fyrr að taka þátt í slíkri skilgreiningu. Svo augljós sem hún er verður hún þó að liggja fyrir með framsettum hætti. Hin skilgreinda starfsemi hlýtur að taka mið af þeim þekktu þáttum sem LSH stendur fyrir. Stofnunin er háskólasjúkrahús og verður að geta rækt og stundað starfsemi í heilbrigðiskerfinu svo hún standi undir því nafni. Þar er að finna alla læknisfræðilega sérþekkingu á einum stað eins og hún getur best orðið á hverjum tíma miðað við aðstæður. Stofnunin er endastöð fyrir margvíslega læknisfræðilega og hátæknilega þjónustu og á stofnuninni einni verður byggð upp í landinu margvísleg sérhæfð þjónusta í læknisfræði.
Það er einnig ljóst að hluti af starfi LSH verður ávallt á sviði hjúkrunar eða m.t.t. félagslegra þátta. Innan þessarar skilgreiningar verður síðan að sækja fjármuni og leita eftir að fyrir liggi skilgreint greiðslukerfi m.t.t. þjónustuþátta. Læknaráð áréttar að LSH er hluti af heilbrigðiskerfi þjóðarinnar og hvað sem líður skilgreindu hlutverki getur LSH ekki vikið frá sér verkefnum sem ekki verður leitað til með annað m.a. vegna þess að úrræði eru ekki annarsstaðar að hafa í heilbrigðiskerfinu. LSH getur því ekki t.d. vikið frá þjónustu við einstaklinga sem LSH eftir atvikum hefur lokið hlutverki sínu við og því munu hverju sinni vera á LSH fjölmargir einstaklingar sem ættu eða gætu vistast annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu. Sömuleiðis mun LSH anna margvíslegum verkefnum innan slysa- og bráðaþjónustu sem eðlilegra væri að leysa í heilsugæslunni utan sjúkrahúsa. Enn er það ljóst að LSH mun sinna verkefnum annarra sjúkrahúsa sem þó hafa fengið fjármuni til þeirrar þjónustu sem á LSH kemur. Læknaráð telur að LSH eigi ekki að víkja þessum verkefnum frá sér en gera eðlilegar kröfur um fjárveitingar sem svara til þessara verkefna og sem kæmu þá frá félagsmálaþjónustu sveitarfélaga, úr fjárveitingum til heilsugæslunnar utan sjúkrahúsa og frá þeim sjúkrahúsum sem víkja frá sér verkefnum sem þau hafa þó fengið fjárveitingu til.
Loks verður LSH að gera kröfur um eðlileg og metin framlög frá menntayfirvöldum landsins í samræmi við háskólahlutverk sitt og þann kostnað sem því er samfara að mennta og þjálfa heilbrigðisstéttir landsins.
Læknaráð Landspítalans telur að LSH eigi að taka þátt í umræðu um heildarskipulag heilbrigðisþjónustu í landinu, en þó má aldrei svo ganga á þá heilbrigðisþjónustu sem LSH veitir að stofnunin sé ekki fær um að standa undir hinu mikilvæga hlutverki sínu m.a. sem háskólasjúkrahús.