Bók um sögu augnlækninga
Tveir læknar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, Guðmundur Viggósson augnlæknir og Gunnar Guðmundsson lungnalæknir voru í ritnefnd nýútkominnar bókar um sögu augnlækninga á Íslandi. Í ritnefndinni var auk þeirra höfundur bókarinnar, Guðmundur Björnsson augnlæknir, sem lést fyrr á þessu ári. Eftir að starfsævi hans sem augnlæknis lauk árið 1989 hóf hann að rita sögu augnlækninga á Íslandi en hann hafði safnað heimildum til þess um árabil. Hann lauk að mestu við handritið árið 1997 en ritnefnd hefur síðan yfirfarið það og búið til prentunar undir forystu Jóns Ólafs Ísbergs sagnfræðings. Bókin skiptist í 10 kafla, er rúmar 250 blaðsíður og hana prýðir fjöldi ljósmynda, taflna og myndrita.
Brugðið upp augum, saga augnlækninga á Íslandi frá öndverðu til 1987, er gefin út á vegum Háskólaútgáfunnar. Í þessu fyrsta sagnfræðiriti sinnar tegundar hefur verið leitast við að fjalla um sögu augnlækninga hér á landi þannig að lesandi megi hafa bæði gagn og gaman af. Meðal viðfangsefna má nefna augnsjúkdóma í fornum ritum, alþýðuráð og alþýðulækningar við augnveiki. Helstu brautryðjendum augnlækninga, þeim Birni Ólafssyni, augnlækni, og Guðmundi Hannessyni, prófessor, eru gerð ítarleg skil. Lýst er erfiðri starfsaðstöðu og kjörum augnlækna langt fram eftir 20. öldinni. Þá eru og raktar pólitískar, fræðilegar og viðskiptalegar deilur sem tengdust sögu augnlækninga á öldinni sem leið. Jafnframt er fjallað um mikilvægustu áfanga, hvernig miðstöð augnlækninga þróaðist á Landakoti, sem og þegar Sjónstöð Íslands var stofnuð árið 1987. Í bókinni er ítarleg skrá yfir orð og orðasambönd um sjón og augu en þau eru bæði mörg og mikið notuð í daglegu máli.
Starfsmönnum Landspítala - háskólasjúkrahúss býðst að kaupa bókina á kynningarverði sem er kr. 3.600 en almennt verð í bókaverslunum er 4.500 krónur. Hana má panta á netfangi Háskólaútgáfunnar, hu@hi.is, í síma 525 4003 eða símbréfi 525 5255. Bókin verður þá send heim án aukagjalds. Hægt er einnig að kaupa hana í Háskólaútgáfunni, aðalbyggingu Háskóla Íslands við Suðurgötu.