Jólakortin Vonar eru seld 8 í pakka á 1.000 kr. Hægt er að nálgast þau á gjörgæsludeild LSH í Fossvogi, í móttöku Barnaspítala Hringsins eða leggja inn pöntun á von@landspitali.is. Einnig er hægt að hafa samband við Lilju Hallgrímsdóttur, s. 543 1159, Bríeti Birgisdóttur, s. 820 3690 eða Sesselju Friðþjófsdóttir, s. 695 9335. |
Hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeild Landspítala Fossvogi hafa stofnað VON, félag til styrktar skjólstæðingum gjörgæsludeildarinnar. Félagsstofnunina má rekja til þess að vorið 2007 skoraði gjörgæslan í Fossvogi á kollega sína á Hringbrautinni í Reykjavíkurmaraþon Glitnis. Þátttakan fór fram úr björtustu vonum og saman hlupu gjörgæsludeildirnar báðar um 600 km. Þar sem að Glitnishlaupið er styrktarhlaup fannst hjúkrunarfræðingunum í Fossvogi kjörið að nýta kraftana og stofna styrktarfélag. Úr þessari áskorun varð til styrktarfélagið VON. Þrátt fyrir miklar annir hjá starfsfólki gjörgæslunnar í Fossvogi var stefnt að næsta markmiði, jólakortasölu. Það er ungur og efnilegur 9 ára drengur, Nóni Sær, sem málaði fyrstu jólakortamynd VONAR. Nóni Sær lenti í bílslysi fyrir einu ári og lamaðist fyrir neðan mitti. Sjúklingar eins og Nóni, sem gefast ekki upp þrátt fyrir mikið mótlæti, gefa fólkinu sem annast það mikinn styrk, hvatningu og tilgang með starfi sínu. Allur ágóði af sölu jólakortanna rennur til góðgerðarmála. Eitt af fyrstu verkefnum Vonar er að styrkja veglega einn af skólstæðingum gjörgæslunnar í Fossvogi nú fyrir jól. Í byrjun næsta árs er ætlunin að huga að aðstandendaherberginu sem þarfnast gagngerra endurbóta. |
Jólakort Vonar til stuðnings skjólstæðingum
Allur ágóði af sölu jólakorts Vonar, félags til styrktar skjólstæðingum gjörgæsludeildarinnar á Landspítala Fossvogi, rennur til góðgerðarmála. Myndina sem prýðir jólakortið málaði Nóni Sær, 9 ára gamall drengur sem lenti í bílslysi fyrir ári og lamaðist fyrir neðan mitti.