Oddfellowreglan á Íslandi afhenti Landspítala formlega viðbótarhúsnæði fyrir líknardeildina í Kópavogi við athöfn þar 7. september 2012. Oddfellowreglan gaf framkvæmdirnar sem staðið hafa yfir síðan um áramót. Hundruð sjálfboðaliða komu þar að vönduðu verki.
Með nýju húsnæði líknardeildarinnar í Kópavogi batnar aðstaðan mikið. Legudeildarrúmum fjölgar úr 8 í 13, þar af er eitt bráðarúm. Auk þess verða áfram 4 rúm á 5 daga deild. Aðstaða dagdeildar batnar mjög og möguleikar aukast á frekari þróun starfseminnar. Aðstaða fyrir fjölskyldur og aðstandendur batnar líka með sérstöku fjölskylduherbergi.
Eftir stækkun verður legudeild í húsi 9 og 10. Í húsi 9 hefur þjónusturými verið endurskipulagt og tengibygging yfir í hús 8 innréttuð sem 5 daga deild. Í húsi 8 verður dagdeild í nýju húsnæði sem var endurinnréttað í samræmi við hús 9.
Heildarkostnaður við framkvæmdirnar var áætlaður 100 milljónir króna. Landspítali lagði til 10 milljónir í hönnun breytinganna og nauðsynlegar framkvæmdir utanhúss. Oddfellowreglan á Íslandi, fyrir hönd Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og regludeilda, tók hins vegar að sér, í samráði við starfsmenn rekstrarsviðs Landspítala, að framkvæma og kosta nauðsynlegar breytingar á húsunum tveimur. Síðan í janúar hefur verið unnið hörðum höndum að því og fjöldi fólks í Oddfellowreglunni lagt hart að sér í sjálfboðavinnu, bæði karlar og konur.
Oddfellowreglan á Íslandi hefur verið bakhjarl uppbyggingar líknardeildarinnar í Kópavogi um árabil. Deildin varð að veruleika 1. ágúst 1997 fyrir tilstilli Oddfellowreglunnar á 100 ára afmæli hennar. Hún hefur síðan komið með öflugum hætti að stækkun líknareiningarinnar, legudeilda , 5 daga deildar, dagdeildar og gerð kapellunnar þar. Hér eftir verður starfsemin í þremur fallega uppgerðum samstæðum húsum við voginn.