Vegna boðaðs niðurskurðar á starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) samþykkti stjórn hjúkrunarráðs LSH á fundi sínum 21. janúar 2004 eftirfarandi ályktun: "Stjórn hjúkrunarráðs lítur á þann niðurskurð á starfsemi LSH sem nú hefur verið ákveðinn sem grófa aðför að heilbrigðiskerfi landsmanna. Ljóst er að fjárhagsvandi LSH hefur um árabil verið ærinn og styður hjúkrunarráð heilshugar viðleitni til hagræðingar og sparnaðar. Hins vegar er með þessum aðgerðum vegið að þjónustu spítalans við landsmenn. Þá er ekki séð fyrir endann á því hvaða áhrif þessi niðurskurður mun hafa á stöðu spítalans sem háskólasjúkrahúss. Þær aðgerðir sem nú þegar hafa verið ákveðnar munu skerða þjónustu við flesta sjúklingahópa spítalans, biðlistar lengjast, þjónusta við langveika er verulega skert og bráðaþjónusta minnkar. Sem dæmi má nefna að bráðamóttöku á Hringbraut verður lokað um helgar. Sú móttaka er eina sérhæfða brjóstverkjamóttaka landsins. Hætt er við að þeim árangri sem náðst hefur í meðferð hjartasjúklinga sé stefnt í voða. Hjúkrunarfræðingar sinna sjúklingum allan sólarhringinn. Fjöldi sjúklinga á hvern hjúkrunarfræðing er nú þegar meiri en á sambærilegum sjúkrahúsum erlendis. Það stofnar öryggi sjúklinga í hættu og eykur líkur á mistökum. Pólitískan vilja hefur algerlega vantað til að marka stefnu um hlutverk og fjármögnun spítalans, þrátt fyrir endurteknar tillögur, ábendingar og óskir starfsmanna hans. Þeirri spurningu er varpað til Alþingis og ríkisstjórnar hvort við gerð fjárlaga fyrir árið 2004 hafi verið tekið tillit til gildandi laga um heilbrigðisþjónustu, laga um réttindi sjúklinga og heilbrigðisáætlunar til ársins 2010?
Stjórn hjúkrunarráðs LSH telur brýnt að koma því til skila að með áðurnefndum aðgerðum er þjónusta við sjúklinga skert, öryggi þeirra ógnað og sérhæfðri þjónustu stefnt í hættu. Tal stjórnmálamanna undanfarið um annað lýsir vanþekkingu á grundvallarstafsemi spítalans og er blekking ein."