"Stjórn læknaráðs LSH gerir athugasemd við frétt á vef Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. desember sl. Þar er tilkynnt að samningar hafi ekki tekist milli samninganefndar HTR og Læknafélags Reykjavíkur um nýjan samning sérfræðilækna við Tryggingastofnun ríkisins. Í fréttinni segir að þeim sem þurfa á læknisaðstoð að halda á næstunni sé bent á þjónustu heilsugæslustöðvanna og Læknavaktina á Smáratorgi, göngudeildir sjúkrahúsa og Barnalæknaþjónustuna í Domus Medica.
Ljóst er að heilsugæslustöðvar, Læknavaktin á Smáratorgi og Barnalæknaþjónustan í Domus Medica, búa ekki yfir nema litlum hluta af þeirri sérfræðiþekkingu sem veitt var samkvæmt samningi LR og TR. Það verður því að reikna með að hér sé fyrst og fremst verið að ræða um að sjúklingum verði bent á göngudeildir sjúkrahúsanna.
Stjórn læknaráðs LSH er tjáð að ekki hafi verið haft samráð við stjórnendur LSH um þessa ráðstöfun. LSH stendur nú frammi fyrir þeim vanda að þurfa að skerða þjónustu og segja upp starfsfólki. Ekki verður skilið hvernig veita eigi meiri sérfræðilæknisþjónustu á göngudeildum LSH á þessum tímum samdráttar. Þá er ljóst að göngudeildir LSH búa við verulegt aðstöðuleysi og eru dreifðar víða um spítalann. Aukin læknisþjónusta á göngudeildum krefst því töluverðs undirbúnings, meðal annars með byggingaframkvæmdum."
Til:
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
Tryggingastofnunar ríkisins
Læknafélags Reykjavíkur
Forstjóra og lækningaforstjóra LSH