Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss fjallaði á fundi sínum 21. febrúar 2002 um drög að viðbótarsamningi sjúkrahússins við Háskóla Íslands. Eftirfarandi var samþykkt:
"Stjórnarnefnd LSH lýsir ánægju með áframhald samningagerðar milli LSH og H.Í. Stjórnarnefndin er sammála þeim markmiðum fulltrúa LSH að tengja LSH og H.Í. faglega, samtímis því sem gert er ráð fyrir að það stjórnunarfyrirkomulag sem byggt hefur verið upp á LSH er látið haldast. Vegna sameiginlegra markmiða LSH og H.Í. er báðum aðilum nauðsyn á nánu samstarfi starfsmanna stofnananna. Stjórnarnefnd telur heppilegt að það samstarf sé einkum milli yfirlækna og hjúkrunardeildarstjóra spítalans og forsvarsmanna fræðigreina háskólans, þar sem mikil fagleg samvinna á sér stað.
Stjórnarnefnd telur það báðum aðilum til hagsbóta að fyrirkomulag stjórnunar sé á forræði hvorrar stofnunar fyrir sig og telur að rekstrarleg markmið spítalans með þróun í átt til markvissrar fyrirtækjahugsunar samrýmist ekki alltaf stjórnunarfyrirkomulagi háskólans.
Stjórnarnefnd lýsir ánægju með möguleika starfsmanna LSH að fá metið hæfi til starfa sem kennarar við H.Í. og að bera nafnbætur í samræmi við það. Telur stjórnin að það fyrirkomulag verði hvetjandi fyrir rannsóknastarf og kennslu innan spítalans. Á sama hátt styður stjórnarnefnd þau áform að leitast verði við að þeir háskólakennarar, sem ráðnir hafa verið til starfa við H.Í. og valist þar til forystu, geti komið að stjórnun deilda innan spítalans með gerð ráðningarsamnings. Telur hún að slíkt fyrirkomulag muni efla faglega sýn í starfseminni og styrkja þjónustuhlutverk spítalans.
Stjórnarnefnd mun ítreka við heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu í þá veru að einn fulltrúi í stjórnarnefnd spítalans verði tilnefndur af rektor H.Í.
Stjórnarnefnd mun jafnframt ítreka fyrri tilmæli til ráðherra um að breytingar verði gerðar á lögum um heilbrigðisþjónustu þannig að tímalengd ráðningar sameiginlegra starfsmanna LSH og H.Í. geti verið hin sama.
Stjórnarnefnd hvetur til þess að samningagerð verði haldið markvisst áfram svo ljúka megi samningum fyrir lok apríl næstkomandi."