Árangursstjórnun í íslenska heilbrigðiskerfinu.Anna Lilja Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi kynnir doktorsverkefni sitt á opnum fyrirlestri á vegum Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði. Kynningin verður í hátíðarsal Háskóla Íslands miðvikudaginn 30. apríl 2003 milli kl.16:15 og 17:15.
Kostnaður við heilbrigðisþjónustu hefur farið hækkandi í hinum vestræna heimi. Á Íslandi, eins og í flestum hinna Evrópulandanna, er heilbrigðisþjónusta aðallega veitt í gegnum opinberar stofnanir og greitt fyrir hana með sköttum. Í viðleitni sinni til að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins hafa stjórnvöld skoðað aðferðir sem miða að því að auka skilvirkni í opinberum stofnunum. Árangursstjórnun er ein þessara aðferða. Árangursstjórnun felur í sér að opinberar stofnanir skýri hlutverk sitt og markmið, mæli árangur við að ná þessum markmiðum og skýri frá árangri. Hún er stjórnunaraðferð sem felst í þremur meginþáttum, þar sem hver þáttur er byggður á kenningum um stjórnun; 1. kenningum um stefnumótun og setningu markmiða, 2. kenningum um mikilvægi mælinga á árangri og 3. kenningum um endurgjöf á árangri.
Árangursstjórnun var innleidd á fjórum legudeildum á barnasviði LSH. Þrjár legudeildir á lyflækninga- og skurðlækningasviðum voru notaðar sem samanburðardeildir. Lykiltölum úr starfseminni var safnað saman mánaðarlega á 40 mánaða tímabili; í 21 mánuð fyrir innleiðingu árangursstjórnunar, í 7 mánuði á meðan á innleiðingu stóð og í 12 mánuði eftir innleiðingu. Bornar voru saman lykiltölur fyrir og eftir innleiðingu árangursstjórnunar.
Settar voru fram fimm tilgátur. Þær voru; 1. að starfsánægja myndi aukast, 2. að starfsmannavelta myndi minnka, 3. að fjarvistum starfsmanna myndi fækka, 4. að framleiðsla myndi aukast og 5. að kostnaður myndi lækka eða aukast minna en á samanburðardeildunum.
Tölfræðilegar niðurstöðurnar voru að fjarvistum fækkaði og heildarkostnaður jókst minna á tilraunadeildunum en á samanburðardeildunum.