Möguleikar líferfðatækninnar á nýrri öld
Nokkrir af kunnustu sérfræðingum heims á opnu málþingi í Reykjavík
Möguleikar líferfðatækninnar á nýrri öld er yfirskrift málþings sem líftæknifyrirtækið Urður, Verðandi, Skuld gengst fyrir á Hótel Loftleiðum þann 12. júlí næstkomandi frá kl. 13.00 til 17.00. Fyrirlesarar eru meðal kunnustu sérfræðinga heims á sviði líftækni, auk þess sem lögfræðingar fjalla um lagalegar hliðar á starfsemi líftæknifyrirtækja. Þingið er liður í þeirri viðleitni UVS að stuðla að breiðri og upplýstri umræðu hér á landi um líftækni og erfðavísindi.
Bernhard Pálsson, stjórnarformaður Urðar, Verðandi, Skuldar og prófessor í lífverkfræði við Kaliforníuháskólann í San Diego opnar þingið. Þá talar Leroy Hood, prófessor í líftækni við Washingtonháskóla um líferfðatæknina, byltingu á nýrri öld. Hood er stofnandi fjölda fyrirtækja á sviði líftækni. Á eftir Hood talar Shankar Subramaniam um upplýsingabyltinguna í líffræði. Hann er prófessor í lífupplýsingatækni við Kaliforníuháskóla og Supercomputer Center í San Diego og stofnandi Biological Workbench á Veraldarvefnum. Hagnýting ofurgreiningartækni í lífvísindum er yfirskriftin á fyrirlestri Glen A. Evans. Hann er stofnandi nokkurra líftæknifyrirtækja, þar á meðal Nanogen sem stendur einna fremst í DNA flögutækni í dag. Þá talar Nick Short, fyrrverandi ritstjóri líffræðideildar vísindatímaritsins Nature um krabbamein: Frá sameindum til lækninga. Short er kunnur ráðgjafi á sviði líftækni. Síðastur í hópi vísindamannanna sem tala á málþinginu er Bruce Walsh, prófessor við háskólann í Arizona, en hann er líftölfræðingur og skrifaði eina helstu kennslubók sem til er á því sviði. Walsh fjallar um gildi öflugra ættfræðiupplýsinga
Tveir lögfræðingar flytja fyrirlestra á málþinginu. Cathryn Campbell, sérfræðingur í einkaleyfalögum talar um hagnýtingu hugverka á tímum líftækninnar og M. Wainwright Fishburn Jr. J.D., sem er kunnur lögmaður á sviði hlutafélagalaga og fyrirtækjarekstrar, ræðir um þroskaferil líftæknifyrirtækja.
Þingið fer fram á ensku og er öllum opið án endurgjalds. Málþingið er ekki einungis ætlað vísindamönnum, heldur öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér möguleika líferfðatækninnar á nýrri öld.
Málþingið er haldið í tengslum við fund Vísindaráðs Urðar, Verðandi, Skuldar á Íslandi en margir fyrirlesaranna eiga sæti í því. Þeir sem hafa áhuga á að sækja þingið eru vinsamlega beðnir um að skrá þátttöku í síma 525 3600, á www.uvs.is eða með tölvupósti til uvs@uvs.is.
(Fréttatilkynning frá UVS)