Tilraunaverkefni til eins árs um stofnun rannsóknarkjarna (miðlægrar rannsóknadeildar Landspítala, central laboratorium), hófst 7. maí 2012. Þetta er ný deild á Landspítala sem sameinar núverandi starfsemi klínískrar lífefnafræðideildar og starfsemi blóðmeinafræðideildar. Við breytinguna myndast sameiginlegur hópur fagfólks sem vinnur við þjónusturannsóknir í klínískri lífefnafræði og blóðmeinafræði og við blóðtökur á deildum, göngudeildum og víðar fyrir rannsóknarstofur Landspítala auk annarrar starfsemi.
Þessi sameining tengist meðal annars tilkomu svokallaðrar kjarnarannsóknarstofu (sólarhringsrannsóknarstofu) sem gert er ráð fyrir að taki til starfa síðari hluta þessa árs. Á kjarnarannsóknarstofu verða framkvæmdar rannsóknir tengdar flæðilínu sem mun einfalda og auka afköst við rannsóknir og býður upp á samnýtingu sérgreina á sjálfvirkum mælitækjum.
Tveir yfirlæknar starfa á "rannsóknarkjarna" með aðgreind verkefni:
-Yfirlæknir almennrar rannsóknarstofu, klínískrar lífefnafræði og sýnatökuþjónustu er Ísleifur Ólafsson
-Yfirlæknir blóðmeinafræði og storkumeinamiðstöðvar er Páll Torfi Önundarson
Lísbet Grímsdóttir lífeindafræðingur hefur verið settur deildarstjóri rannsóknarkjarna (bæði klíniskrar lífefnafræði og blóðmeinafræði) og starfar með báðum yfirlæknum sérgreinanna.