Aðstandendur Kristjönu Gísladóttur hafa fært skurðlækningadeild 12G á Landspítala að gjöf blóðþrýstingsmæli á hjólum sem jafnframt er súrefnismettunar- og hitamælir.
Tækið leysir af hólmi áratugagamlan búnað og kemur sér því vel. Kristjana var sjúklingur á deildinni og lést þar 29. ágúst 2011.
Við andlát og útför Kristjönu var ákveðið færa skurðlækningadeildinni minningargjöf og var stofnaður söfnunarreikningur í þeim tilgangi. Milli 50 og 60 manns lögðu í púkk sem nægði til þess að kaupa tækið frá umboðsfyrirtækinu Fastus og koma því í góð not.
"Besta gjöfin sem ég gef þessi jólin", sagði Borghildur Magnúsdóttir, dóttir Kristjönu, þegar hún, Gísli bróðir hennar og Magnús Haraldsson faðir þeirra, afhentu Elínu Maríu Sigurðardóttur deildarstjóra og öðru starfsfólki blóðþrýstingsmælinn og ostakörfu. "Okkur langaði að gera eitthvað sem kæmi að gagni því mamma var alltaf að hugsa um hvernig hún gæti þakkað ykkur."